09.04.1970
Neðri deild: 70. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í B-deild Alþingistíðinda. (1509)

198. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Með frv. þessu er gert ráð fyrir allverulegum breytingum á gildandi lagaákvæðum um aðstoð við íbúðabyggingar í landinu. Sumar breyt., sem í þessu frv. felast, eru að mínum dómi til bóta, aðrar gera kosti húsbyggjenda heldur lakari en þeir hafa verið samkv. gildandi lögum, og nokkrar breyt. eru að mínum dómi mjög vafasamar.

Við alþm. könnumst vel við það, að hér hafa komið fram margar till. á undanförnum árum um breyt. á húsnæðismálalöggjöfinni. Og hvað er það fyrst og fremst, sem þm. hefur fundizt á skorta í gildandi lagaákvæðum um húsnæðismál? Ég held, að það séu fyrst og fremst þau ákvæði gildandi húsnæðismálalaga, sem snerta fjáröflun kerfisins og lánakjör. Það hefur ekkert farið á milli mála, að Byggingarsjóður ríkisins, sem fyrst og fremst hefur þurft að standa undir lánveitingum til þeirra, sem hafa verið að byggja íbúðarhús, hefur ekki haft nægilegt fé til umráða til þess að geta afgreitt umbeðin húsnæðismálalán á eðlilegan hátt.

En hvernig er þá tekið á þessu stóra vandamáli í þessu frv., sem hér liggur fyrir? Mér sýnist, að á yfirstandandi ári verði um sáralitlar breytingar að ræða varðandi fjáröflun hjá hinu almenna húsnæðismálakerfi. Sú hækkun, sem gert er ráð fyrir, að ríkið láti af höndum til húsnæðismálakerfisins, á ekki að koma til framkvæmda á þessu ári. Hún á að koma til framkvæmda í fyrsta sinn á næsta ári, þegar framlag ríkisins á að hækka úr 40 millj. kr. upp í 75 millj. kr.

En samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir því að skylda lífeyrissjóði og eftirlaunasjóði til þess að leggja fram 1/4 hluta af ráðstöfunarfé þessara sjóða til Byggingarsjóðs ríkisins, og þannig er gert ráð fyrir auknu framkvæmdafé til byggingarsjóðs. Því verður auðvitað ekki neitað, að þarna yrði um nokkra fjáröflun að ræða fyrir byggingarsjóð, en eins og hér hefur verið bent á í umr. áður, þá er hér ekki um að ræða aukningu á fjáröflun til íbúðabyggingaframkvæmda, því að fé þessara sjóða hefur að yfirgnæfandi meiri hluta farið í íbúðalán, og í eðli sínu er hér um tiltölulega lítinn mun að ræða að því leyti til, a. m. k. eins og sakir standa nú, að sá háttur hefur verið hafður á hjá húsnæðismálastjórn, að hún hefur látið þá aðila, sem hafa getað fengið lán úr lífeyrissjóðunum til íbúðabygginga, fá nokkru lægri lán úr Byggingarsjóði ríkisins. Nú er hins vegar gert ráð fyrir því, að þeir, sem geta fengið fé úr lífeyrissjóðunum að láni til íbúðabygginga, fái fullt lán úr Byggingarsjóði ríkisins. Hér er því um tilfærslu að ræða í flestum tilfellum, sem ekki getur haft mjög veruleg áhrif á það að leysa lánamál húsbyggjenda.

En ég skal ekki að þessu sinni ræða hér í löngu máli þetta ákvæði frv. Það er búið að gera það hér af öðrum í mjög löngu máli. Það er enginn vafi á því, að það orkar mjög tvímælis, hvort á að skylda þessa sjóði til þess að láta þennan hluta af ráðstöfunarfé sínu í Byggingarsjóð ríkisins. En því verður auðvitað ekki heldur neitað, að þeir, sem hafa átt kost á því að fá lán úr lífeyrissjóðum, hafa búið við miklu betri lánakjör til þessa til íbúðabygginga en hinir, sem hafa orðið að láta sér nægja lánin úr Byggingarsjóði ríkisins og ekki hafa átt kost á lánum úr lífeyrissjóðum.

