30.04.1970
Efri deild: 88. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1120 í B-deild Alþingistíðinda. (1476)

13. mál, hægri handar umferð

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Það kom fram hjá hv. 6. þm. Sunnl., sem lýsti till., sem hann hygðist flytja og nú hefur verið útbýtt rétt á þessari stundu, að ýmsir þdm. mundu hafa byggt afstöðu sína til þessarar breytingar á miklum misskilningi. Ég verð að játa, að mér hefur ekki tekizt að setja mig vel inn í þetta mál, hef ekki um það fjallað í n., og það er nú mikill hraði á afgreiðslu mála, svo að vel má vera, að það, sem ég segi, sé byggt á misskilningi. En ég ætla nú að leyfa mér samt sem áður út af þessari till. að segja örfá orð og leita þá upplýsinga hjá þeim mönnum, sem um þetta mál hafa fjallað í nefnd.

Í frvgr. segir, að á árunum 1967–1971 skuli greiða í ríkissjóð sérstakan skatt, umferðarbreytingargjald af bifreiðum, eins og hér segir. Nú liggur það í augum uppi, að gjald þetta fyrir árin 1967, 1968 og 1969 hefur þegar verið innheimt og þeim peningum ráðstafað. Nú er lagt til að framlengja þetta gjald og sú skýring gefin, að kostnaður við hægri handar umferð hafi farið fram úr áætlun. Hann hafi verið áætlaður 56 millj. kr., en gert er nú ráð fyrir því, að heildarkostnaður vegna umferðarbreytingarinnar verði nálægt 71 millj. kr. Og mér skilst, að vegna þessa raunverulega kostnaðar umfram áætlun sé frv. þetta fram borið um nokkra framlengingu á þessum skatti. Mér skilst, að þetta séu þegar áfallin gjöld, sem verða með einhverjum hætti að greiðast, því að hægri handar umferðin hefur þegar komið til framkvæmda. Og ef þetta er ekki á misskilningi byggt, að hér sé um að ræða áfallin gjöld, sem verði með einhverjum hætti að greiða, þá fæ ég ekki séð, hvernig hægt er að ráðstafa þessu fé til allt annarra verka, til brúagerða á Skeiðarársandi. Ef þetta er á misskilningi byggt, þá vænti ég þess, að þeir menn, sem mest hafa fjallað um þetta mál, leiðrétti það. En fyrir mér virðist málið vera þannig. Og ef ætti að ráðstafa þessu fé af þessum skatti í vega- og brúagerðir, þá skilst mér, að það verði að greiða áfallinn kostnað við hægri handar umferðina úr ríkissjóði, þá af einhverjum öðrum tekjum. Hér yrði aðeins um tilfærslu að ræða, en hér er ekki um það að ræða að ráðstafa í raun og veru handbæru fé.

Nú er það svo, að það er mitt áhugamál og hefur lengi verið, að hraðað verði mannvirkjagerð á Skeiðarársandi, þannig að akvegur opnist um þann kafla, sem nú telst ófær, og þar með hringvegur um landið. Þetta mál er enn þá á athugunarstigi. Allmiklar athuganir hafa þegar verið gerðar á Skeiðarársandi, og eins og drepið var á, eru í vegáætlun samtals á fjögurra ára tímabili rúmar 7 millj. kr. lagðar fram til þessara rannsókna. En ég hef kynnt mér það nú í vetur, að þeir, sem um þetta fjalla af hálfu vegamálaskrifstofunnar, telja, að þessum rannsóknum sé ekki lokið og það sé þess vegna ekki grundvöllur fyrir því að hefja framkvæmdir á Skeiðarársandi á þessu sumri. Ef hér væri um skattgjald að ræða, sem ætti að standa til frambúðar, eins og sumir þdm. höfðu álitið, fyrst er þetta mál kom hér inn í d. til umr., þá mundi náttúrlega safnast í sjóð, þannig að þetta mundi vega nokkuð til að standa straum af þeim kostnaðarsömu framkvæmdum í vegagerð, sem þarna þarf að gera.

En nú er búið að takmarka þetta skattgjald við árin 1970 og 1971, og til viðbótar því, að þetta á nú, eins og ég sagði, að ganga til þess að greiða áfallin gjöld við hægri handar umferðina, kemur það, að það, sem innheimtist á þessum stutta tíma, mun hvergi nærri nægja til þess að greiða kostnað við þau mannvirki, sem á Skeiðarársandi þurfa að koma. Eins og þetta liggur því fyrir, þá held ég, að ég sjái mér ekki fært að greiða atkv. með brtt. á þskj. 792, þó að ég vilji leggja á það áherzlu, að það er enn sem fyrr áhugamál mitt, að með sem mestum hraða verði unnið að vegaframkvæmdum á Skeiðarársandi.