09.04.1970
Neðri deild: 70. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í B-deild Alþingistíðinda. (1508)

198. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Jón Skaftason:

Herra forseti. Það er eflaust rétt, sem fram kom í ræðu hæstv. ráðh. hér áðan, að opinber fjáröflun til íbúðabygginga í landi okkar hefur á undanförnum árum verið mikið vandamál og verður svo vafalaust áfram. Það er rétt og skylt að viðurkenna, að við Íslendingar höfum byggt mikið á undanförnum árum, að vísu nokkuð dýrar íbúðir, en að ég hygg til jafnaðar nokkuð vandaðri en algengast er með útlendum þjóðum, af mjög svo skiljanlegum ástæðum. Ég hygg, eins og ég gat um áðan, að í framtíðinni verði fjáröflun til lánveitinga út á íbúðabyggingar mikið vandamál í landinu, og mun ég lítillega víkja að því í sambandi við umr. um það frv., sem við erum nú að ræða.

Hv. alþm. hafa eflaust tekið eftir því, að í stuðningsblöðum hæstv. ríkisstj. hefur að undanförnu öðru hverju verið getið um mikla athafnasemi hjá hæstv. ríkisstj. við að leggja fram ný lagafrv. á hv. Alþ., og hafa sum þeirra verið talin merk mál og stór. Það frv., sem hér er til umr., verður tvímælalaust af þeim skrifum, sem mátt hefur lesa undanfarna daga í stjórnarblöðunum, að teljast til hinna stóru mála, og í ræðu hæstv. ráðh. áðan var það einmitt sérstaklega undirstrikað. Í fyrradag birtist þannig í Alþýðublaðinu viðtal við hæstv. ráðh. um þessi mál og um þetta frv., sem bar yfirskriftina: „Alger nýsköpun húsnæðismálanna.“ Var öll miðsíða blaðsins lögð undir þetta viðtal, sem var að mestu leyti hól um framgöngu Alþfl. og ráðh. hans í núv. ríkisstj. í sambandi við þennan málaflokk, sem alla tíð hefur heyrt undir ráðh. úr þeim flokki. Í leiðara blaðsins í gær er enn fremur skrifað um þetta mál mjög í sama dúr og var í Alþýðublaðinu í fyrradag. Hins vegar er verulegur og greinilegur munur á skrifum Morgunblaðsins og Vísis um þetta frv. Þau blöð fara sér miklu hægar í sambandi við frv. en Alþýðublaðið gerir og kannske af skiljanlegum ástæðum. Meira að segja aðalstuðningsblað ríkisstj., Morgunblaðið, segir í dag, að sá grundvöllur, sem allt hól um sjálft frv. byggist á, þ. e. a. s. grundvöllur þeirrar fjáröflunar, sem á að fjármagna lánin, sé meira en vafasamur, og mun ég víkja að því síðar.

Skoðun mín er sú, að þetta frv. sé í sjálfu sér ekki stórt að því leytinu til, að í því felast ekki ýkjamörg nýmæli frá því, sem er að finna um þessi mál í gildandi lögum. Þó vil ég undanskilja eitt atriði, sem er stórt og er nýmæli í sambandi við löggjöfina um Húsnæðismálastofnun ríkisins, og það eru ákvæði frv. um skyldukaup lífeyrissjóða og eftirlaunasjóða, sem er að finna í 6. gr. frv., að mig minnir, og hér hefur verið að nokkru lýst. Það atriði út af fyrir sig er stórt, en önnur atriði frv. eru að mínu viti ekki nein stórmæli út af fyrir sig, og tel ég rétt til glöggvunar að víkja að þeim helztu örfáum orðum.

Mér virðist, að í frv. felist nokkrar formbreytingar. Sú stærsta er, að nú á að sameina yfirstjórn Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna undir húsnæðismálastjórn. Þar er um ráðstöfun að ræða, sem ég tel að sé til bóta.

Þá má enn fremur telja það til formbreytinga í frv. frá því, sem er nú í gildi, að sveitarfélögunum er ætlað nokkru meira forræði um byggingu verkamannabústaða en verið hefur til þessa. Valdið er í reynd með frv. fært til sveitarfélaganna frá byggingarfélögum verkamanna, en það var áður hjá þeim og sveitarfélögum sameiginlega. Þetta er breyting, sem má bæði segja kosti og galla á, og mun ég e. t. v. víkja lítillega að því síðar.

Þá má telja það líka til formbreytinga í frv., að gert er ráð fyrir nokkuð breyttri skipan á stjórn Byggingarfélags verkamanna í hinum einstöku sveitarfélögum frá því, sem gilt hefur til þessa.

Um efnisbreytingar er svo það helzt að segja, að þar ber hæst hina nýju fjáröflunarleið, sem frv. gerir ráð fyrir, um skyldukaup lífeyrissjóða og eftirlaunasjóða á bréfum húsnæðismálastjórnarinnar.

Það má enn fremur telja það nýmæli, að nokkurn hluta af fjármagni Byggingarsjóðs ríkisins, þ. e. a. s. 25 millj. kr., á nú í fyrsta skipti að lána til kaupa á eldri íbúðum.

