19.12.1969
Neðri deild: 33. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

106. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta um Bjargráðasjóð Íslands hefur Ed. afgr. með shlj. atkv., en frv., eins og það liggur nú fyrir, hefur að geyma tvær meginbreytingar. Í fyrsta lagi er lagt til, að framlag sveitarfélaga og ríkissjóðs til Bjargráðasjóðs verði hækkað um 100% eða tvöfaldað. Gjaldið er nú 25 kr. á hvern íbúa, sem sveitarfélögin greiða af til sjóðsins. Ríkissjóður leggur jafnháa fjárhæð fram eins og samanlögð framlög sveitarfélaganna eru á hverju ári. Gjaldið hækkar þannig úr kr. 25.00 á íbúa í kr. 50.00.

Svo sem kunnugt er starfar Bjargráðasjóður í þremur deildum, sameignadeild, séreignadeild og afurðatjónadeild. Samkv. núgildandi l. er heimild fyrir Bjargráðasjóðsstjórn að lána fé frá einni deild til annarrar. Með frv. þessu er lagt til, að sjóðsstjórninni sé heimilt að lána þannig fé frá einni deild til annarrar án vaxtagreiðslu. Samkv. núgildandi l. er skylt að reikna vexti af slíku fé, en hér er lagt til, að heimilt sé að lána á milli deilda og reikna ekki vexti af því fé, sem þannig er lánað.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er samið af harðærisnefnd, en í aths. við frv. segir m.a. svo: „Framlög til Bjargráðasjóðs hafa ekki hækkað til samræmis við verð– og kauphækkanir í landinu. Verði frv. þetta að lögum, verður framlag á íbúa svipað og það var, fyrst þegar l. voru sett, sé miðað við tímakaup verkamanna.“

Svo virðist sem við búum nú við árferði, sem er verulega harðara en það árferði, sem ríkt hefur hér um 40–50 ára skeið og ekki sé ástæða til þess að vænta sérstaks bata í framtíðinni á því sviði. Samkv. því verður í framtíðinni að gera ráð fyrir nauðsyn aðstoðar, sem er hlutverk Bjargráðasjóðs að veita. Þessi síendurtekna tekjuaukning sjóðsins er því ekki að ófyrirsynju.

Að lokum er rétt að gera stutta grein fyrir styrkjum og lánum, sem Bjargráðasjóður hefur orðið að veita sl. 3 ár eða árin 1967–1969. Hér verður greint á milli harðærislána, sem veitt hafa verið samkv. till. harðærisnefndar og annarra lána. Á árinu 1967 voru harðærislán 10.060.000 kr. Önnur lán á því sama ári 7.101.000 kr., samtals 17.161.000 kr. Á árinu 1968 voru veitt harðærislán 5.767.750 kr. og önnur lán á því sama ári 2.988.500 kr. eða samtals veitt frá sjóðnum 8.756.250 kr. Á yfirstandandi ári til 1. des. höfðu verið veitt harðærislán 16.145.000 og önnur lán á þessu tímabili 3.593.100 eða samtals til 1. des. á þessu ári 19.738.100 kr. Við harðærislán á þessu ári eiga eftir að bætast um 25 millj. kr. vegna óáranar á þessu ári. Í byrjun næsta árs er gert ráð fyrir rúmlega 50 millj. kr. vegna þessarar óáranar. Öðrum lánum á árinu 1969 má skipta í tvo flokka. Vegna óveðurstjóna, vatnsflóða, bruna og skriðufalla 2.114.200 kr. Vegna búfjársjúkdóma 1.478.900 kr. eða samtals 3.5931.00 kr. Styrkveitingum þriggja síðustu ára má skipta í þrjá flokka. Í fyrsta lagi heyflutn.styrkir, sem nema 9.869.656 kr. Í öðru lagi styrkir vegna veiðarfæratjóns af völdum hafíss fyrir Norðurlandi 1.760.000 og í þriðja lagi aðrir styrkir 632.765 kr. eða samtals 12.261.778 kr. Hér við er svo þess að geta, að heyflutningastyrkir vegna ársins 1969 verða greiddir og nema þeir um 3.5 millj. kr. til viðbótar áðurnefndri upphæð.

Ég tel ekki, herra forseti, þörf á því að ræða þetta frv. frekar. Það var, eins og ég sagði, afgr. ágreiningslaust í hv. Ed. og ég vil vænta þess, að svo verði einnig hér og ef þess væri nokkur kostur, væri vegna framkvæmda á l., mjög æskilegt, að hægt væri að ljúka afgreiðslu þess, áður en þinghlé verður.

Ég legg til, að frv. verði vísað til hv. heilbr: og félmn.