14.04.1970
Neðri deild: 72. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1081 í B-deild Alþingistíðinda. (1330)

50. mál, Siglingamálastofnun ríkisins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur verið samþ. í Ed., en með allmikilli breyt., eins og sjá má, ef hv. alþm. bera saman frv. eins og það er nú og eins og það var, þegar það var lagt fram. Nafni frv. hefur verið breytt. Þegar það var lagt fram, var það frv. til l. um Siglingamálastofnun ríkisins, en hefur fengið aftur gamla nafnið Skipaskoðun ríkisins. Út af fyrir sig er ekki mikið við því að segja, hvaða nafn er á lögum, en það er þó ljóst, að lög um Skipaskoðun ríkisins spanna ekki yfir það verksvið, sem þessari stofnun er ætlað að ná. Ég verð að biðja hv. n., sem fær þetta mál til athugunar, að athuga, hvort ekki er hægt að finna eitthvert annað nafn, sem betur dugar og spannar yfir verkefnið, ef nafnið, sem upphaflega var á frv., Siglingamálastofnun ríkisins, þykir ekki hæfa.

Það er þó veigamest, hvernig lögin eru sjálf úr garði gerð. Hlutverk stofnunarinnar er víðtækt, talið upp í 11 liðum, samkv. 2. gr. frv., þ. e. að stofnunin á að vera ríkisstj. til ráðuneytis um siglingamál og skipasmíðar, eftir því sem hún telur þörf á; að annast eftirlit með nýsmíði skipa, búnaði, breytingum og flutningi og annað almennt eftirlit skipa samkvæmt lögum um eftirlit með skipum; að annast framkvæmd alþjóðasamþykkta um öryggi mannslífa á hafinu, sem Ísland er aðili að, og gefa út skipsskjöl fyrir íslenzk skip samkv. þeim; að annast framkvæmd alþjóðahleðslumerkja samþykkta, sem Ísland er aðili að; að ákvarða hleðslumerki fyrir fiskiskip eftir nánari reglum, sem ráðh. setur; að fylgjast með rannsókn sjóslysa hjá siglingadómi og sjódómi; að annast framkvæmd laga um varnir gegn óhreinkun sjávar af völdum olíu; að annast framkvæmd laga og reglna um mælingu skipa svo og mál, er varða alþjóðasamþykkt um mælingu skipa; að annast framkvæmd laga um skráningu skipa; að annast af Íslands hálfu samstarf við Alþjóðasiglingamálastofnunina (IMCO); að annast mál, er varða siglingalög og sjómannalög. Þetta er nokkuð af þeim verkefnum, sem Skipaskoðun ríkisins, eða Siglingamálastofnun ríkisins, sem henni var ætlað að heita, er ætlað að inna af höndum.

Frv. þetta var í meginatriðum samið á árinu 1967 og lagt fram á löggjafarþingi 1967–1968, en hefur ekki náð fram að ganga.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fara að ræða nánar þetta frv., sem legið hefur frammi alllengi og hv. alþm. hafa kynnt sér. Skipaskoðunarstjóri mun óska eftir því að fá að koma á fund hv. n., sem málið fær til meðferðar, og ræða frv. í heild og þær breyt., sem á því hafa verið gerðar í hv. Ed. Komist hv. n. að þeirri niðurstöðu, að nauðsynlegt sé að breyta frv. aftur í áttina við það eins og það var, þegar það var upphaflega lagt fram, þá er vitanlega sjálfsagt að gera það í trausti þess, að hv. Ed. fallist þá á frv. þannig breytt.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.