10.03.1970
Efri deild: 53. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í B-deild Alþingistíðinda. (1260)

78. mál, skipan opinberra framkvæmda

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var hér til 1. umr., gerði ég nokkrar aths. við það. Ég lýsti fylgi mínu við frv. eða meginstefnu þá, sem er í þessu frv. fólgin, og ég er að sjálfsögðu sama sinnis um það. En ég benti á nokkur atriði, sem mér sýndist vera ástæða til að taka til frekari athugunar, og geri ég ráð fyrir því, að hv. n., sem hefur fjallað um frv., hafi íhugað þau atriði, en hún hefur ekki séð ástæðu til að flytja brtt. nema um eitt atriði, að vísu atriði, sem ég benti þá á, þ. e. a. s. að hún hefur fallið frá því að stofna til sérstaks embættis forstjóra framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar ríkisins. En að öðru leyti hefur ekki verið tekið tillit til ábendinga minna.

Nú skal ég ekki fara að endurtaka það, sem ég þá sagði, en vil aðeins nefna hér tvö eða þrjú atriði, sem mér sýnist enn þá vera dálítið vafasöm og jafnvel óljós. Það er í fyrsta lagi þetta, sem hv. frsm. n. vék að, um nafngift frv. Segja má, að hún orki mjög tvímælis miðað við það, sem hann taldi, að l. væri ætlað að taka til. Nú er það svo, að hér í 3. mgr. 1, gr. er gert ráð fyrir því, að ríkisstj. geti ákveðið, að l. taki til ríkisstofnana, sem hefðu sérskilinn fjárhag. Ég fyrir mitt leyti teldi, að það væri ástæða til þess að láta þessi lög beinlínis taka til slíkra ríkisstofnana, þó að þær hafi aðskilinn fjárhag. Ég held, að það sé í raun og veru æskilegt og nauðsynlegt, til þess að sá tilgangur náist, sem ég held, að hljóti að búa að baki þessa frv. En ýmsar þýðingarmiklar ríkisstofnanir, sem standa utan fjárl., standa að framkvæmdum ekki síður en aðrir opinberir aðilar. Má t. d. nefna þar alla ríkisbankana, fyrirtæki eins og Sementsverksmiðju ríkisins, Áburðarverksmiðju ríkisins o. fl. Þó að þessar stofnanir séu ekki teknar upp á fjárl., þ. e. þær hafi sjálfstæðan fjárhag, þá finnst mér full ástæða til, að þær hlíti því skipulagi, sem sett er upp með þessum lögum, og skal ég ekki fara fleiri orðum um það. Ég bendi á þetta, en ég hef ekki, a. m. k. á þessu stigi gert neina brtt. um þetta atriði.

Í annan stað gat hv. frsm. þess, að þessu frv. eða þessum lögum væri ekki ætlað að taka til framkvæmda á vegum sveitarfélaga, og það virðist nú augljóst eftir því, hvernig þetta frv. er orðað. En nú er það svo, að ákaflega mörg mál eru orðin sameiginleg mál hjá sveitarstjórnum og ríkinu og þar á meðal, að ég held, mikilvæg framkvæmdamálefni. Hvernig er þá litið á slík mál? Heyra slíkar framkvæmdir undir þessi lög eða ekki? Það er ekki alveg ljóst í mínum huga, t. d. hafnarmál, hafnarframkvæmdir. Ég held, að það væri ástæða til að hafa þetta nokkuð skýrara.

Þá vil ég benda á 3. mgr. í 21. gr., þar sem segir: „Heimilt er að fela einstökum ríkisstofnunum umsjón nánar skilgreindra flokka opinberra framkvæmda, enda hafi þessar stofnanir aðstöðu til að annast þetta verkefni.

“Ég geri ráð fyrir, að þarna séu hafðar í huga framkvæmdir eins og vegaframkvæmdir og því um líkt. Það má vel vera, að það sé ástæða til þess að undanskilja þær. Ég fellst á það út af fyrir sig. En mér finnst samt vanta nokkru nánari skilgreiningu á því, hvers konar ríkisstofnanir þetta séu og hvers konar framkvæmdir þarna sé um að tefla. Þetta er talsvert opið, eins og þetta er, og æði víðtæk heimild.

Svo tek ég undir það og ætlaði að benda á það, sem hv. síðasti ræðumaður benti á, að það hljóti aðeins að vera gleymska hjá hv. n., að hún hefur ekki breytt 22. gr. í samræmi við þá brtt., sem hún flytur við 23. gr. Ég geri ráð fyrir því, að það sé ekki vafi á því, að hún ætlist til þess, að 22. gr. breytist í samræmi við það, og það sé ekki gert ráð fyrir forstjóra framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar ríkisins, sem sitji í þessari samstarfsnefnd. Þá er spurningin, hver eigi að koma þar í staðinn. Ég held, að ég hafi bent á það við 1. umr. málsins, að mér þætti á skorta um samsetningu þessarar n. Það, sem mér þykir á skorta, er, að það er a. m. k. engin trygging fyrir því, að neinn af þessum nm. hafi sérstaka verkkunnáttu, verkfræðilega kunnáttu eða verkfræðilega menntun. En mér sýnist, að það væri einmitt mikil ástæða til þess, að maður með slíkri kunnáttu ætti sæti í þessari n. Og ég veit ekki, hvort það væri hægt að koma því við einmitt í sambandi við þá breytingu, sem hlýtur að verða á þessu ákvæði, þegar forstjóri framkvæmdadeildarinnar er felldur niður. En þó að formaður fjvn. og hagsýslustjóri séu fróðir menn um fjármál og hagsýslu, þá hygg ég, að þegar um slíkar framkvæmdir er að tefla, þá saki ekki að hafa mann, sem hefði einmitt sérstaka framkvæmdaþekkingu eða kunnáttu, ef svo má segja. Á þetta vildi ég benda aðeins, en ætla mér ekki að fara nánar út í þetta að öðru leyti og ekki rifja það upp, sem ég áður sagði um þetta. En ég teldi æskilegt, að n. tæki þetta þó eitthvað enn til yfirvegunar á milli 2. og 3. umr.

Að lokum vil ég aðeins víkja að annarri þeirri brtt., sem hv. 3. landsk. bar hér fram, þ. e. a. s. þeirri brtt., sem lýtur að 17. gr. Ég er þeirri brtt., sem hann mælti fyrir þar, algerlega andvígur. Ég held einmitt, að það sé meginatriði, að það séu þeir, sem verkið er unnið fyrir, sem hér eru kallaðir eignaraðilar, sem fá aðstöðu til þess að fylgjast alveg sérstaklega með, hvernig þetta verk er unnið, hvernig að því er staðið og hvernig m. a. er að því staðið af framkvæmdadeild Innkaupastofnunarinnar. Ég held, að þetta eftirlit næði ekki fullkomlega tilgangi sínum, ef það væri framkvæmdadeildin sjálf, sem ætti að hafa það með höndum. Ég held, að þessir eftirlitsmenn hljóti að vera einmitt sérstakir trúnaðarmenn þessara eignaraðila, sem kallaðir eru, sem þarna koma við sögu, og ég get þess vegna ekki greitt þeirri brtt. atkv.

Það er nú svo, að þetta frv. er sjálfsagt nýsmíð á þessu sviði, og þrátt fyrir það, þó að það hafi nú verið rækilega undirbúið, að sagt er, þá sýnist mér, að ýmislegt sé í því, sem ekki er fyllilega ljóst, og getur e. t. v. orðið tilefni til einhvers misskilnings eða a. m. k. þess, að menn líti mismunandi augum á það eða leggi mismunandi skilning í þessi ákvæði. En ég ætla ekki að fara nánar út í það á þessu stigi, en endurtek það, að ég er sammála þeirri stefnu, sem felst í þessu frv., en teldi, að sú stefna þyrfti að ná til fleiri framkvæmda en opinberra og frv. þyrfti í raun og veru að vera víðtækara. En þó að það sé takmarkað við þessar opinberu framkvæmdir eða réttara sagt, þær greinar opinberra framkvæmda, sem því er ætlað að fjalla um, þá tel ég, að það geti verið bót að því á því sviði. Ég er ekki í efa um, að það er skynsamlegt að gera ráðstafanir í þessa átt.