18.12.1969
Neðri deild: 30. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

136. mál, verðlagsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Efni þessa frv. er mjög einfalt. Í því felst það, ef samþ. yrði, að umboð verðlagsnefndar, þeirrar n., sem fer með verðlagsákvörðun samkv. gildandi 1., yrði framtengt um eitt ár eða til ársloka 1970. Mér þykir mjög miður og bið hæstv. forseta og hv. þdm. raunar velvirðingar á því, að þetta frv. skuli ekki hafa verið lagt fyrir þingið fyrr, en í gær. Það verður að segja hverja sögu eins og hún gengur, að hér er við okkur í viðskrn. að sakast. Því hafði ekki verið veitt athygli fyrr en í gær, að ákvæði gildandi 1. um valdsvið verðlagsnefndar er tímabundið og valdsvið hennar rennur út um næstu áramót. Með hliðsjón af því, að þessi ákvæði, sem hér er gert ráð fyrir að framlengja, voru samþ., að því er ég bezt man með shlj. atkv. á síðasta þingi, vona ég, að þetta komi ekki að sök. Hér er m.ö.o. ekki um lagaákvæði að ræða, sem neinum ágreiningi hafa valdið í hinu háa Alþ., þegar þau voru sett.

Með hliðsjón af því, hvað efni málsins er einfalt og ég vona, að sú eining, sem um þetta atriði ríkti á síðasta þingi, gildi enn, vildi ég leyfa mér að mælast til þess, til þess að spara þm. tíma, að málið þurfi ekki að ganga til n. Að sjálfsögðu hef ég ekkert á móti því, að það geri það, ef einhver óskar eftir því, en það mun þá vera fjhn., sem um málið fjallaði nú eins og áður. En í trausti þess, að hér sé ekki nú frekar, en áður um neitt ágreiningsmál að ræða, geri ég ekki till. um nefndarskipun, en óska þess, að hið háa Alþ. afgreiði þetta frv., áður en það fer í jólaleyfi.