En meginatriðið, sem ég vildi vekja athygli á við þessa 1. umr. málsins, er það, að ekki er að finna í þessu frv. neina verulega lausn á fjárhagsvandamáli Byggingarsjóðs ríkisins eða hinna opinberu byggingarsjóða, sem lán veita til íbúðabygginga. Það er ekki að finna neina verulega lausn á fjárhagsvandamálum þeirra í frv. Og einkum og sérstaklega varðandi getu þessara sjóða til þess að veita lán á yfirstandandi ári er varla um teljandi breytingu að ræða. Þetta tel ég mikinn ágalla á frv., og ég tel, að það sé óhjákvæmilegt að gera ráðstafanir til þess að tryggja Byggingarsjóði ríkisins aukið starfsfé frá því, sem nú er, og það á raunhæfan hátt, þannig að meira fé verði til útlána en verið hefur til íbúðabygginga. Ég tel fyrir mitt leyti, að sjálfsagt sé, að framlag ríkissjóðs verði mun meira en 75 millj. kr. Ég tel, að framlag ríkisins ætti ekki að vera minna en 120 millj. kr. á ári og að ríkið ætti að gera sérstakar ráðstafanir á þessu ári til þess að leggja fram meira fé til Byggingarsjóðs ríkisins en gert er ráð fyrir á fjárlögum, þá að sjálfsögðu sem bráðabirgðalán í ár, sem síðan yrði greitt aftur upp á næsta ári með því að taka þá greiðslu sérstaklega upp á fjárlög.

Það er einnig skoðun mín, að það væri eðlilegt, að Seðlabankinn yrði skyldaður til þess að kaupa að nokkru magni skuldabréf af Byggingarsjóði ríkisins, fyrir t. d. eins og 100 millj. kr. á ári. Það er vitanlega ofur eðlilegt, að nokkrum hluta af því fjármagni, sem sparast í peningakerfi landsmanna á hverju ári, sem til fellur sem sparnaður, verði varið til íbúðalána, og Seðlabankinn hefur langbezta aðstöðu til þess að sjá um það, að sanngjarn hluti af þessum sparnaði gangi til þess að efla Byggingarsjóð ríkisins, og það verður bezt gert með því að kaupa bréf af sjóðnum. Fleira getur komið til greina sem raunhæfar ráðstafanir, sem raunverulega legðu Byggingarsjóði ríkisins til aukið fjármagn, þannig að hægt væri að veita ríflegri lán en veitt hafa verið og veita fleirum lán en þau hafa getað fengið.

Annað atriði hefur mikið verið rætt hér á undanförnum árum. Ég hygg, að allir viðurkenni, að þörf sé á að fá fram breytingu að því er varðar lánakjörin sjálf. Hin almennu lánakjör eru þau, að lán Byggingarsjóðs ríkisins eru til 25 ára, og þau eru veitt með 4% vaxtakjörum, en hins vegar með vísitöluákvæðum, þ. e. a. s. afborganir og vextir af lánunum hækka eða lækka, eftir því sem kaupgjaldsvísitalan breytist. Það er enginn vafi á því, að þessi lánakjör eru tiltölulega mjög óhagstæð. Þau valda því, að útgjöld manna í sambandi við íbúðarkostnað eru óheyrilega mikil hér á landi. Ég tel, að þennan lánstíma þurfi að lengja, það þurfi að setja sér það mark að koma þessum lánum upp í a. m. k. 35 ár og veita helzt af öllu lántakendum rétt til þess að vera lausir við afborganir a. m. k. tvö fyrstu árin, sem venjulega eru erfiðust fyrir þá, sem hafa staðið í byggingu íbúða. Það gefur auðvitað auga leið, að um leið og lánstíminn lengist, þarf kerfið að ráða yfir meira fjármagni en áður.

Ég tel einnig, að það eigi að afnema vísitöluákvæðin á lánum byggingarsjóðs. Í verðlagi eins og því, sem við höfum búið hér við og allar líkur virðast vera til, að við munum búa hér við eitthvað áfram, þá verða lánskjörin með þessum hætti fljótlega mjög ósanngjörn og eiginlega lítt viðráðanleg fyrir lántakendur. Það þarf því að fella niður þessi ákvæði, en ég teldi viðunandi, að þessi aðallán frá Byggingarsjóði ríkisins yrðu veitt með 4% vöxtum. En þá gefur það auga leið, að í ýmsum tilfellum yrði Byggingarsjóður ríkisins að borga hærri vexti fyrir það fé, sem hann hefur til ráðstöfunar, en þá vexti, sem hann fær inn til sín fyrir veitt lán, og þá tel ég, að ríkissjóður eigi að borga þennan vaxtamismun með árlegu framlagi.

