30.04.1970
Efri deild: 88. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1117 í B-deild Alþingistíðinda. (1471)

13. mál, hægri handar umferð

Frsm. meiri hl. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. til l. um breyt. á l. um hægri handar umferð hefur ekki hlotið einhuga meðmæli allshn. Meiri hl. mælir með frv. óbreyttu, eins og það kom frá hv. Nd. Minni hl. er tvískiptur, og munu þeir gera grein fyrir sínum sjónarmiðum.

Frv. þetta kveður á um að framlengja gjald það, sem lagt var á ökutæki vegna kostnaðar við breytingu í hægri akstur. Upprunalega var gert ráð fyrir, að kostnaður við breytingu í hægri handar akstur yrði um 50 millj., en upplýst er hins vegar, að þessi upphæð hefur numið um 70 millj. Ekki er hægt að lýsa sérstakri ánægju um, hve áætlaður kostnaður hefur farið langt fram úr áætlun, en það hefur þó sínar skýringar. Varið var 10 millj. kr. samkv. sérstakri heimild til fræðslu- og upplýsingarstarfsemi. Segja má, að því fé hafi verið vel varið, en auk þess er talið, að gengisbreytingin síðasta hafi aukið kostnað við breytingar á ökutækjum um 3 millj. Hins vegar hafi breytingar á sérleyfisbifreiðum utan þéttbýlis farið 5 millj. kr. fram yfir áætlun. Hér hefur auðsjáanlega verið slælega áætlað í byrjun, en við því verður auðsjáanlega ekkert gert. Upprunalega var gert ráð fyrir því í frv., eins og það var lagt fyrir Nd., að framlengja gjaldið af ökutækjum vegna breytingar í hægri akstur til ársloka 1972. Nd. breytti þessu hins vegar og skar niður tímann um eitt ár eða til ársloka 1971. Meiri hl. fjhn. er þessu samþykkur og mælir með frv. óbreyttu, eins og það liggur fyrir hér í þessari hv. þd.