10.03.1970
Efri deild: 53. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (1257)

78. mál, skipan opinberra framkvæmda

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, fjallar um skipan opinberra framkvæmda, eins og þær eru nánar skilgreindar í 1. gr. frv. Eru það raunar einvörðungu framkvæmdir á vegum ríkisins eða kostaðar af því, sem frv. fjallar um, og væri að mínu áliti raunar rétt að breyta fyrirsögn frv. í samræmi við það, því að auðvitað eru til fleiri opinberir aðilar en ríkið, svo sem sveitarfélög, bankar o. fl., en til framkvæmda þessara aðila taka ákvæði frv. ekki, nema ríkið taki þátt í kostnaði við þær. N. flytur að vísu ekki brtt. í þessa átt, en mér finnst þetta athugunarefni milli 2. og 3. umr.

Meginákvæði frv. eru þess efnis, að settar eru ákveðnar reglur um undirbúning slíkra framkvæmda- og áætlunargerða. Það má e. t. v. segja, að það sé að bera í bakkafullan lækinn að setja lög um áætlunargerð, þegar áætlanirnar, eins og þjóðkunnur gáfumaður komst að orði í útvarpinu í gærkvöld í þættinum Um daginn og veginn, flæða eins og holskefla yfir þjóðina úr ýmsum áttum. Víst er og um það að mínu áliti, að reynslan er í vaxandi mæli að kenna mönnum það, að áætlunarbúskapur er ekki sú allsherjarlausn mannlegra vandamála sem ætlað var, áður en víðtæk reynsla í því efni kom til sögunnar. En nauðsynlegt er í því efni að gera sér ljósan mun þann, sem er á áætlunarbúskap og áætlunargerð. Um nauðsyn hins síðarnefnda er í rauninni ekki ágreiningur, því að það leiðir af tækniþróuninni, að dýrar og varanlegar stórframkvæmdir eru í miklu ríkari mæli en áður var orðnar mikilvægur þáttur allrar framleiðslustarfsemi. Þarf því í senn að vanda meir til undirbúnings þeirra en var, þegar framkvæmdirnar voru minni háttar, og gera sér betri grein fyrir framvindunni, þannig að komið verði í veg fyrir sóun fjármuna. Ágreiningurinn er því í rauninni ekki um nauðsyn áætlunargerða, heldur hitt, hver skuli hafa þær með höndum, hvort allt skuli þar falið forsjá ríkisvaldsins eða hvort dreifa skuli ákvörðunarvaldinu. Ekki ræði ég þó þá hlið málsins nánar hér. En hvað sem henni líður, er fjhn. sammála um það, að settar séu með löggjöf fastar reglur í þessu efni um framkvæmdir á vegum ríkisins. Við leyfum okkur þó á þskj. 383 að flytja tvær brtt.

Önnur er við 1. mgr. 14. gr., og í henni felst, að reikningshald og greiðslur vegna verka flytjast frá framkvæmdadeild Innkaupastofnunarinnar, eins og frv. gerir ráð fyrir, til Innkaupastofnunarinnar. Þetta var gert samkv. ábendingu frá Innkaupastofnuninni og með meðmælum hagsýslustjóra, Gísla Blöndals.

Hin brtt. n. er við 23. gr. og er í því fólgin, að orðin „undir stjórn sérstaks forstjóra“ í 1. mgr. falli burt. Það kann að vera að sumu leyti andkannalegt, svo sem í frv. felst, að gera ráð fyrir tveimur forstjórum við sömu stofnun, en það þýðir auðvitað ekki, að framkvæmdadeildinni verði ekki að velja forstöðu á einn eða annan hátt, en við töldum þá eftir atvikum rétt, að það yrði reglugerðarákvæði, þannig að þetta félli burt úr frv.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þessa framsögu lengri, m. a. með tilliti til þess, að hæstv. fjmrh. hefur tvívegis skýrt frv. ítarlega í framsögu fyrir því hér í hv. d., og treysti ég mér ekki til þess að bæta þar neitt um, að því er snertir hina tæknilegu hlið. Það fer auðvitað ekki hjá því, að það verður fyrst og fremst reynslan, sem sker úr um nytsemi þeirra nýmæla, sem í frv. felast, en auðvitað verður það svo með þessa löggjöf eins og aðra, að henni má þá breyta með tilliti til fenginnar reynslu.

Herra forseti. Að svo mæltu legg ég til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 3. umr. með þeim tveimur brtt., sem n. leggur til.