Það þýðir ekki að víkja sér lengur undan því að mínum dómi, að ríkissjóður verður að leggja miklu meira á sig til að leysa húsnæðisvandamálið í landinu en hann hefur gert til þessa. Hann hefur í rauninni í öllum aðalatriðum skotið sér undan því að leysa þessi vandamál að þessu leyti til, þ. e. a. s. að tryggja Byggingarsjóði ríkisins aukið starfsfé og skapa honum aðstöðu til þess að veita betri lánskjör en hann hefur veitt til þessa. Um það fjallar þetta frv. að sáralitlu leyti.

Þetta tel ég megingallana við þetta frv., eins og það liggur hér fyrir. Athygli þeirrar n., sem fær málið til meðferðar, þarf fyrst og fremst að beinast að þessu, að tryggja betur fjárhag lánakerfisins en gert er, og það þarf að gera ráð fyrir hagstæðari lánakjörum.

Þá er gert ráð fyrir í þessu frv. ýmsum breytingum, eins og ég sagði hér í upphafi máls míns, sumum til bóta að mínum dómi, eins og t. d. því, að nú er gert ráð fyrir því, að húsnæðismálastjórn hafi heimild til þess að verja nokkru fjármagni í lánveitingar til þeirra, sem eru að kaupa eldra húsnæði. Ég tel engan vafa leika á því, að það er þörf á því að hafa slíka heimild sem þessa, og það þyrfti reyndar að veita í þessu skyni nokkru meiri lán en gert er ráð fyrir í frv. En hér er þó spor í rétta átt, og ber að fagna því.

Það ákvæði í frv. hins vegar, sem gerir ráð fyrir því að fella niður áður umsamin viðbótarlán til meðlima verkalýðsfélaga, 75 þús. kr. viðbótarlán, sem verið hefur nú um nokkurra ára skeið, tel ég vera skref aftur á bak og í rauninni alveg furðulegt, því ég veit ekki betur en að þetta hafi verið beint samningsatriði stjórnarvalda og verkalýðs í sambandi við lausn ákveðinnar vinnudeilu, og ég undrast, að ríkisstj. skuli leggja fram frv. um að fella niður þetta atriði, sem komið var inn í lög á þennan hátt. Auk þess tel ég, að þessi lán hafi átt fyllilega rétt á sér og eigi enn fyllilega rétt á sér, vegna þess að þessir tekjulágu aðilar í verkalýðsfélögum, sem njóta þessara lána, hafa enn ekki og munu ekki hafa um alllangan tíma möguleika á því að fá nein teljandi viðbótarlán úr lífeyrissjóðum sínum. Þeir munu því búa við lakari eða lægri heildarlán en þorri manna nýtur, sem nú á möguleika á því að fá lán úr lífeyrissjóði að verulegu leyti til viðbótar við lán Byggingarsjóðs ríkisins. Þó að ákvæði frv. um skyldu lífeyrissjóðanna til að verja 1/4 hluta af ráðstöfunarfé sínu til þess að kaupa bréf Byggingarsjóðs ríkisins yrðu samþ., þá gefur það samt sem áður auga leið, að þeir, sem hafa lánsmöguleika í lífeyrissjóðum, mundu eftir sem áður búa við miklu betri kjör en meðlimir verkalýðsfélaganna, þó þeir nytu áfram þessara viðbótarlána, sem nema í kringum 75 þús. kr. Ég teldi þvert á móti ástæðu til þess að hækka þessa upphæð, sem nú er orðin nokkurra ára gömul, og gera ráð fyrir því, að þessi viðbótarlán næmu a. m. k. 125 þús. í stað 75, sem verið hefur.

Þá er í þessu frv. gert ráð fyrir því að leggja í raun og veru niður hið gamla byggingarlánakerfi verkamannabústaða. Ég verð að játa það, að þótt mér þyki, að illa hafi tekizt til um framkvæmd á því kerfi, einkum og sérstaklega nú hin síðari ár, þegar kerfið hefur verið mjög lamað fjárhagslega og framkvæmdir á þess vegum langt fyrir neðan það, sem þörf var á, þá verð ég að segja, að ég sé verulega eftir því, að leggja eigi niður þetta kerfi, sem a. m. k. fyrir nokkrum árum leysti mikinn vanda og var mjög þýðingarmikið lánakerfi einmitt fyrir láglaunafólk í landinu.

