22.04.1970
Sameinað þing: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1075 í B-deild Alþingistíðinda. (1310)

227. mál, fjáraukalög 1968

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það til fjáraukalaga fyrir árið 1968, sem hér liggur fyrir, skýrir sig sjálft, og þarf ég því ekki mörg orð til að fylgja því úr hlaði. Það er að vísu uppsett með nokkuð öðrum hætti en undanfarin ár, sem stafar af hinni breyttu skipan á uppsetningu fjárl. og ríkisreiknings, en nú er uppsetningin á þann veg, að útgjaldaliðum er raðað eftir rn., en ekki eftir málefnaflokkum. Frv. er samið eftir till. yfirskoðunarmanna ríkisreiknings og í samræmi við ríkisreikning, og er lagt til, að aflað verði aukafjárveitingarheimildar fyrir umræddum fjárhæðum, sem samtals nema 782 millj. og 40 þús. kr.

Ég tel ástæðu til þess að leggja áherzlu á þá skýringu, sem fram kemur í aths., án þess að fara að eyða um það fleiri orðum, hvernig meiri hl. þessarar fjárhæðar er til orðinn, eða um 441 millj. kr., sem ekki eru eiginleg útgjöld umfram fjárl. sem slík, heldur er þar um að ræða útgjöld samkv. sérlögum og útgjöld vegna markaðra tekjustofna, þannig að til þess að fá raunverulega fram þá tölu, sem svarar útgjöldum umfram fjárlög, þá ber að draga þá upphæð frá. Að öðru leyti gerði ég grein fyrir afkomu ársins 1968 í sambandi við meðferð fjárl. fyrir yfirstandandi ár, og sé ég ekki ástæðu til þess að fara frekari orðum um frv., nema tilefni gefist til, og legg til, herra forseti, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjvn.