23.10.1969
Neðri deild: 5. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í B-deild Alþingistíðinda. (1484)

12. mál, umferðarlög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um breyt. á umferðarlögum, nr. 40 23. apríl 1968, er staðfesting á reglugerð um umferðarmálaráð, sem dómsmrn. gaf út í janúarmánuði, 24. jan. s. l. Ég get að verulegu leyti vísað til grg. frv., en þar kemur fram, að dómsmrn. hafði undirbúið, að þegar framkvæmdanefnd hægri umferðarinnar lyki störfum sínum, sem skyldi vera um áramótin síðustu, yrði til í landinu einhver slík stofnun og ráðagerðir um framtíðina í þessu máli. Rn. leit svo á, að svo mikilvægt hefði verið starf framkvæmdanefndar hægri umferðar umfram það eitt að hafa forgöngu um undirbúning breytingar á umferðarreglunum, að það væri nauðsynlegt að halda því áfram. Við hefðum komizt á hærra stig í umferðarmálum, í framkvæmd umferðarreglna, og mikil ábyrgð hvíldi á opinberum aðilum um það, að við drægjumst ekki aftur niður af þessu stigi, en héldum áfram að bæta okkur, eins og full þörf er á.

Umferðarmálaráðið var í stórum dráttum samsett af þeim aðilum, og um það, held ég, að hafi ekki orðið ágreiningur, sem ríkust tengsl hafa við umferðina, eins og fram kemur í 2. gr. Það var svo strax frá upphafi hugsun ráðh. og ráðagerðir í dómsmrn., að eftir nokkra reynslu af starfsemi slíks umferðarráðs mundi vera eðlilegt, að lögfest yrðu ákvæðin um það, og að athuguðu máli þótti eðlilegt að fella þau inn í sjálf umferðarlögin, í VIII. kafla þeirra, eins og hér er gert ráð fyrir.

Umferðarmálaráðið er skipað fulltrúum frá 15 aðilum, sbr. 2. gr., og síðan er formaður umferðarmálaráðs skipaður af ráðh. án tilnefningar. Formaður umferðarmálaráðsins er Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri í Reykjavík. Síðan er gert ráð fyrir því, þar sem þetta ráð er svo fjölmennt, að á vegum þess skuli starfa þriggja manna framkvæmdanefnd, sem dómsmrh. skipar til eins árs í senn, og skiptir ráðh. störfum með framkvæmdanm. eftir því sem þurfa þykir. Þessi framkvæmdanefnd er þannig skipuð nú, að Ólafur W. Stefánsson, deildarstjóri í dómsmrn., er formaður n., en með honum eiga sæti í henni Gunnar Friðriksson, forseti Slysavarnafélags Íslands, og Guttormur Þormar, sem er framkvstj. umferðarnefndar Reykjavíkurborgar. Það er gert ráð fyrir því samkv. þessu frv., að ráðh. ákveði þóknun framkvæmdanefndarinnar og starfsliðs, sem hún kynni að telja sér nauðsynlegt með samþykki ráðh., en umferðarmálaráðsmenn vinni sín störf launalaust.

Um hlutverk ráðsins er það stytzt að segja, sem segir í grg., að það er fyrst og fremst á sviði umferðarfræðslu, en beinist einnig að því að vinna að almennum umbótum í umferðarmálum. Við skipulagningu umferðarfræðslu er nauðsynlegt að hafa glöggar upplýsingar um umferðina og í hverju henni er áfátt. Var því gert ráð fyrir, að umferðarmálaráði skyldi einnig ætlað það hlutverk að sjá um, að á hverjum tíma væri til vitneskja um fjölda, tegund og orsakir umferðarslysa í landinu. Að þessu hefði verið unnið skipulega, þótt framkvæmdanefnd hægri umferðar og rannsóknarnefnd umferðarslysa hafi safnað nokkrum upplýsingum um umferðarslys, og var gert ráð fyrir því, að umferðarmálaráð fengi í hendur gögn þeirra um það efni. Þriðji þáttur verkefnis umferðarmálaráðs er loks sá að samræma og samstilla atorku og viðleitni sérhverra aðila, sem hafa áhuga fyrir að vinna að bættri umferðarmenningu.

