24.04.1970
Neðri deild: 81. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1096 í B-deild Alþingistíðinda. (1368)

5. mál, skipamælingar

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Eins og ég gat um áðan, þá er þetta frv. fylgifrv. með því frv., sem hv. d. afgreiddi hér næst á undan.

Endurskoðun laga um skipamælingar er nauðsynleg vegna þess, að ný alþjóðasamþykkt um mælingar skipa, International Convention on Tonnage Measurements of Ships, var undirrituð í London, m. a. af Íslands hálfu, hinn 23. júní 1969, og gert er ráð fyrir, að hún taki alþjóðlegt gildi fljótlega. Með 2. gr. frv. er heimilað að staðfesta fyrir Íslands hönd þessa alþjóðasamþykkt, en þar til sú samþykkt tekur gildi hér skal mæla skip samkvæmt svonefndri Oslóar-samþykkt um skipamælingar frá 1947 ásamt síðari breytingum.

Í hv. Ed. komu ekki fram neinar brtt. við þetta frv. aðrar en þær, sem fylgdu breyt., sem d. gerði á heiti stofnunarinnar úr Siglingamálastofnun í Skipaskoðun ríkisins. Samkvæmt því, sem hv. d. hefur þegar ákveðið í sambandi við frv. til l. um Siglingamálastofnun ríkisins, þ. e. að breyta heiti stofnunarinnar aftur í upphaflegt horf, leggur sjútvn. til, að við 2. gr. frv. komi í stað orðsins „skipaskoðunarstjóri“, og hvarvetna síðar í frv. í viðeigandi beygingarföllum: siglingamálastjóri. Þetta er eina brtt., sem sjútvn. flytur við þetta frv. Að öðru leyti mælir hún með því, að frv. verði samþ. óbreytt.