Efnisbreyting er það einnig, að nú á að afnema hin svokölluðu verkalýðslán, þ. e. a. s. lán til meðlima í verkalýðsfélögunum, sem gátu fengið allt að 75 þús. kr. viðbótarlán ofan á þau almennu hámarkslán, sem giltu samkv. löggjöfinni um Húsnæðismálastofnun ríkisins.

Þá sýnist mér, að frv. beri það með sér, að Breiðholtsframkvæmdunum umdeildu, sem verið hafa í gangi undanfarandi ár, skuli hætt í þeirri mynd, sem þær hafa verið til þessa, og möguleikar opnaðir til þess að halda byggingu 735 íbúða áfram, sem ekki er byrjað að vinna að, þrátt fyrir samkomulag um það á sínum tíma, að þeim skyldi lokið fyrir lok þessa árs. Það eru opnaðir með frv. möguleikar til þess að taka þær inn í verkamannabústaðakerfið, ef um það semst á milli réttra aðila, þ. e. á milli Reykjavíkurborgar og verkalýðsfélaganna, en hvort Reykjavíkurborg telur sér fært eða telur sér hag að því að gera slíkan samning, skal ég ósagt láta um nú, þó að ég telji það heldur ólíklegt, að svo verði á næstunni.

Þá verður enn fremur að telja til efnisbreytinga frá gildandi lögum það ákvæði frv. að afnema þá skyldu, að íbúðalánin skuli hækka og fylgja hækkandi byggingarvísitölu, því að í frv. er aðeins um heimild að ræða til hækkana annað hvert ár í stað þess, að samkv. gildandi lögum er skylduákvæði til þess að hækka íbúðalánin árlega í samræmi við byggingarvísitölu.

Þetta eru, að því er mér sýnist, helztu ákvæði þessa nýja frv. og geta nú hv. alþm. metið það hver og einn sjálfur, hvort hér er um óskaplega mikla nýsköpun á húsnæðismálakerfinu að ræða eða eitthvað annað.

Á það hefur verið bent, bæði hér á hv. Alþ., þar sem ár eftir ár hafa orðið miklar umr. um íbúðamál, og eins á mannfundum utan Alþ., að opinber lán til íbúðabygginga hér á landi væru miklum mun lægra hlutfall af byggingarkostnaði en algengast væri á Norðurlöndum, sem okkur af eðlilegum ástæðum er mjög gjarnt að bera okkur saman við. Á það hefur verið bent, að lengst af hafi hin opinberu lán úr húsnæðismálakerfinu numið einhvers staðar um fjórðung til þriðjungs af byggingarkostnaði venjulegra íbúða. Á Norðurlöndum hefur svo verið um margra ára bil, að þar hafa húsbyggjendur átt aðgang að opinberum lánum, er hafa numið um 80–90% af heildarbyggingarkostnaði, lánum með mjög hagstæðum kjörum til langs tíma og yfirleitt með lægri vöxtum en algengast er í þeim löndum. Á þessu er því mikill aðstöðumunur hjá okkur og frændum okkar á hinum Norðurlöndunum, og ég fæ ekki séð, þótt frv. þetta verði samþ. alveg óbreytt með þeirri nýju fjáröflun, sem það ráðgerir, að þetta bil út af fyrir sig minnki nokkuð verulega okkur í hag, að við drögum nokkuð á frændur okkar á Norðurlöndum í sambandi við lánamöguleika til íbúðabyggjenda. Ber að harma það, því að að sjálfsögðu er nauðsynlegt að efla lánamöguleika til íbúðabygginga í landinu, hvort sem þau lán koma í gegnum opinbert veðlánakerfi eða eitthvert annað kerfi, t. d. lífeyrissjóðina, sem starfað hafa hér í landi. Víða er það svo, t. d. í Vestur-Evrópu, að langstærstur hluti þeirra lána, sem ganga til íbúðabygginga, kemur einmitt í gegnum lífeyrissjóði eða svipuð félög, en alls ekki í gegnum opinbert lánakerfi. Hvort betra er, geta menn haft skiptar skoðanir um, en hitt er meginatriði, að hægt sé að beina eðlilegu og nægilega miklu og hagkvæmu fjármagni til íbúðabygginga, svo að á þann hátt megi lækka byggingarkostnaðinn, sem tvímælalaust er ein aðalástæðan fyrir þeirri miklu og alvarlegu verðbólguþróun, sem verið hefur í landinu marga undanfarna áratugi.

Mig langar í framhaldi af þessu að víkja nokkuð að einstökum atriðum frv. Vil ég þá byrja á því að víkja að ákvæðum 3. gr.gr. er til muna styttri en 3. gr. gildandi laga um Húsnæðismálastofnun ríkisins, og tel ég hana í mörgum og veigamiklum atriðum mikla afturför frá því, sem er í gildandi lögum. Þannig er mál með vexti, að samkv. skýrum bókstaf laga um Húsnæðismálastofnun ríkisins frá 1965, þá er að finna ákvæði um forustu húsnæðismálastjórnar, markvissa forustu húsnæðismálastjórnar í þá stefnu að vinna að lækkun byggingarkostnaðar. Það gefur auga leið, að aðili í landinu, sem hefur umráð yfir jafnmiklu lánsfé og húsnæðismálastjórn hefur haft undanfarandi ár, hlýtur að vera í ákjósanlegri aðstöðu í sambandi við ráðstöfun þess fjármagns að setja ýmsar reglur og vinna ýmis þau verk, er miðað geti að lækkun byggingarkostnaðar. Og 3. gr. gildandi laga um Húsnæðismálastofnun telur upp í 12 atriðum a. m. k. ákveðin verkefni, sem Húsnæðismálastofnunin á að vinna að til endurbóta í byggingarmálum og til þess að lækka byggingarkostnað. Nú verður að segja þá sorgarsögu, að því miður hefur stofnunin að mjög verulegu leyti brugðizt í þessum efnum. Hún hefur ekki nema að mjög litlu leyti sinnt þeim verkefnum, sem 3. gr. gildandi laga leggur henni á herðar. Og með frv. virðist blessun vera lögð á það, að Húsnæðismálastofnun ríkisins hafi ekki þá forustu um þessi mál, sem lög gera ráð fyrir. Ég tel þetta vera ótvíræða afturför.

Af ákvæðum, sem eru í gildandi lögum um þetta atriði og ekki er að finna í frv., langar mig, með leyfi hæstv. forseta, til þess að nefna aðeins örfá:

Í fyrsta lagi er það eitt af verkefnum húsnæðismálastjórnar að fylgjast jafnan nákvæmlega með byggingarkostnaði í landinu í því skyni að finna, hverjir byggi ódýrustu hús, hvaða gerðir íbúðarhúsnæðis reynist beztar og hagkvæmastar og með hvaða hætti þeim verði komið upp með minnstum tilkostnaði. Í þessu skyni er húsnæðismálastjórn heimilt að láta fara fram samkeppni um uppdrætti og byggingu hagkvæmra íbúða og veita lán þeim, sem geta tekið að sér að byggja hagkvæmar íbúðir af ákveðinni meðalstærð með minnstum kostnaði. Þetta ákvæði er ekki að finna í 3. gr. frv.

Enn fremur á húsnæðismálastjórn að koma á fót og annast leiðbeiningastarf í því skyni að lækka byggingarkostnað og koma á hvers konar umbótum í húsagerð og vinnutækni við byggingu íbúðarhúsa. Þetta ákvæði er ekki heldur að finna í 3. gr. frv. Enn fremur að leggja áherzlu á stöðlun (standardiseringu) sem flestra hluta í íbúðarhúsabyggingu, fjöldaframleiðslu slíkra hluta og annast leiðbeiningar til húsbyggjenda um notkun þeirra. Þetta ákvæði er ekki heldur að finna í frv.

Að endingu vil ég lesa upp þetta: „Að gangast fyrir tæknirannsóknum og kynningu nýjunga í byggingariðnaði, tilraunum, sýningum, námskeiðum, útgáfu rita, heimsóknum erlendra sérfræðinga, náms- og kynnisferðum íslenzkra byggingarmanna erlendis. Enn fremur með byggingu tilraunahúsa, þar sem reyndar verði nýjungar í húsagerð.“ Þetta ákvæði er ekki heldur að finna í 3. gr. frv.

Ég þykist hafa með þessu fært að því rök, að að því er tekur til efnis 3. gr. frv. sé um beina afturför í því að ræða frá því, sem er í gildi samkv. núgildandi lögum.

Þá vil ég næst víkja að því, sem margir mundu telja aðalatriði þessa frv. Það er sú aukna fjármögnun til hins opinbera lánakerfis, sem frv. ber með sér. Þá er þess fyrst að geta, að samkv. frv. er gert ráð fyrir því, að ríkisframlagið til Byggingarsjóðs ríkisins, sem hefur verið undanfarandi ár 40 millj. kr., eigi að hækka upp í 75 millj. kr., eða um 35 millj. kr. Út af fyrir sig er þetta góðra gjalda vert, þó að ekki verði það talin veruleg ný fjárframlög til íbúðarlánakerfisins. En þegar þess er gætt í leiðinni, að húsnæðismálastjórn fær með frv. heimild til þess að lána til kaupa á eldri íbúðum, — hún má nota allt að 25 millj. kr. árlega til að lána út á kaup á gömlum íbúðum, þ. e. a. s. til að sinna nýju verkefni, sem ekki var áður til og er ekki til í gildandi lögum, — þá sést, að aukning á ríkisframlaginu til byggingarsjóðsins er ekki veruleg.

Hitt atriðið, sem um mundi muna, er ákvæði 3. mgr. í 6. gr. um skyldukaup lífeyrissjóða og eftirlaunasjóða. Ég sagði: sem um mundi muna. Með því á ég við, að langmestur hluti þess fjár, sem á að afla til byggingarsjóðsins með því að skylda lífeyrissjóði og eftirlaunasjóði í landinu til þess að kaupa ákveðinn hluta bréfa, og mér heyrðist hæstv. ráðh. gera ráð fyrir því, að það gæti numið allt að 200 millj. kr. þegar á næsta ári, er fé, sem þegar er lánað og hefur gengið til íbúðabygginga undanfarandi mörg ár og er þegar af þeirri ástæðu ekki ný fjármögnun til íbúðabygginga í landinu. Ég hef rætt um þetta við mann, sem þekkir vel til starfshátta lífeyrissjóða og eftirlaunasjóða, og hann hefur fullyrt það við mig, að það af ráðstöfunarfé þessara sjóða, sem gengið hefur beint sem lán til bygginga á íbúðum, nemi um 95% af heildarfjármagnsyfirráðum sjóðanna, þannig að það er alveg augljóst mál, að þetta aðalblóm og þessi aðalrós í frv. um stórkostlega aukið fé til hins opinbera veðlánakerfis er fengið með því að flytja fjármagn frá öðrum aðilum í landinu, sem lánað var til þess að byggja íbúðir í landinu, til hins opinbera veðlánakerfis og lána það í sama augnamiði. Þegar af þessari ástæðu hlýtur öllum að vera það ljóst, hversu vafasamt — og vil ég þá ekki nota sterk orð — það er, þegar menn í ræðum og blöðum leyfa sér að viðhafa mjög sterk orð um, að hér sé um eitthvert stórkostlegt frv. að ræða, hér sé um algera umsteypu og nýsköpun húsnæðismála að ræða, eins og Alþýðublaðið leyfði sér að viðhafa í fyrradag.