Nú er í raun og veru gert ráð fyrir því að leggja þetta kerfi niður og taka upp annað í staðinn, en það á að byggjast á því, að viðkomandi sveitarstjórnir ákveði að hefja byggingarframkvæmdir undir nafninu verkamannabústaðir, en það er algjörlega á valdi viðkomandi sveitarstjórna samkv. frv., hvort nokkuð verður af slíkum byggingum eða ekki. Ég efast ekkert um það fyrir mitt leyti, miðað við þá þekkingu, sem ég hef á þeim málum, að þær sveitarstjórnir yrðu því miður allmargar í landinu, sem ekki mundu óska eftir því að leggja á sig þau auknu fjárútgjöld, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., til þess að þar yrðu byggðir verkamannabústaðir, þó að þær sæju, að þær gætu með því ýtt nokkuð undir byggingarframkvæmdir á sínum stöðum. Ég tel því mjög gallað að gera ráð fyrir því, að framkvæmdir samkv. þessum ákvæðum frv. séu algjörlega bundnar vilja sveitarstjórna. Það fer auðvitað ekki heldur á milli mála, að hér er um talsverð útgjöld að ræða fyrir sveitarfélögin frá því, sem verið hefur. Til þessa hefur það verið svo, að sveitarfélag, sem hefur viljað stuðla að því, að þar yrðu byggðir verkamannabústaðir, hefur þurft að greiða frá 40 til 60 kr. á hvern íbúa sinn til Byggingarsjóðs verkamanna. En nú er gert ráð fyrir því, að ef um byggingar á að vera að ræða samkv. þessum ákvæðum frv., þá þurfi sveitarfélagið að greiða a. m. k. 200 kr. á hvern íbúa í staðinn fyrir lágmarkið 40 áður. Það er sem sagt fimmföldun á þessu framlagi. Og í raun og veru er þessum málum þannig fyrir komið, að til þess að sveitarfélag verði þess aðnjótandi; að lán verði veitt til sveitarfélagsins samkv. þessum kafla laganna, þá þarf viðkomandi sveitarsjóður að taka að sér að lána miðað við þá áætlun, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., 180 þús. kr., eða að leggja fram 180 þús. kr. á hverja íbúð. Gegn því leggur síðan Byggingarsjóður verkamanna fram aðra eins upphæð, 180 þús. kr. á íbúð, þannig að úr því kerfi eiga að fást 360 þús. kr. á íbúð til viðbótar við 600 þús. kr. lán samkv. því dæmi, sem miðað er við í frv., frá hinu almenna veðlánakerfi, þ. e. a. s. Byggingarsjóði ríkisins. Heildarlánið í þessu tilfelli yrði því 960 þús. kr. á íbúð, þegar gert er ráð fyrir, að íbúðin kosti 1200 þús. kr. Ég efast mjög um, að þær sveitarstjórnir verði mjög margar í landinu, sem samþykkja að leggja fram 180 þús. kr. á íbúð til þess að hafa áhrif á það, að það komi inn í byggðarlagið 180 þús. kr. þar til viðbótar úr byggingarsjóði, sem yrði þá til þess að veita mönnum þessi tiltölulega góðu kjör, sem gert er ráð fyrir, að menn geti notið samkv. þessum kafla laganna. Ég efast að vísu ekkert um, að það yrðu nokkrar sveitarstjórnir í landinu, sem mundu nota sér þessi ákvæði, en ég óttast mjög, að þær verði margar sveitarstjórnirnar, sem ekki mundu nota sér þessi ákvæði. Og þá verður málum þannig komið, að aðilar á þeim stöðum hafa ekki lengur möguleika til þess að koma fram verkamannabústaðabyggingum á svipuðum grundvelli og þeir hafa þó getað gert til þessa í gegnum félagsleg samtök og tiltölulega lága greiðslu frá sveitarsjóði til Byggingarsjóðs verkamanna.