Nú hefur þetta umferðarmálaráð samkv. þeirri reglugerð, sem ég minntist á, starfað nokkurra mánaða skeið og reynsla fengizt af starfi þess. Ég tel, að hún hafi gefið svo góða raun, að tímabært sé nú að festa skipan þess í löggjöf, eins og ég sagði áðan. Þess vegna er þetta frv. flutt, og ég leyfi mér að vænta þess, að um það geti orðið gott samkomulag í þinginu.

Ég skal gefa örstutt yfirlit yfir starfsemi umferðarmálaráðs, það sem af er þessu ári, sem einnig hefur nokkra þýðingu fyrir þm. að hafa yfirlit yfir, og skal fara fljótt yfir sögu.

Skrifstofa umferðarmálaráðs tók til starfa 15. júlí, og er hún til húsa í nýju lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Pétur Sveinbjarnarson umferðarmálafulltrúi hefur verið ráðinn starfsmaður framkvæmdanefndarinnar til bráðabirgða, en auk hans starfa á skrifstofunni tvær stúlkur, þar af önnur hálfan daginn.

Eitt af fyrstu vandamálunum, sem umferðarmálaráð lét til sín taka, var löggæzla á þjóðvegum landsins. Samþykkti ráðið á fundi sínum 16. apríl till., þar sem lögð var á það áherzla, að löggæzla á vegum landsins verði ekki minnkuð við það, sem hún var á síðasta sumri, þ. e. a. s. 1968, þegar breytingin varð á umferðinni. Jafnframt var bent á hina miklu þýðingu, sem traust umferðarlöggæzla hefur í sambandi við umferðaröryggi. Var framkvæmdanefnd ráðsins falið að vinna að framkvæmd till. Dómsmrn. tók mál þetta til meðferðar, og beitti rn. sér fyrir því, að 5 löggæzlubifreiðir voru gerðar út við löggæzlustörf í sumar, en fyrir umferðarbreytinguna voru þær þrjár.

Framkvæmdanefndin hefur óskað eftir því við lögreglustjórann í Reykjavík, að embætti hans taki að sér skráningu umferðarslysa, sem framkvæmdanefnd hægri umferðar hafði áður með höndum, en aftur á móti verður öll úrvinnsla slysaskýrslna unnin á vegum ráðsins. Stefnt er að því að hraða úrvinnslu slysaskýrslna og gera mánaðarlega heildaryfirlit, og þannig verður fylgzt sem bezt með þróun umferðarmála í landinu.

Starfsemi umferðarmálaráðs um verzlunarmannahelgina síðustu var tvíþætt. Annars vegar fræðslustarf í blöðum og útvarpi fyrir helgina og hins vegar starfræksla upplýsingamiðstöðvar um helgina sjálfa í samvinnu við lögregluna. Upplýsingamiðstöðin var í stöðugu sambandi við lögreglumenn, bifreiðaeftirlitsmenn, starfsmenn vegaþjónustu, Félag ísl. bifreiðaeigenda og forstöðumenn útiskemmtana víðs vegar um landið. Í samvinnu við Ríkisútvarpið voru beinar útvarpssendingar frá upplýsingamiðstöðinni, og var fréttum og fræðslu útvarpað 30 sinnum um helgina. Eru þetta fleiri útsendingar en áður hafa verið um verzlunarmannahelgi. Enn fremur var almenningi gefinn kostur á að hafa samband við upplýsingamiðstöð í síma, og er talið, að um 800 manns hafi notfært sér það. Er hér um að ræða starfsemi, sem fastlega má gera ráð fyrir, að verði fastur þáttur í starfi umferðarmálaráðsins í framtíðinni, enda gaf þetta mjög góða raun, svo sem alkunnugt er.

Hinn 1. september, eða um sama leyti og 7 ára börn hófu skólagöngu, gaf umferðarmálaráðið út bæklinginn: Leiðin í skólann, sem er bréf til foreldra 7 ára skólabarna. Lögð var á það áherzla, að foreldrar fylgdu börnum sínum fyrstu dagana til skólans og veldu öruggustu leiðina fyrir þau. Bæklingnum var dreift í 44 skóla í kaupstöðum og stærstu kauptúnum landsins.

