17.03.1970
Efri deild: 57. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í B-deild Alþingistíðinda. (1266)

78. mál, skipan opinberra framkvæmda

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil aðeins geta þess út af því, sem hv. frsm. n. sagði hér áðan, að hann hefði rætt við formann Sambands ísl. sveitarfélaga og hann hefði talið, að brtt. hv. 3. landsk. þm. mundi ekki á neinn hátt brjóta í bág við hagsmuni sveitarfélaga, og frsm. lét þau orð falla, að þá væri af þeirri ástæðu ekki nein rök til þess, að vera á móti þessari brtt. En ég held, að það sé nokkuð vafasamt að byggja slíka staðhæfingu á ummælum frá formanni samtaka sveitarfélaga. Ég býst við því, að hann geti naumast undirbúningslaust talað þannig í nafni sveitarfélaga eða lýst yfir því í þeirra nafni, að þau kæri sig ekki um að hafa þetta eftirlit eða hafa þannig hönd í bagga með þessu, eins og gert er ráð fyrir í frv. Þess vegna er ég þrátt fyrir þessa yfirlýsingu sama sinnis eins og áður, að ég tel þessa breytingu út af fyrir sig ekki til bóta. Ég tel eðlilegt, að sveitarfélög eða þeir eignaraðilar, sem þarna er um að tefla, — það geta hugsanlega verið fleiri en sveitarfélög, því að það er heimild til þess að láta lögin ná til fleiri aðila, — geti haft hönd í bagga.

Í öðru lagi verð ég að láta í ljós nokkra aðdáun á því, hversu listilega n. hefur tekizt að sigla fram hjá þessu skeri, sem var í 22. gr., er 23. gr. var breytt og fellt niður, að það skyldi skipaður sérstakur forstjóri. Ástæðurnar voru þær, að á það hafði verið bent við 1. umr. þessa máls, að það mundi vera óþarfi að setja þannig upp sérstakt embætti, og það væri bezt að komast hjá því að koma þannig á sérstöku bákni. En eftir sem áður stóð nú forstjóri í 22. gr. En nú hefur hv. n. komizt fram hjá því skeri með því að breyta forstjóra í forstöðumann.

Nú er mér ekki alveg ljóst, hver greinarmörkin eru á milli þess að vera forstjóri eða forstöðumaður fyrir stofnun. Ég get þess vegna ekki betur séð en það sé komið þarna nokkuð aftur í sama farveg eins og upphaflega var gert ráð fyrir, að það sé skipaður sérstakur embættismaður til þess að standa fyrir þessari starfsemi, en hann fær að vísu ekki löggilt heitið forstjóri, heldur skal hann heita forstöðumaður. Ég get ekki betur séð en þarna sé um hreinan orðaleik að tefla.