Ég held líka, að það áhrifavald, sem sveitarstjórnunum er boðið upp á í þessum efnum í sambandi við framkvæmdir samkv. þessum kafla frv., sé of lítið. Það er gert ráð fyrir því, að sú stjórn, sem á að hafa með framkvæmdirnar að gera í hverju sveitarfélagi, verði þannig skipuð, að viðkomandi sveitarstjórn á að skipa tvo fulltrúa, verkalýðsfélögin á staðnum einn, en Húsnæðismálastofnun ríkisins á að skipa tvo. Það er augljóst, að viðkomandi sveitarstjórn, sem hefur það í hendi sinni, hvort á að hefja nokkrar framkvæmdir í þessum efnum eða ekki, á hér að vera í minni hluta. Ég er mjög hræddur um, að þegar þannig er búið að þessum málum, þá verði ekki mikið úr framkvæmdum. En þetta tel ég að mætti laga.

Út af fyrir sig tel ég það til bóta í frv. að gera ráð fyrir þeim möguleika, að sveitarstjórnir geti staðið fyrir byggingarframkvæmdum eftir þeirri leið, sem gert er ráð fyrir í frv., en þær hafa ekki haft möguleika til þess á hliðstæðum grundvelli og hér er gert ráð fyrir. Ég tel, að það væri ekkert við það að athuga, að gert væri ráð fyrir í frv. félagssamtökum á svipuðum grundvelli og verið hefur, þar sem aðilar standa að framkvæmdum á nokkuð svipaðan hátt og verið hefur. Ef t. d. verkalýðsfélög á staðnum hafa áhuga á því að koma upp byggingarfélagi verkamann, þá geti þau gert það, eða einstaklingar á staðnum, og þeir geti haldið þeim möguleikum til framkvæmda, sem þeir hafa haft, þótt sveitarfélögunum yrði einnig gefinn kostur á þessu.

Þá er enginn vafi á því, að ákvæðin í frv. um meðaltekjur þeirra, sem heimilt er að veita lán samkv. þessum kafla, og um meðaleign þeirra, fá ekki staðizt í reynd. Ef stranglega yrði farið eftir þessum ákvæðum, þá er enginn vafi á því, að margir þeir aðilar, sem sannarlega þurfa á því að halda að fá þá lánafyrirgreiðslu, sem gert er ráð fyrir samkv. þessum kafla, mundu falla út, þar sem þeir mundu hafa meiri tekjur en þarna er gert ráð fyrir, a. m. k. ár og ár.

Mér sýnist líka, að það sé býsna þröngt að gera ráð fyrir því, að sá aðili, sem sæki um lán samkv. þessum kafla, megi ekki eiga meiri eign en sem nemur 400 þús. kr., en þó er tekið fram, að hann eigi að leggja fram áætlað framlag, sem nemur 240 þús. kr., og hann megi ekki fá það frá opinberum aðila, hann verður að eiga upphæðina. Hann verður þá að eiga 240 þús. kr. miðað við núverandi verðlag og má þá í mesta lagi eiga 160 þús. kr. þar til viðbótar. Það þýðir, að ef hann á trillubát, þá fellur hann alveg örugglega út. Ég held, að þessi ákvæði séu allt of þröng. Það verður að gera ráð fyrir því, að tekjumarkið megi verða nokkru hærra og eignamarkið líka. Hitt er svo annað atriði, að það kemur vissulega til greina að setja það inn í útlánareglur, að þeir, sem hafi lægri tekjur, skuli jafnan hafa forgang til þess að fá þessi lán. Það er hins vegar annað mál.

Í þessu frv. eru mörg önnur atriði, sem ástæða væri til þess að ræða um, en ég skal ekki fara um það mörgum orðum nú við þessa 1. umr. Þó vil ég segja það, að mér þykir full ástæða vera til þess að gera ráð fyrir því, að í þeirri stjórn, sem tæki að sér yfirstjórn bæði verkamannabústaðakerfisins og hins almenna lánakerfis, yrðu a. m. k. 7 menn, sem Alþ. kysi, en ég kann ekki við þá breytingu, þar sem gert er ráð fyrir í 1. gr. frv., að Alþ. kjósi 6 menn, en einn verði til viðbótar í n. sem fulltrúi Landsbankans með fullum réttindum, en það var ekki áður. Sá fulltrúi Landsbankans eða veðdeildar Landsbankans, sem hafði fundarseturétt í húsnæðismálastjórn með hinum 5 kjörnu fulltrúum, hafði ekki fullan rétt þar, t. d. til ákvörðunar um lánveitingar. Nú er allt í einu gert ráð fyrir því, að fulltrúi banka hafi þarna jafnan rétt, sem ég sé enga ástæðu til. Í rauninni er veðdeild Landsbankans í þessum efnum og bankinn ekkert annað en ákveðin þjónustustofnun, sem hefur með framkvæmdir á þessum málum að gera, en á ekki að vera slíkur aðili, að hún eigi þarna einhvern sjálfskipaðan mann í stjórn. En hitt hefði mér fundizt eðlilegt, að Alþ. hefði kosið 7 menn í þessa stjórn, sem fær allt þetta verkefni, sem hér er gert ráð fyrir.