Hinn 1. ágúst yfirtók umferðamálaráð umferðarþætti þá, sem fluttir hafa verið á vegum umferðarnefndar Reykjavíkur og lögreglunnar í Ríkisútvarpinu. Þættirnir eru fluttir í hádegisútvarpi að loknum lestri tilkynninga. Hafa síðan 52 fræðsluþættir verið fluttir á vegum ráðsins.

Á fundi umferðarmálaráðs 16. apríl var samþykkt að fela Slysavarnafélagi Íslands að hafa á hendi umsjón með skipulagi og starfsemi umferðaröryggisnefndanna, er stofnaðar voru á vegum félagsins að tilhlutan framkvæmdanefndar hægri umferðar í sambandi við umferðarbreytinguna og starfað hafa síðan að auknu umferðaröryggi. Var Slysavarnafélaginu falið að sjá um, að starfsemi nefndanna yrði haldið áfram. Í kostnaðaráætlun umferðarmálaráðs er gert ráð fyrir sérstöku fjárframlagi til Slysavarnafélags Íslands til þess að standa straum af starfsemi þessari. Á vegum Slysavarnafélagsins hefur starfað sérstakur erindreki, sem hefur haft með höndum samskipti við umferðaröryggisnefndirnar. Hefur hann m. a. ferðazt um landið, haldið fundi og flutt þar erindi og sýnt kvikmyndir um umferðarmál. Þá hefur félagið m. a. sent till. til nefndanna um að beita sér fyrir sérstökum umferðardögum, þar sem ákveðin verkefni verða tekin fyrir.

Á undanförnum mánuðum hefur á vegum umferðarmálaráðs verið unnið að athugun á umferðarfræðslu í skólum og útgáfustarfsemi í því sambandi. Sérstök nefnd, sem skipuð var fulltrúum, sem að þessum málum hafa starfað, skilaði umferðarmálaráði álitsgerð, og á grundvelli hennar hefur umferðarmálaráð gert nokkrar samþykktir um umferðarfræðslu í skólum, sem m. a. hafa verið sendar menntmrn. Það er skoðun umferðarmálaráðs, að fræðsla sú, sem reglugerð nr. 51 frá 8. apríl 1960, um umferðarfræðslu í skólum, gerir ráð fyrir, hafi enn ekki komið til framkvæmda nema að takmörkuðu leyti, og benti ráðið á ýmsar leiðir til úrbóta. Á sama fundi samþykkti ráðið áskorun til allra lögreglustjóra í landinu um, að þeir beittu sér fyrir aukinni umferðarfræðslu af hálfu lögreglunnar í skólum landsins. Þessa dagana er verið að senda út bréf frá umferðarmálaráði til allra skólastjóra og kennara, þar sem ráðið leitar eftir sem beztri samvinnu við þá og bendir á, hvernig flétta megi umferðarfræðslu inn í hinar ýmsu kennslugreinar. Í undirbúningi er í samvinnu við fræðslumálastjórnina útgáfa leiðbeininga til kennara um tilhögun umferðarfræðslu 10–12 ára barna annars vegar og 12–14 ára barna hins vegar. Mjög tilfinnanlegur skortur hefur verið á heppilegri kennslubók fyrir yngstu börnin, þ. e. a. s. 7–9 ára nemendur. Hefur Ríkisútgáfa námsbóka nýverið gefið út kennslubók um umferðarmál fyrir þetta aldursstig, en útgáfan taldi sig ekki geta dreift bókinni endurgjaldslaust. Hafa af því tilefni farið fram viðræður milli framkvæmdanefndar umferðarmálaráðs og forstöðumanna ríkisútgáfunnar. Niðurstaða þeirra hefur orðið sú, að umferðarmálaráð styrkti útgáfu bókarinnar með fjárframlagi, 250 þús. kr., gegn því að ríkisútgáfan dreifði bókinni endurgjaldslaust til allra 7, 8 og 9 ára nemenda. Enn fremur gefi ríkisútgáfan út handbók fyrir kennara og vinnubókarblöð fyrir nemendur. Þótt umferðarmálaráð hafi styrkt útgáfu bókarinnar, er það eindregin skoðun ráðsins, að dreifa beri endurgjaldslaust öllum kennslubókum um umferðarmál, sem ríkisútgáfan gefur út, á sama hátt og gert er við aðrar kennslubækur í skyldunámsgreinum.

