29.04.1970
Neðri deild: 89. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í B-deild Alþingistíðinda. (1345)

50. mál, Siglingamálastofnun ríkisins

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til viðbótar við þau orð, sem hv. síðasti ræðumaður hafði hér fyrir hönd sjútvn. þessarar deildar.

Í sambandi við 6. gr., sem varðar Siglingamálastofnun ríkisins, Skipamálastofnun ríkisins eða Skipaskoðun ríkisins, eins og hv. Ed. vildi upprunalega hafa heitið á þessari virðulegu stofnun, — en hefur nú þegar viðurkennt, að það spannar ekki yfir það, sem þessi stofnun á að vinna, og hefur þess vegna breytt því heiti í Skipamálastofnun, vil ég aðeins taka það fram, þegar saumað er að, að því er ég tel, einum opinberum embættismanni, eins og reyndar er gert í gr. án þess að láta þann endahnykk á gr. fylgja með, sem gerður er, að þá vil ég aðeins láta skoðun mína á þessu máli koma í ljós á þann veg, að ríkisvaldið, ríkisstj. eða opinberir aðilar á hverjum tíma þurfa og eiga að geta leitað til embættismanns, sem er tæknimenntaður, til þess að ráðleggja þeim eða til þess að fylgjast með hlutum, þegar á þarf að halda, t. d. í sambandi við nýbyggingu skipa. Þetta hefur verið gert á undanförnum árum, ég vil segja allt frá því að vinstri stjórnin var hér við völd, en þá vissi ég til þess, að þeim embættismanni, sem skipar þessa stöðu, var falið fyrir hönd ríkisvaldsins að fylgjast með byggingu hinna svokölluðu austur-þýzku togara. Þetta hefur komið fyrir æ síðan, og nú vitum við, að þessi embættismaður, vegna þess að hann er embættismaður ríkisins, — hann er fulltrúi ríkisvaldsins, — hefur verið skipaður til þess að fylgjast með byggingu skipa, sem byggð eru á vegum ríkisins. Á ég þar við bæði hafrannsóknaskipið, sem hleypt var af stokkunum nú fyrir tveim eða þrem dögum, og skip það, sem hefur þegar hafið siglingu hér umhverfis landið, skip Skipaútgerðar ríkisins, Hekluna, en ég tel, að ef við samþykkjum frv. með þeirri hljóðan 6. gr., eins og Ed. leggur til, þá getum við ekki falið þessum embættismanni að fylgjast með því, sem er að gerast á þessu sviði. Ég tel það ekki frambærilegt fyrir okkur, að þeir ráðamenn, sem meiri hl. Alþ. á hverjum tíma felur að fara með þessi mál, í þessu tilfelli sjútvrh. eða siglingamrh., geti ekki leitað til embættismanns ríkisins til þess að láta hann fylgjast með fyrir hönd þeirra, sem standa í þessum framkvæmdum.

Ég tel því, að hér sé allt of langt gengið, sérstaklega þegar við horfum á þá hljóðan, sem á undan er í gr. Það er enn þá fastar kveðið á í þessari till. heldur en í núgildandi lögum um skipaeftirlit, þar sem aðeins er getið um sjálfan skipaskoðunarstjóra, að hann megi ekki hafa störf á hendi fyrir einkaaðila og aðra slíka eða opinbera aðila. Hér er talað um alla starfsmenn þessarar væntanlegu og núverandi stofnunar, þótt hún breyti um heiti, þannig að hér er auðvitað miklu fastar kveðið á heldur en áður var, og ég tel það gott og gilt, að við gerum það.

Ég tel, að það styðji enn frekar mál okkar og skoðanir okkar í sjútvn. þessarar hv. d., að við föllumst á skoðanir sjútvn. hv. Ed. um það, að það skuli setja á stofn sérstaka rannsóknarnefnd, sem fari með rannsókn sjóslysa, þó ekki einhliða, vegna þess að það eru önnur lög, sem kveða á um það, að bæði siglingadómur og sjódómur fari með rannsókn þeirra mála, sem heyra þeim til.

Ég vil taka það fram persónulega, og ég mæli þar fyrir munn, held ég, allra nm. í sjútvn., að auðvitað kjósum við frekar, að til sé slík n., sem jafnvel hafi aðstöðu til þess að rannsaka slík mál, ef þau e. t. v. varða þetta embætti, sem á að fylgjast með öryggismálum. Við höfðum hins vegar nokkuð í huga, að þetta mun valda ærnum kostnaði fyrir þjóðfélagið, og við töldum, að það væri hægt að binda þetta tvennt saman, og við reynum það enn í þessum brtt., sem við flytjum, að spara nokkuð bæði skriffinnsku, skrifstofumennsku og annað þess háttar, sem þessu starfi mun fylgja. Vegna þess, hvað þessir menn eiga að gera, þá reynum við að tengja það nokkuð saman, þannig að þarna eigi að vera um nokkurt samstarf að ræða, því að við erum allir í sjútvn. Nd. sammála um, að það er útilokað að skera frá embætti Siglingamálastofnunarinnar eða frá þeim mönnum, sem þar vinna við það að fylgjast með sjóslysum, fylgjast með rannsóknum þeirra og koma á framfæri ekki aðeins við byggjendur skipa, heldur og útgerðarmenn og sjómenn því, sem má að finna í sambandi við búnað og annað, þannig að þetta verður að tengja saman.

Okkar meginröksemd við fyrri umr. í sambandi við þetta mál gegn því að samþykkja óbreytt það, sem kom frá hv. Ed., var það, að þetta var ótengt saman. Ég tel hins vegar, að eins og þetta hljóðar nú, komið frá sjútvn. þessarar d., þá sé búið að tengja þetta svo mikið saman, komið til móts við skoðanir sjútvn. hv. Ed., að allir megi vel við una. Látum það vera, þótt það komi fyrir á einum áratug einu sinni, að mál fari fyrir Sþ. Ég held, að það megi þá gjarnan koma fyrir einu sinni, ef tvær n., frá hvorri d., eru ósammála, að þær þá ræði um málin, en ég held, að það eigi ekki að þurfa miklar umr. um þetta úr þessu.

Hitt er annað mál, að ég veit og geri mér grein fyrir því, að það er andstaða enn gegn þessu nafni á þessari stofnun, sem upprunalega var í frv., sem ríkisstj. lagði fyrir hv. Alþ., en eins og við sjáum hér í hv. d. í dag, hefur hv. Ed. viðurkennt það, að það nafn, sem hún lagði til áður en málið kom til okkar í fyrstu, nær ekki yfir þá starfsemi, sem þessari stofnun er ætlað að sinna og hún sinnir nú þegar.