14.04.1970
Neðri deild: 72. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1127 í B-deild Alþingistíðinda. (1487)

12. mál, umferðarlög

Frsm. meiri hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til meðferðar frv. til l. um breyt. á umferðarlögum, og hefur n. ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. Minni hl. n. er andvígur frv., eins og það liggur hér fyrir, en meiri hl. n. mælir með því, að það verði samþ. með tilteknum breyt., sem prentaðar eru á sérstöku þskj., nr. 526. Brtt. meiri hl. n. eru þær, að í staðinn fyrir orðið „umferðarmálaráð“ komi: umferðarráð, og eru allar brtt. meiri hl. n. út af þessari nafnbreytingu, að öðru leyti en því, að í d-lið brtt. meiri hl. leggjum við til, að 2. málsl. 1. mgr. e-liðar orðist svo: „Framkvæmdanefnd ræður starfsfólk að fenginni heimild ráðh.“

Hins vegar hefur n. orðið sammála um að verða við beiðni dómsmrn. að flytja brtt. við 70. gr. umferðarlaganna og við þetta frv., og eru þær prentaðar hér á sérstöku þskj. Í sambandi við þessa brtt. er rétt að rifja upp, að vátryggingafjárhæðir samkv. 70. gr. umferðarlaga um skyldutryggingu ökutækja hafa verið óbreyttar frá 1. maí 1965, 500 þús. fyrir létt bifhjól, 1 millj. fyrir dráttarvél og bifhjól og 2 millj. fyrir bifreið. Skyldutrygging skal þó aldrei vera lægri en svo, að 100 þús. kr. bætist við vátryggingafjárhæðina fyrir hvern farþega, sem ökutækið má flytja umfram 10. Þessi beiðni um flutning þessarar till. er komin frá umferðarlaganefnd, en hún telur, að vegna verðlagsþróunar þeirrar, sem orðið hefur síðan 1965, hafi gildi vátryggingafjárhæða þessara rýrnað svo, að skyldutryggingin sé ekki lengur fullnægjandi, hvorki fyrir eigendur ökutækjanna né þá, sem fyrir tjóni verða. Eru till. n. um hækkun vátryggingafjárhæða gerðar með það í huga að auka öryggi þessara aðila til samræmis við verðlagsþróunina. Umferðarlaganefnd leitaði umsagnar helztu samtaka bifreiðaeigenda, þ. á m. Bandalags ísl. leigubifreiðastjóra, Félags ísl. bifreiðaeigenda, Landssambands ísl. vörubifreiðaeigenda svo og Sambands ísl. tryggingafélaga um hækkun á þessum vátryggingaupphæðum. Bifreiðaeigendafélögin lýsa eindregnu fylgi við hækkun á vátryggingum ökutækja. Félag ísl. bifreiðaeigenda og Landssamband ísl. vörubifreiðastjóra eru fylgjandi till. umferðarlaganefndar, en Bandalag ísl. leigubifreiðastjóra telur hins vegar, að hækka beri vátryggingu bifreiða í 4 millj. kr., og Landssamband vörubifreiðastjóra tekur fram, að það geti fallizt á frekari hækkun á vátryggingafjárhæðum, ef um það væri að ræða, en vill þó styðja framangreindar till. n. Félag íslenzkra bifreiðaeigenda telur hins vegar ekki tímabært að gera till. um frekari hækkun. Í umsögn Sambands ísl. tryggingafélaga kemur fram, að forsvarsmenn þeirra tryggingafélaga, sem reka ábyrgðartryggingar ökutækja, telja, að framangreind hækkun sé alls ekki óeðlileg með hliðsjón af kaupgjalds- og verðlagsþróun þeirri, sem orðið hefur, síðan núgildandi vátryggingafjárhæðir voru lögfestar á árinu 1965. Umferðarlaganefnd óskaði jafnframt, að Samband ísl. tryggingafélaga léti í té upplýsingar um áætlaða hækkun iðgjalda, sem þessi hækkun vátryggingafjárhæða hefði í för með sér, og segir í umsögn sambandsins, að erfitt sé að meta áhrif hækkunarinnar að svo stöddu, en forsvarsmenn bifreiðatryggingafélaganna innan vébanda sambandsins eru þeirrar skoðunar, að þörf sé verulegrar hækkunar á iðgjöldum frá 1. maí n. k. vegna mjög slæmrar afkomu þessarar tryggingagreinar á árinu 1969 og einnig vegna kaupgjalds- og verðlagshækkana. Í umsögn, sem n. fékk síðar, segir um niðurstöðu Sambands ísl. tryggingafélaga, að niðurstöður úrvinnslu þeirra hafi leitt í ljós, að hækka þyrfti iðgjöld á tryggingaárinu 1. maí 1970 til 30. apríl 1971, miðað við iðgjöldin 1. maí 1969 til 30. apríl 1970, að meðaltali um 45–50%, og er þá miðað við óbreyttar tryggingaupphæðir. Hækkun tryggingaupphæðanna samkv. þessu telur Samband ísl. tryggingafélaga kalla á 2–3% hækkun umfram framangreinda hækkun, en 4–6% fyrir farþegabifreiðar fyrir fleiri en 10 farþega. Bifreiðatryggingafélögin hafa hins vegar ekki talið fært að hækka iðgjöldin meira en um 34–36% að meðaltali, sem þá er gert ráð fyrir að mæti bæði hækkun vegna tjónareynslu fyrri ára og verðlagshækkunum svo og hækkunum tryggingaupphæðanna.

Ég vona, að mér hafi tekizt að skýra þetta mál fyrir hv. þdm., en það liggur ljósast fyrir með því að segja, að þó að vátryggingafjárhæðirnar væru ekki hækkaðar með lögum, þá mundu iðgjöldin hækka mjög verulega vegna þeirrar verðlagsþróunar, sem orðið hefur, frá því vátryggingafjárhæðin var sett 1965, en hins vegar verður að segja, að þessar upphæðir í skyldutryggingu ökutækja eru orðnar svo lágar núna miðað við verðlagsþróunina, að nauðsynlegt er að hækka þær, eins og þessi till. gerir ráð fyrir, bæði vegna þeirra, sem ökutækin eiga, og þá ekki síður vegna þeirra, sem kunna að verða fyrir slysum af völdum þessara ökutækja. N. í heild taldi bæði rétt og eðlilegt að verða við þessari beiðni og flytur því þessa brtt. við 70. gr. umferðarlaga við þetta frv.