Nú er að hefjast á vegum umferðarmálaráðs skipulögð umferðarfræðsla fyrir börn undir skólaskyldualdri í formi bréfaskóla. Tveir aðilar innan umferðarmálaráðs, þ. e. Slysavarnafélag Íslands og umferðarnefnd Reykjavíkur, hafa haft með höndum svipaða starfsemi, en ákveðið hefur verið, að þessi fræðsla verði samræmd og yfirtekin af umferðarmálaráði. Er gert ráð fyrir því, að verulegur hluti fræðslustarfsins verði kostaður af sveitarfélögunum. Talið er líklegt, að um 10 þús. börn verði í vetur í umferðarskólanum Ungir vegfarendur, en svo nefnist bréfaskólinn.

Á vegum umferðarmálaráðs hafa starfað nokkrar nefndir. Auk nefndar, er sér um umferðarfræðslu í skólum, sem áður er getið, hefur starfað nefnd, sem skilað hefur grg. um fyrirkomulag umferðarfræðslu í blöðum, útvarpi og sjónvarpi. Þá var þeim Bjarna Kristjánssyni skólastjóra Tækniskóla Íslands og Jóni Birgi Jónssyni deildarverkfræðingi hjá vegagerðinni falið að framkvæma athugun á orsökum að aukningu framrúðubrota, og vinna þeir enn ásamt starfsmönnum ráðsins að athugun þessari.

Á fundi umferðarmálaráðs 27. ágúst var samþ. till. þess efnis, að kannað verði á vegum ráðsins, á hvern hátt sé hægt að koma í veg fyrir spjöll á náttúru landsins, sérstaklega á öræfum og öðrum sérstæðum og fögrum stöðum, af völdum bifreiða og annarra ökutækja. Af þessu tilefni ritaði framkvæmdanefnd umferðarmálaráðs náttúruverndarráði og öðrum þeim aðilum, er að náttúruvernd starfa, bréf og bauð þeim samstarf. Enn fremur ritaði n. bréf til mþn. um endurskoðun laga um náttúruvernd, og beindi því sérstaklega til n. að athuga, hvort í þessu sambandi væri hægt að setja lagaákvæði, sem að gagni gætu orðið og spornað gætu við tjóni á náttúru landsins af völdum bifreiða og annarra ökutækja. Bauð framkvæmdanefndin samstarf um lögfræðilega athugun málsins.

Hinn 3. nóv. n. k. hefst á vegum umferðarmálaráðs ljósaathugun, sem framkvæmd verður í samvinnu við Samband bílaverkstæða á Íslandi. Verður öllum bifreiðastjórum boðið að koma með bifreiðar sínar til ókeypis athugunar á ljósabúnaði. Er þessi framkvæmd fyrsti þátturinn í öflugu fræðslu- og áróðursstarfi, sem fyrirhugað er nú í skammdeginu á vegum umferðarmálaráðs.

Þetta var yfirlit yfir nokkra starfsemi ráðsins, frá því að það tók til starfa síðari hluta janúarmánaðar eftir reglugerðinni, sem gefin var út 24. janúar. Síðan hefur umferðarmálaráðið 21. maí sett sér drög að starfsáætlun fyrir árið 1969. Framkvæmdanefndin hafði undirbúið það. Þessi starfsáætlun speglast að verulegu leyti í því yfirliti, sem ég nú hef lesið um starfsemina, og skal ég því ekki tefja störf þingsins með því að lesa hana, en n., sem fær þetta mál til meðferðar, mun að sjálfsögðu hafa aðgang að henni, og einnig vinnur n. nú að og mun ljúka næstu daga áætlun um starfsemi sína fyrir árið 1970, og þá er einnig um að ræða kostnaðaráætlun, en ég mun ræða þann lið málsins undir næsta dagskrárlið hér á eftir á dagskránni.

Ég vil svo leyfa mér að svo mæltu að leggja til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.