28.04.1970
Efri deild: 82. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í B-deild Alþingistíðinda. (1337)

50. mál, Siglingamálastofnun ríkisins

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. um Siglingamálastofnun ríkisins hefur áður hlotið afgreiðslu í þessari hv. d. Voru þá gerðar á frv. nokkrar breytingar, sem hlutu einróma samþykki deildarinnar. Nú kemur málið fyrir á ný, þar sem Nd. hefur breytt frv. og í sumum atriðum að verulegu leyti. Sjútvn. Ed. hefur á fundi sínum tekið mál þetta til athugunar á ný. Það er einróma álit n., að sumar þær breyt., sem hv. Nd. hefur samþ., séu sízt til bóta og ekki til þess fallnar að auka öryggi sjófarenda frá því, sem frv. í þeirri mynd, sem hv. Ed. afgreiddi það, tryggði.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fjölyrða um málið að þessu sinni, en vísa til þess, sem fram kom, þegar málið var hér við 2. umr. Ég vil þó með örfáum orðum víkja lítið eitt að þeim till., sem hv. sjútvn. hefur nú leyft sér að flytja við frv., svo sem fram kemur á sérstöku þskj. Kemur þar fyrst brtt. n. varðandi nafn stofnunarinnar. Segja má, að það sé algert aukaatriði, hvað stofnunin heitir. Hitt skiptir meira máli, löggjöfin, sem ákveður starfssviðið, og að hún sé í samræmi við þau störf, sem stofnuninni er ætlað að inna af hendi. Við teljum þó, að nafnið Skipamálastofnun ríkisins nái betur því hugtaki, sem verkefni stofnunarinnar raunverulega eru, heldur en Siglingamálastofnun ríkisins.

Varðandi brtt. n. við 6. gr. frv. vísa ég til þess, sem ég hef áður sagt, en þar er meginmunur á efni okkar till. og frv., eins og það nú er. Við segjum: „Eigi má skipaskoðunarstjóri eða aðrir, sem eru í fullu starfi hjá Skipamálastofnun ríkisins, hafa á hendi störf, sem eru ósamrýmanleg stöðu þeirra og háð kunna að vera þeirra eigin mati sem starfsmanna Skipamálastofnunar ríkisins, svo sem eftirlit með skipum eða vélum fyrir einstaklinga, félög eða opinberar stofnanir.“

Varðandi sjóslysamálin berum við fram þá till. við þetta frv., að 6. tölul. 2. gr. orðist svo sem þar segir: „Að fylgjast með rannsókn sjóslysa hjá siglingadómi.“

Að öðru leyti eru till. okkar hér um við annað frv., frv. til l. um eftirlit með skipum, sem væntanlega verður til umr. hér á eftir, en í því sambandi vísa ég til þess, sem fram kom við 2. umr. um það mál, þegar það var til umr. hér í hv. d. Við teljum, að sjóslysin séu svo alvarleg mál, að einskis megi láta ófreistað til þess að upplýsa þau og fá sem hlutlægastar upplýsingar um margt, sem þau varðar. Þess vegna berum við fram till. um skipun óháðrar n., sem hafi heimild til þess að ráða sér siglingafróðan mann sem starfsmann. Skal verkefni hans vera að upplýsa orsakir sjóslysa, eftir því sem við verður komið, og koma á framfæri leiðbeiningum um slysavarnir og varúðarráðstafanir. Ber starfsmanni n. að mæta við sjópróf, ef um er að ræða manntjón eða veruleg meiðsli manna. Með þessu er átt við, að sami maður verði viðstaddur öll slík sjópróf og sjódóma, hvar sem er á landinu, en það ætti að tryggja betri upplýsingar um þessi mikilsverðu mál en ella. Þá er til þess ætlazt, að starfsmaðurinn í samráði við n. og skólastjóra Sjómannaskólans skipuleggi meðal sjómannsefna kennslu í slysavörnum, er miðist m. a. við að skýra helztu orsakir sjóslysa hér við land og hvernig unnt sé að forðast þau. Að öðru leyti er gert ráð fyrir, að verksvið starfsmannsins ákveðist með reglugerð, sem ráðh. setur að fengnum till. n. Varðandi þetta mál vil ég leyfa mér að vænta þess, að hv. þdm. hafi ekki skipt um skoðun og samþykki því þær till., sem n. hefur nú endurflutt.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða um málið og vænti þess, að till. n. hljóti samþykki og frv. þannig breytt hljóti fullnaðarafgreiðslu hv. Ed.