Ég get ekki annað en dvalizt svolítið við þetta ákvæði um skyldukaup lífeyrissjóðanna og eftirlaunasjóðanna á verðbréfum byggingarlánasjóðsins. Frvgr. um þetta atriði hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta, — yfirskriftin er: „Skylt er eftirtöldum aðilum að kaupa skuldabréf (bankavaxtabréf) samkv. 5. gr. sem hér segir:“ Hér koma fyrst tveir töluliðir, um Atvinnuleysistryggingasjóð og tryggingafélög, en 3. töluliður hljóðar svo:

„Lífeyrissjóðir og eftirlaunasjóðir, sem svarar einum fjórða af árlegu ráðstöfunarfé sínu. Með ráðstöfunarfé, samkv. þessum tölulið, er átt við tekjur af iðgjöldum, framlögum og vöxtum, afborganir af lánum, að frádregnum bótagreiðslum og rekstrarkostnaði.“

Hæstv. ráðh. gat um, eins og ég sagði áðan, að þessi skyldukaup gætu e. t. v. numið á næsta ári allt að 200 millj. kr. Og þess gat hann líka, enda kemur það fram í grg. frv., að þessi skyldukaup mundu fara svo vaxandi á næstu árum, að árið 1973 yrðu þau 150–200% hærri en þau eru á þessu ári, að mér skildist. Með þessu er verið að marka nokkuð nýja stefnu í sambandi við lánveitingu til íbúðabyggjenda, sem við skulum staldra örlítið við og reyna að brjóta til mergjar, hvort leiði til góðs, hvort sé til hins betra eða ekki. Með frv. er verið að færa ráðstöfunarvaldið á þessu fjármagni frá hinum raunverulegu eigendum þess, þ. e. a. s. aðilum lífeyrissjóðanna. Það er verið að svipta stjórnir lífeyrissjóðanna, sem þekkja bezt til um hagi lífeyrisþeganna hver í sínum sjóði, færa valdið, sem þeir hafa haft til þess að lána þetta til íbúðarbyggjenda, frá þeim yfir til Húsnæðismálastofnunar ríkisins, sem er skipuð pólitískt kosinni stjórn, manna, sem sitja suður í Reykjavík og útdeila þessu lánsfé svo héðan um allt land. Er þetta heppileg þróun, leiðir hún til meira réttlætis í lánveitingum til íbúðarbyggjenda en það skipulag, sem búið hefur verið við í þessum efnum til þessa dags? Það er spurning, sem ég vildi gjarnan óska eftir, að hv. alþm. skoðuðu hug sinn vel um.

Á undanförnum árum hefur á Íslandi verið að gerast mjög hröð þróun í sambandi við lífeyrissjóði. Lífeyrissjóðum hefur undanfarandi ár fjölgað mjög á Íslandi. Og ef ég veit rétt, þá mun þegar á næsta ári vera svo komið, þegar bændur hafa stofnað sinn lífeyrissjóð, að allir Íslendingar, sem vilja, geta verið aðilar að einhverjum lífeyrissjóði í landinu. Sem slíkir geta þeir allir átt kost á því að fá lán til íbúðabygginga hver fyrir sig úr sínum lífeyrissjóði. Lánin kunna að vera misjafnlega há að sjálfsögðu, eftir því hvað iðgjaldatekjur sjóðanna eru miklar, hvað sjóðþegar eru tekjuháir menn og hvað þeir vilja leggja af mörkum í iðgjaldagreiðslur til sjóðanna. En leiðin er opin fyrir alla Íslendinga þegar á næsta ári til þess að verða meðlimir í einhverjum lífeyrissjóði og fá sín íbúðabyggingalán þar. Það þarf ekki að fara um það mörgum orðum, að söfnun fjármagns í lífeyrissjóðum á Íslandi undanfarandi ár hefur verið ein af meginforsendum þess, að við höfum getað ráðizt í miklar framkvæmdir í landinu og þá fyrst og fremst á sviði íbúðabygginga. Menn hafa, ekki sízt ungt fólk, hópazt í lífeyrissjóðina, þá sem ekki var á annað borð skylda að vera í, hina frjálsu lífeyrissjóði, fyrst og fremst af einni ástæðu, þeirri ástæðu, að með því telja menn sér mögulegt að fá lán til þess að byggja yfir sig, og lífeyrissjóðirnir hafa getað sinnt þessu verkefni nokkuð vel. Ef nú á að fara að lama hvötina hjá þessu unga fólki til þess að ganga í lífeyrissjóðina og safna þar upp fjármagni, — ég segi minnka hvötina til að ganga í þessa sjóði, af því að það á að taka 25% af ráðstöfunarfé þeirra og færa til einhvers allt annars aðila og lána til einhverra allt annarra manna heldur en þeirra sjálfra, — þá erum við að verulegu leyti að brjóta þann grundvöll, sem hinn mikli sparnaður í lífeyrissjóðunum hefur grundvallazt á á undanförnum árum.

