14.04.1970
Neðri deild: 72. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1115 í B-deild Alþingistíðinda. (1460)

13. mál, hægri handar umferð

Frsm. minni hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá frsm. meiri hl. allshn., þá hefur allshn. haldið nokkuð marga fundi um þetta mál, en gat samt ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa frv. Meiri hl. leggur til, að það verði samþ. með svolitlum breytingum, en aðalbreyting þess er þó sú, að styttur verði sá tími, sem upphaflega var áætlað að þessi skattur yrði innheimtur.

Í sambandi við umferðarbreytinguna 1968 voru bifreiðaeigendur látnir borga sérstakan skatt, eins og menn muna eftir, til að standa undir þeim kostnaði, sem af breytingunni leiddi, og skyldi þessi skattur renna út nú á árinu 1970. Í upphafi var gert ráð fyrir, að umferðarbreytingin mundi kosta um 50 millj. kr., og að sögn þeirra, sem framkvæmdina höfðu undir höndum, hefur kostnaðurinn reynzt vera um 71 millj. Þó er við þá tölu að athuga, að ýmis kostnaður mun ekki vera þarna meðtalinn, sem er þó bein afleiðing af sjálfri umferðarbreytingunni, og hefur hann verið færður á ýmsa aðra liði og aðila, t. d. vegagerðina, sveitarfélög o. s. frv. Þegar þessi hægri skattur var lagður á bifreiðaeigendur, var gert ráð fyrir, að hann mundi nema á þessum 4 árum um 56 millj. kr. Nú er hins vegar sagt, að hann muni ekki ná þeirri upphæð, þar sem ekki hafi verið tekið tillit til endurgreiðslu skattsins vegna innilegu skrásetningarmerkja. Ekkert liggur þó fyrir um það, hvaða áhrif það muni hafa á hina upphaflegu áætlun til lækkunar, og er þetta gott dæmi um það, hversu nákvæmar og raunhæfar ýmsar áætlanir hafa verið nú á síðustu árum.

Í grg. með frv. kemur fram, að framkvæmdanefnd hægri umferðar hefur verið heimilað að verja allt að 10 millj. kr. til fræðslu- og upplýsingarstarfsemi, og þessi sérstaka skattheimta hafði staðið einnig undir þeim kostnaði. Það kemur einnig fram í grg., að í ráði sé að auka til muna þessa starfsemi, setja á fót sérstaka stofnun til þessara hluta. Á næstu 3 árum er ætlunin að innheimta um 17 millj. kr. í þessu skyni umfram það, sem umferðarbreytingin á að kosta. Við teljum, að það sé full þörf á því að auka umferðarfræðslu í landinu, en hins vegar sé engin þörf á að setja á fót nýja stofnun til þess að sjá um það. Það liggur í hlutarins eðli, að skólarnir sjái um þessa fræðslu í vaxandi mæli og hins vegar löggæzlan, eins og verið hefur. Ný stofnun, sem ætti að vera þarna þriðji aðili til að sjá um þessa fræðslu og safna saman skýrslum, sem löggæzlan þó gerir hvort sem er, mun ekki gera nein stórvirki í þessu efni, og því er ekki rétt eða eðlilegt að skattleggja bifreiðaeigendur sérstaklega til að standa undir slíkri starfsemi.

Verði þetta frv. samþ., er um leið felld niður greiðsluskylda ríkissjóðs vegna kostnaðar við umferðarfræðslu. Og ætlunin er, að bifreiðaeigendur einir standi undir þessum kostnaði. Þótt meiri hl. n. leggi til að stytta innheimtutímann um eitt ár frá því, sem er í frv., breytir það ekki því, að með því að samþykkja frv. er verið að taka upp þá stefnu að skattleggja afmarkaðan hóp þjóðfélagsþegna til að standa undir einum þætti fræðslunnar í landinu. Reynslan hefur sýnt, að þeir skattar, sem á annað borð eru upp teknir, eru sjaldnast felldir aftur niður. Það þykir stundum ekki henta að ákveða slíka skattheimtu til langs tíma í einu, en sjaldan stendur á að framlengja skattana, þegar lagaheimild til innheimtu þeirra er að falla úr gildi.

Í sambandi við þetta mál og í raun og veru tengt þessu máli er annað mál hér, um breyt. á umferðarlögunum, og komum við hv. 1. þm. Norðurl. e. og ég með nokkrar brtt. í sambandi við það mál. Þær fela það eitt í sér, að við viljum ekki leggja til að sett verði upp einhver ný stofnun í þessu efni, en ég sé ekki ástæðu til þess að ræða það frekar og vil aðeins benda á það, að brtt. eru eingöngu í þessu skyni.