Ég vil einnig segja það, að ég tel óhjákvæmilegt að breyta ákvæðunum um skyldusparnað frá því, sem nú er, þannig að það sé algerlega tryggt, að þau ungmenni, sem skylduð eru til þess að leggja til hliðar sem nemur 15% af kaupi sínu á þessu tímabili, árabili frá 16 ára aldri til 25 ára aldurs, fái a. m. k. sem nemur fullum venjulegum bankavöxtum fyrir innistæðufé sitt, en nú er þetta fé tekið af þessum ungmennum og þau fá aðeins 4% vexti og að vísu vísitöluálag samkv. kaupgjaldsvísitölu, sem er reiknað út á þann hátt, að í mjög mörgum tilfellum kemur í ljós, að þessi ungmenni fá ekki sem nemur venjulegum bankavöxtum af þessu innistæðufé sínu. Það er mér vel kunnugt um, því að ég hef þurft að taka út fé fyrir ungmenni í ýmsum slíkum tilfellum og hef varla viljað trúa því, að þetta gæti verið rétt. En svona er það samt. Það verður að tryggja það, að af þessu fé séu greiddir a. m. k. vextir, sem nema fullkomnum bankavöxtum.

Þá tel ég einnig, að það þurfi að breyta ákvæðum í 9. gr. frv. í þá átt, að nú verði lagt fyrir, að veðdeildin standi þannig að framkvæmdum lánveitinga, að þegar tekin hefur verið ákvörðun um það, hve mikið lán skuli veitt til hvers lántakanda, þá skuli veðdeildin sjá um það, að öll afgreiðsla lánanna, þar með undirskrift lánsskjala, allur frágangur lánanna og útborgun þeirra geti farið fram í bankastofnunum, bæði í sparisjóðum og bönkum úti um land. Sá óeðlilegi siður verði lagður niður, að það sé ekki hægt að ganga frá láni út á íbúð, sem byggð er, með öðrum hætti en þeim að útvega sér einhvern umboðsmann í Reykjavík, sem fer inn í tiltekið hús hér í Reykjavik og verður að skrifa undir skjölin þar og taka við peningum þar til þess síðan að koma þeim til þeirra, sem eiga að taka við þessu einhvers staðar úti á landi. Það dugir ekki lengur að hafa einhverja heimild í þessum efnum. Það er sýnilegt, að þær stofnanir, sem hafa með þetta að gera, vilja halda þessu öllu í sínum höndum. Það á að leggja fyrir þær að standa þannig að framkvæmdum, að þegar búið er að ákveða lánsupphæðina og búið er að athuga um það, hvernig skuli ganga frá láninu að öðru leyti, þá á að senda lánin til þeirra staða, þar sem bankastofnun er a. m. k. næstliggjandi við þann aðila, sem á að fá lánið, þannig að hann geti þar gengið frá láninu sjálfur og tekið við láninu á eðlilegan hátt.

Það eru mörg önnur atriði, sem ég hefði viljað ræða um, en ég skal ekki gera það hér nú við 1. umr. málsins. Þau verða að sjálfsögðu rædd hér nánar síðar, þegar n. hefur fjallað um málið. En ég vil aðeins segja það að lokum, að ég tel, að við þá endurskoðun, sem nú fer hér fram á þessari löggjöf, sé alveg óhjákvæmilegt að tryggja það, að fjárhagur byggingarlánasjóðanna verði gerður öflugri en hann er nú, svo að sjóðirnir geti veitt hærri lán og með betri kjörum, og það verði bundið í lögum, að lánakjörin batni frá því, sem verið hefur. Þetta er aðalatriði þessa máls.