Við vitum það, hv. alþm., að 19. maí s. l. var gert mjög víðtækt samkomulag á milli verkalýðshreyfingarinnar í landinu og Vinnuveitendasambandsins með vissri aðild sjálfrar ríkisstj. að því samkomulagi. Samkomulag þetta gengur m. a. út á það að koma á fót lífeyrissjóðum verkafólks sem víðast um landið. Og ef ég þekki fyrirhugaðar reglur þessara sjóða rétt, þá er ekki gert ráð fyrir því að atvinnurekendur séu skyldaðir til þess að eiga aðild að öllum þessum sjóðum a. m. k. og e. t. v. engum þeirra. Ég er ekki nógu kunnugur því. Ef á að taka um 25% af ráðstöfunarfé þessara sjóða verkalýðsfélaganna og færa það yfir til Húsnæðismálastofnunarinnar og ef það er rétt vitað hjá mér, að atvinnuveitendur, sem eiga að borga í þessa sjóði, eru ekki skyldir til aðildar, heldur ráða því sjálfir, hvort þeir verða með eða ekki, þá fullyrði ég, að með þessu ákvæði er verið að slá að mjög verulegu leyti á vilja atvinnurekenda til þess að vera þátttakendur í uppbyggingu slíkra sjóða. Og það mun segja til sín líka.

Ég fæ því ekki betur séð en að sú breyting, sem frv. gerir ráð fyrir í sambandi við þessi mál, sé a. m. k., og fullyrði ég þá ekki mikið, mjög vafasöm. Í fyrsta lagi þykist ég hafa sýnt fram á, sem ég hygg að sé alveg ótvírætt og enginn geti afsannað hér úr þessum stól, að það er varla umtalsvert nýtt fjármagn til húsbygginga í landinu í heild, sem fæst á þennan hátt, með því að lögtaka þessi skyldukaup lífeyrissjóðanna og eftirlaunasjóðanna. Það er ekki um neitt umtalsvert nýtt fjármagn að ræða til íbúðarhúsabygginga. Það er aðeins um tilfærslu að ræða, en tilfærslu, sem er þess eðlis og er til þess fallin að draga úr þeirri sparifjármyndun, þeirri söfnun fjármagns í landinu sjálfu, sem hefur verið undirstaða söfnunar fjármagns innan lífeyrissjóðanna, sem hefur verið undirstaðan að íbúðabyggingunum víða. Hún getur veikt þann vilja fólks að spara fé til þess að geta fengið lán til íbúðabygginga, og þá tel ég, að verr sé komið, ef sú verður niðurstaðan af þeirri breytingu, sem frv. felur í sér að þessu leyti.

Það er ekki svo, að þetta atriði, að skylda lífeyrissjóðina til þess að kaupa vaxtabréf Húsnæðismálastofnunar ríkisins, sé alveg nýtt af nálinni eða sé fyrst að skjóta upp kollinum með því frv., sem hér er um rætt. Þetta á sér nokkurn aðdraganda og lengri sögu. Þannig er mál með vexti, að þegar á árinu 1963 mun núv. hæstv. félmrh. hafa óskað eftir kaupum lífeyrissjóðanna á íbúðalánabréfum frá Húsnæðismálastofnun ríkisins. Þeirri málaleitan höfnuðu forustumenn lífeyrissjóðanna þá. En það var fitjað upp á þessu á ný, og það varð til þess, að forustumenn lífeyrissjóða í landinu efndu til fundar 26. febr. 1964 í Þjóðleikhúskjallaranum um þetta málefni, og þá kusu þeir m. a. fimm manna nefnd úr hópi lífeyrissjóðsþega, sem athugaði þessi mál og svaraði rn. og samdi m. a. sérstaka grg. um þetta málefni. Vegna þess að grg. er stutt og í henni koma fram þau meginatriði, sem ég hef verið að reyna að lýsa og færa rök fyrir, þá vil ég, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mér að lesa þá grg. upp, en hún hljóðar svo:

„Undanfarinn áratug hefur starfsemi lífeyrissjóða vaxið mjög ört. Sjóðunum hefur fjölgað, félagatalan hefur vaxið og sjóðsmyndunin verið afar mikil. Enginn vafi leikur á, að þessi þróun á auk tryggingasjónarmiðsins að mjög verulegu leyti rót sína að rekja til lánasjónarmiðsins, þ. e. a. s. þarfa sjóðsfélaga fyrir lánsfé til bygginga eða kaupa á eigin íbúðum. Má fullyrða, að nær allt fé, sem sjóðirnir hafa til ráðstöfunar, sé veitt til íbúðalána, og eru þó lánveitingar margra hinna yngri sjóða mun takmarkaðri en æskilegt er. Ekki mun vera um það deilt, að sparnaður sá, sem á sér stað með starfsemi lífeyrissjóða og ráðstöfun fjár þeirra, verður að teljast mikils virði, bæði efnahagslega og félagslega. Hlýtur að þurfa veigamikil rök til að réttlæta ráðstafanir, sem stöðvað gætu þá þróun undanfarinna ára, sem að framan er lýst. Hér verður því drepið á nokkur atriði í sambandi við hugsanlegar þvingunarráðstafanir, sem beitt er við lífeyrissjóðina. Sum þeirra varða fyrst og fremst hagsmuni hinna einstöku sjóða og félaga þeirra, en önnur skipta ekki síður máli fyrir þjóðarheildina.

1. Af framanrituðu er ljóst, að meira fé til húsnæðismála fæst ekki með því að knýja sjóðina til að láta af hendi við húsnæðismálastjórn ráðstöfunarrétt á hluta af eignum sínum. Með slíkum ráðstöfunum má þvert á móti ætla, að sá veigamikli sparnaður, sem felst í starfsemi sjóðanna, dragist saman eða aukist a. m. k. mun minna en ella. Verður þessi skoðun rökstudd hér á eftir.

2. Svo ríkt er lánasjónarmiðið í huga margra sjóðsfélaga, einkum ungs fólks, að það mundi telja ástæðuna til þátttökunnar brottfallna, ef lánveitingar til sjóðsfélaga yrðu skertar. Mestum erfiðleikum mundi þetta valda hjá þeim sjóðum, sem myndaðir eru með frjálsri þátttöku að öllu leyti eða að nokkru leyti. Af fjölmennum sjóðum, sem búast mætti við afdrifaríkum afleiðingum hjá, má nefna Lífeyrissjóð húsasmiða, Lífeyrissjóð verksmiðjufólks og Lífeyrissjóð verzlunarmanna.“

Um þetta atriði vil ég taka fram, að síðan þetta var samþykkt, hefur sú breyting orðið á um þessa sjóði þrjá, sem hér eru taldir, að þeir eru nú orðnir skyldusjóðir, en við höfum enn þá í landinu talsvert marga lífeyrissjóði, sem starfa á grundvelli þess, að aðilar eru frjálsir að því, hvort þeir ganga í þá eða ekki. Getur sem sagt þetta atriði því gilt um þá, en meðal slíkra sjóða vil ég aðeins telja upp Lífeyrissjóð lækna, Lífeyrissjóð endurskoðenda, Lífeyrissjóð tannlækna, Lífeyrissjóð tæknifræðinga, Lífeyrissjóð lögmanna og Lífeyrissjóð iðnaðarmanna að langmestu leyti.

„3. Margar stéttir og starfshópar hafa nú í athugun stofnun lífeyrissjóða. Enginn vafi er á, að flestar slíkar hugmyndir yrðu lagðar á hilluna, ef til þvingunarráðstafana kæmi.“

Ég gat um áðan hið víðtæka samkomulag, sem gert hafði verið á s. l. ári í milli verkalýðsfélaganna og vinnuveitenda um þetta atriði, og minnti á þá ákvörðun, sem tekin var, að ég held á Búnaðarþingi, um það að stofnsetja lífeyrissjóð bænda á næsta ári. Þannig að segja má, að lífeyrissjóðakerfið er þegar til fyrir allt landið og nær til allra stétta þessa lands, og allir Íslendingar geta þegar á næsta ári átt möguleika á því að gerast aðilar að einhverjum lífeyrissjóði.

„4. Þeir launþegar og vinnuveitendur, sem til sjóðanna greiða, mundu telja sig freklega rangindum beitta, ef taka yrði af lánveitingum til sjóðsfélaga til þess að veita mönnum utan sjóðanna sams konar lán. Í sjóðunum er einnig margt það fólk, sem mesta þörf hefur fyrir aðstoð í húsnæðismálum, og utan frjálsu sjóðanna er oft það fólk, sem telur sig hafa betri aðstöðu í þessum efnum.

5. Sumir lífeyrissjóðir hafa orðið til með þeim hætti, að launþegar hafa krafizt beinnar kauphækkunar og ríkisstj. á þeim tíma látið í það skína, að kjarabætur kæmu einungis til greina í formi lífeyrisréttinda eða annarra slíkra hlunninda. Sem dæmi um slíka sjóði má nefna Lífeyrissjóð prentara og Lífeyrissjóð bókbindara. Þær stéttir, sem hér eiga hlut að máli, mundu vafalaust telja farið aftan að sér með þvingunarráðstöfunum og yrðu jafnvel enn harðari en aðrir í andstöðu sinni gegn þeim.

6. Á allmarga lífeyrissjóði voru með lögum á s. l. ári lagðar byrðar, til þess að sjóðsfélagar öðluðust full réttindi hjá almannatryggingum, og með breyt. á lögum um Lífeyrissjóð togarasjómanna hafði nokkrum sjóðum áður verið gert það að endurgreiða hluta af innkomnum iðgjöldum. Þeir sjóðir, sem hér eiga hlut að máli, telja, að nú þegar hafi verið alvarlega að þeim þrengt með tilliti til lánveitinga.“

Og bréf þetta endar þannig:

„Að lokum skal tekið fram, að það er sannfæring undirritaðra, að veigamesti þátturinn í lausn lánsfjármála húsbyggjenda er áframhaldandi vöxtur lífeyrissjóða og óbreytt aðstaða þeirra til lánveitinga. Með því móti, svo og skaplegri þróun verðlags- og kaupgjaldsmála, mundi geysimikið vinnast á þessu sviði á næstu árum.“

Ég tel, að hér séu færð svo sterk rök fyrir því, sem þar er haldið fram, að hv. alþm. hljóti allir að staldra við og vega og meta þessi rök.

