04.11.1969
Efri deild: 10. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1077 í B-deild Alþingistíðinda. (1320)

50. mál, Siglingamálastofnun ríkisins

Axel Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara hér út í einstök atriði, einstakar greinar frv. Ég vil aðeins láta í ljós við 1. umr. þá skoðun mína, að hér er vissulega um „prinsip“-atriði að ræða, þ. e. a. s. að færa hér saman undir eina stofnun allvíðtæk verkefni, sem mér skilst að séu að nokkru unnin af öðrum aðilum, og mér þykir nokkuð einsýnt, að við höfum þegar fyrir stofnanir, sem allt eins geti starfað að þeim málum áfram og geti verið heppilegt frekar að efla þær en að draga þetta saman undir eina stóra stofnun.

Ég get ekki látið hjá líða að vekja athygli á því, að hér hlýtur að vera á ferðinni allfjölmenn og stór stofnun, miðað við þá lýsingu, sem gefin er í frv. á því starfsliði, sem stofnunin þarf á að halda. Og ég hygg, að það sé ekki alls kostar rétt, þegar það er athugað og borið saman við starfsmannahald stofnunarinnar nú, sem fram kemur í aths. með frv., að það sé ekki gert ráð fyrir aukningu á starfsliði. En eins og fram er tekið í 7. gr. frv., þá á þar í fyrsta lagi að vera staðgengill siglingamálastjóra, sem krafizt er hliðstæðrar menntunar af og siglingamálastjóranum. Þar að auki skulu svo vera einn eða fleiri sérmenntaðir menn í 12 sérgreinum, sem þar eru upp taldar. Það er eðlilegt, að síðan sé tiltekið í 9. gr., að það sé eftirlitsmaður fyrir hvert svæði. En því til viðbótar er ákvæði um, að siglingamálastjóri geti, ef hann telur ástæðu til, skipað sérstaka trúnaðarmenn til þess að taka að sér tiltekna þætti af störfum eftirlitsmanna. Og í 12. gr. segir enn fremur, að Siglingamálastofnunin skuli þessu til viðbótar einnig hafa starfandi umferðareftirlitsmenn, sem ferðist um landið í sínu starfi, en þess á milli starfi þeir á skrifstofu Siglingamálastofnunarinnar. Þetta eru allt saman, eftir því sem maður fær skilið, fastráðnir starfsmenn, sem taka laun samkv. hinu almenna launakerfi ríkisins. Þessu til viðbótar eru svo skoðunarmenn og mælingamenn, sem siglingamálastjóri getur samkv. frv. ráðið eftir þörfum að hans dómi, en þeir taka laun samkv. reglum, sem ráðh. setur að fengnum tillögum siglingamálastjóra.

Mér sýnist því, að hér sé í uppsiglingu allviðamikið skrifstofubákn, sem hljóti að verða nokkuð dýrt í meðförum.

Ég vil einnig að lokum vekja athygli á því, sem ég tel einnig, að sé aðeins villandi í aths. með frv., þar sem sagt er, að Siglingamálastofnunin verði þá hliðstæð við embætti vegamálastjóra og flugmálastjóra. Bifreiðaeftirlit ríkisins, sem sér um öll öryggismál varðandi bifreiðar, er sjálfstæð ríkisstofnun, og varðandi flugmálastjóra er það að segja, að yfirstjórn flugmála næst ráðh. er flugráð og flugmálastjóri er undir það settur, nánast framkvæmdastjóri flugráðs, þannig að þessi samanburður, sem er gerður í aths. með frv. á þessum tveimur embættum, er að mínu viti nokkuð villandi.

Herra forseti. Ég sagði í upphafi, að ég ætlaði ekki að fara út í einstök atriði öllu frekar en ég hef gert. Ég vil vekja athygli á þessu við 1. umr. málsins, að hér er ástæða til þess að staldra við og hugleiða. Hér er um „prinsip“-mál að ræða, hvort draga á saman í eina stóra stofnun þætti, sem vissulega væri kannske eins heppilegt að væru unnir áfram að einhverju leyti hjá þeim stofnunum, sem fyrir eru og hafa sinnt þessu til þessa.