09.04.1970
Neðri deild: 70. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í B-deild Alþingistíðinda. (1513)

198. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessar umr., en þar sem hæstv. félmrh. hneykslaðist mjög á þeim ummælum mínum áðan, að ég væri að tala um eignaupptöku á þessu fjármagni, þá vildi ég athuga það svolítið nánar. Ef maður fer að athuga um það, hvernig þessi mál hafa þróazt á þessu tímabili, sem hæstv. ríkisstj. hefur setið að völdum, þá var byggingarvísitalan 1959 132 stig. Eftir því, sem mér hefur verið upp gefið, var meðalstærð á íbúðum, sem byggðar voru t. d. 1968, — og ég legg þá stærð til grundvallar í báðum þeim dæmum, sem ég ætla að koma með, — 438 rúmmetrar. Miðað við byggingarvísitölu 1959 hefði slík íbúð átt að kosta 537 þús. kr., en sams konar íbúð í dag ætti að kosta 1787 þús. kr. Við skulum athuga það, að ef þróunin verður á næsta áratug eins og þessum og það er tekið þarna fé, sem ég eða aðrir, sem væru í lífeyrissjóði, gætu annars fest í fasteign, og ég hefði fengið aðgang að meira láni, þá mundi sú eign haldast óbreytt miðað við það ástand, sem verið hefur. En ef þessu er skilað aftur eftir 10 ár, þá er hver króna ekki orðin nema 30 aurar miðað við þessa reynslu. Mér sýnist þetta hálfgerð eignaupptaka. Ég get ekki kallað þetta annað.