Að síðustu um þetta atriði frv. vil ég leyfa mér að segja þetta: Það er staðreynd, að fáa einstaklinga í landinu hefur verðbólgan farið verr með en þá einstaklinga, sem hafa af þjóðfélagsástæðum og af eigin ástæðum verið að spara sér með uppsöfnun fjármagns í lífeyrissjóðunum, bæði til þess að koma húsi yfir sig og eins að tryggja sig og fjölskyldu sína, þegar þeir yrðu gamlir menn eða ef þeir yrðu svo óheppnir að veikjast.

Kaupmáttur lífeyris þessa fólks hefur sífellt farið rýrnandi á undanförnum verðbólguárum. Sumt af þessu fólki hefur getað varið sig gegn rýrnandi kaupmætti lífeyris síns með því að fá lán úr sjóðunum og byggja sér fasteignir, íbúðir fyrir sjálft sig, og þannig með verðhækkun íbúða í verðbólguþróun og lækkandi kaupmætti lífeyris hefur þetta að nokkru leyti vegið salt. Eins og ég var að segja, þá á að þrengja ráðstöfunarrétt lífeyrissjóðanna til að lána eigin sjóðsfélögum til íbúðabygginga, og bætist það þá ofan á það varnarleysi, sem þeir flestir hafa búið við vegna verðbólguþróunarinnar og rýrnandi kaupmáttar lífeyris síns. Ég tel, að það sé ósanngjarnt í fyllsta máta.

Ég vil þá víkja að öðru atriði í frv., þ. e. þeirri hækkun, sem gert er ráð fyrir að verði á hámarkslánum Byggingarsjóðs ríkisins. En með frv. er gert ráð fyrir því, að lána megi úr Byggingarsjóði ríkisins 600 þús. kr. lán, ef byrjað er á íbúðinni eftir næstu áramót. Úr þessu atriði hefur nokkuð verið gert, en það er eins og með margt annað í þessu frv., að ef það er skoðað nánar, þá er hér raunar ekki um neitt nýtt að ræða. Hér er um enga umtalsverða hækkun að ræða frá því, sem verið hefur undanfarin mörg ár. Þessu til stuðnings vil ég benda á það, að árið 1966 var byggingarvísitalan í október, — ég miða við október öll árin, — 298 og byggingarkostnaður rúmmetra í vísitöluhúsi var 2768 kr. Þá var hámarkslán 340 þús. kr. Árið 1967 var vísitalan óbreytt, 298 stig, og byggingarkostnaður óbreyttur líka. Þá var lánið hækkað í 380 þús. kr. Árið 1968 var byggingarvísitalan komin upp í 345 stig og byggingarkostnaður á rúmmetra í íbúð var 3206 kr. Þá var hámarkslánið 395 þús. kr. Árið 1969 hækkaði vísitala í 428 stig og þá var byggingarkostnaður rúmmetra 3975 kr., og hámarkslán var þá 440 þús. kr. Í febrúar 1970 var byggingarvísitalan 439 stig, og byggingarkostnaður á rúmmetra var 4080 kr., og þá er lánið, eins og það er núna, um 540 þús. kr. Þó að gert sé ráð fyrir því, að eftir áramót hækki lánið úr 540 þús. kr. í 600 þús. kr. á þau hús, sem byrjað er á þá, þá er það ekki annað en hækkun til samræmis við hækkandi byggingarvísitölu, eins og verið hefur föst venja undanfarin ár og raunar miklu lengur, þannig að um þetta atriði er ekki neitt stórt að segja.

Þá verður það að teljast til ótvíræðra ókosta við frv. að fella á niður hin svokölluðu verkalýðslán. Eins og lögin eru núna hafa tekjulágir verkamenn í verkalýðsfélögum átt þess kost að fá ofan á hið almenna lögboðna lán, sem er nú, eins og ég gat um áðan, 540 þús. kr., 75 þús. kr. viðbótarlán. Með frv. á að afnema þennan möguleika láglaunafólks í landinu til þess að fá viðbótarlán til húsabygginga fyrir sjálft sig.

Enn fremur verð ég að telja til ótvíræðrar afturfarar og ókosta frv., að hin skýlausu ákvæði gildandi laga um það, að húsnæðislán skuli hækka til samræmis við hækkandi byggingarvísitölu á hverju ári, verði niður felld og aðeins tekin inn í frv. heimild til þess að hækka lánin á tveggja ára fresti. En þar er aðeins um heimild að ræða, sem enginn veit um, hvort notuð verður eða hvernig notuð verður.

Þá vil ég aðeins víkja nokkrum orðum að þeim ákvæðum frv., er taka til Byggingarsjóðs verkamanna. Ég gat um það áðan í upphafi ræðu minnar, að ég teldi þá skipulagsbreytingu, sem frv. gerir ráð fyrir, að hafa eina og sameiginlega yfirstjórn fyrir Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna, til bóta. Heimild til þess að lána allt að 80% af kostnaðarverði verkamannabústaða er góðra gjalda verð, en ef ég veit rétt, er hún til í gildandi lögum. Ég vil líka taka undir það með hæstv. ráðh., að lánakjör, sem eiga að vera á lánum úr Byggingarsjóði verkamanna, eru mjög hagstæð. En þá fer nú að þrengjast um það, sem mér finnst sérstaklega lofsvert við þessi ákvæði um Byggingarsjóð verkamanna í frv.

Ég tel, að í frv. sé að finna nokkur atriði, sem nauðsynlegt sé að endurskoða og þurfi raunar að breyta. Í fyrsta lagi er það, að ég tel, að það sé ekki rétt að ákveða, að enginn einstaklingur, sem hefur meðaltekjur s. l. 3 ár umfram 200 þús. kr., geti átt þess kost að fá lán úr byggingarsjóðnum. 200 þús. kr. eru ekki háar tekjur á þessu ári eða í fyrra. Ég fékk í morgun upplýsingar um það á hagstofunni, að samkv. athugun, sem hagstofan hafði gert á tekjum einstaklinga, starfshópa og stétta í landinu, sem náðu til ársins 1967 og byggðar eru á upplýsingum, sem er að finna í framtölum, þá hefðu allar stéttir landsins á árinu 1967 haft hærri meðaltekjur en nemur 200 þús. kr. á einstakling, allar stéttir að undantekinni einni, þ. e. a. s. bændastéttinni, sem þá var talin með meðaltekjur 194 þús. kr. á hvern mann. Samkv. upplýsingum hagstofunnar voru meðaltekjur ófaglærðs starfsfólks í fiskiðnaði árið 1967 233 þús. kr. Þessi athugun náði til 1459 einstaklinga. Meðaltekjur ófaglærðra manna í byggingarvinnu, 1465 einstaklinga, voru 261 þús. kr. Meðaltekjur 546 hafnarverkamanna voru 263 þús. kr., og meðaltekjur ófaglærðra verkamanna, 602 verkamanna, námu árið 1967 236 þús. kr.

Síðan þá, árið 1967, hefur, að því er hagstofan segir mér, vinnulaunataxtahækkun frá árinu 1967 til 1969 numið a. m. k. 25%, þannig að miðað við þessar upplýsingar, sem ég hygg að séu óyggjandi og réttar, þá hljóti að verða að taka það til verulegrar endurskoðunar, hvort þetta 200 þús. kr. tekjumark sé ekki of lágt og þurfi ekki að breyta því og hækka eitthvað. Hefur mér m. a. dottið í hug, hvort væri nokkuð óeðlilegt að lyfta því upp í a. m. k. 250 þús. kr. Mundi ég óska þess, að það yrði sérstaklega athugað í þeirri n., sem mál þetta fær til athugunar að þessari umr. lokinni.

Hitt atriðið um galla við frv. að mínu viti, — það orkar a. m. k. tvímælis, — er það, hvort áskilja á sveitarfélögunum algjört einræði, sem þau virðast hafa um það, hvort yfirleitt verði byggðir verkamannabústaðir á þeirra svæði, eins og frv. gerir ráð fyrir. Það geta verið til einstaklingar í sveitarfélögum, sem vilja gjarnan og er raunar lífsnauðsyn á að byggja yfir sig verkamannabústaði og vilja njóta þeirra kjara, sem lögin bjóða þeim, er verkamannabústaði byggja. En hins vegar kann sveitarstjórnin í viðkomandi sveitarfélagi að hafa takmarkaðan eða kannske engan áhuga á að byggja slíka verkamannabústaði innan síns yfirráðasvæðis. Þá mundi hún geta ráðið því og komið í veg fyrir, að viðkomandi einstaklingur eða félagahópur í sveitarfélaginu gæti byggt yfir sig og notið þeirra kjara, sem verkamannabústaðalöggjöfin, að frv. þessu samþykktu, gerir ráð fyrir.

Ég hef talað nokkuð langt mál um þetta frv. og skal nú ekki teygja það meira. Mér sýnist, ef málið er skoðað hlutlægt, og reynt að meta það, að þá sé þetta frv. ekki sérlega stórt í sniðum og boði síður en svo nokkra umtalsverða nýsköpun í sambandi við lánveitingar til byggingarmála í landinu almennt skoðað. Þetta segi ég með skírskotun til þess, sem ég hef áður sagt um flutning á peningum lífeyrissjóðanna yfir til húsnæðismálastjórnarinnar til þess að sinna sams konar verkefni. Í frv. er þó að finna ákvæði, sem ég mundi telja til bóta, eins og ég hef þegar rakið. Önnur eru tvímælalaust til hins verra, eins og ég hef líka rakið. Ég mun reyna á síðari stigum þessa máls að flytja við frv. brtt. til þess að kanna það, láta á það reyna á hv. Alþ., hvort sá stuðningur, sem frv. boðar óbreytt, eigi hér meirihlutafylgi, svo sterkt, að engu fáist í því breytt, eða hvort fleiri eru hér inni svipaðrar skoðunar og ég, að ýmis atriði frv. séu þess eðlis, að þau þurfi að athuga betur og öðrum þurfi tvímælalaust að breyta.