30.04.1970
Neðri deild: 94. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1184 í B-deild Alþingistíðinda. (1518)

198. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Það hefur jafnan verið keppikefli hvers Íslendings, sem kominn er til vits og ára, að eignast þak yfir höfuðið, eins og það er kallað, eignast samastað fyrir sig og fjölskyldu sína, sannkallað vígi til sóknar og varnar í lífsbaráttunni, og ég held, að þessi þáttur í fari Íslendingsins, viljinn og viðleitnin til að eignast sína eigin íbúð, sitt eigið hús, sé ríkari í fari okkar en margra annarra þjóða. Hvað því veldur er spurning, sem ekki verður svarað hér. En saga liðinna ára og áratuga sýnir þúsundir einstaklinga að verki við að byggja sér íbúðir í fjölbýlishúsum, raðhúsum eða einbýlishús eftir efnum og ástæðum, fólk á öllum aldri og úr öllum stéttum þjóðfélagsins, snautt og vel efnað og allt þar á milli, hefur unnið að því að byggja þak yfir höfuð sér. Sumir hafa lagt mikið á sig til að ná takmarkinu, aðrir minna. Allir hv. alþm. hafa á síðastliðnum áratugum átt þess kost að sjá fjölda fjölskyldna ganga inn í nýjar íbúðir og búa þar um sig til frambúðar. Það eru sannir sigurdagar, en oft hefur fyrirvinnan, húsbóndinn, og fleiri úr fjölskyldunni, verið aðframkomin vegna langvarandi þreytu og svefnleysis vegna erfiðis við bygginguna, þegar þessum áfanga var náð. Áhyggjur vegna skulda, afborgana og vaxta hafa sótt á þetta fólk mitt í gleðinni og verið í senn skuggi og farg. Þess ber þó að geta, að löggjöfin hefur á síðustu áratugum rétt fram hjálparhönd til þeirra, sem hafa ráðizt í byggingu einstakra íbúða og einbýlishúsa. Má þar til nefna lög um samvinnubyggingar, lög um verkamannabústaði, lög um Stofnlánadeild landbúnaðarins og löggjöfina um Húsnæðismálastofnun ríkisins.

Hinn 9. apríl s. l. eða fyrir 3 vikum mælti hæstv. félmrh. fyrir frv. til 1. um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Aðalmálgagn ráðh., Alþýðublaðið, taldi, að frv. þetta væri að efni til um nýsköpun húsnæðismála, hvorki meira né minna. Í framsöguræðu sinni rakti hæstv. ráðh. efni frv. og fór ekki milli mála, að hann var mjög ánægður með frv. sem slíkt, sérstaklega þá nýju og miklu blóðgjöf, sem lánakerfið mundi fá með lögbindingu 6. gr. 3. tölul., en þar voru lífeyrissjóðir og eftirlaunasjóðir skyldaðir til að kaupa skuldabréf, sem svaraði 1/4 af árlegu ráðstöfunarfé þeirra. Þessa fyrirhuguðu lögþvinguðu tilfærslu fjármagnsins úr lífeyrissjóðunum í Byggingarsjóð ríkisins kallaði hæstv. ráðh. í viðtali við Alþýðublaðið 7. apríl s. l. stærstu nýju tekjulind byggingarsjóðsins. Í ræðu ráðh. var og lögð áherzla á þá hæpnu fullyrðingu, að húsnæðislánin hækkuðu samkv. frv. verulega til þeirra, sem hæfu byggingar eftir 1. jan. 1971, eða upp í 600 þús. kr.

Þá vakti hæstv. ráðh. sérstaklega athygli á því nýmæli í frv., að heimilt yrði að veita lán úr byggingarsjóði til kaupa á eldri íbúðum fyrir allt að 25 millj. kr. á ári. Þetta voru nýmæli, sem horfðu til bóta og vöktu ánægju. Þessi þrjú atriði, sem ég hef nú minnzt á, voru að mati hæstv. ráðh. höfuðprýði frv.

Þegar við 1. umr. frv. tóku allmargir hv. alþm. til máls, og sáu þeir ekki frv. þetta í sama ljósi og hæstv. talsmaður þess, heldur þvert á móti. Lið fyrir lið var bent á í ræðum þessara þm. veilur, sem fælust í frv., og það væri gallað og þyrfti lagfæringar við. Ég vil ekki tefja tímann á þessum ef til vill síðasta degi Alþ. að þessu sinni með því að vitna til einstakra fullyrðinga þeirra alþm. úr liði stjórnarandstæðinga, sem tóku til máls þennan dag, en margar þeirra hafa nú rætzt í sambandi við afgreiðslu máls þessa, þótt það þætti e. t. v. ólíklegt, þegar þær fullyrðingar voru fram settar.

Frv. það, sem hér um ræðir, er stjfrv. Með tilliti til þess svo og hins, að frv. var lagt fram aðeins 3 vikum fyrir þingslit, þá töldu bæði ég og aðrir þm. þessarar hv. d., að meðferð þess yrði með tiltölulega eðlilegum hætti, þ. e. a. s. að það færi fyrir heilbr.- og félmn. hið fyrsta, eins og það líka gerði, yrði síðan rætt þar næstu daga og færi síðan sína leið aftur til hv. d. með litlum eða engum breyt., þar sem stjórnarliðið stæði að baki frv.

Því var ekki trúað, að það mundi gerast tvisvar sinnum svona í þinglokin, að stjfrv. væru þannig úr garði gerð, að þau mundu annaðhvort stranda eða sökkva. En hvað skeði? Form. heilbr.- og félmn. boðaði strax til fundar, frv. var lesið og rætt var við höfunda þess. Síðan hefur það legið í salti þar til í gær eða tæpar 3 vikur. Á þeim nefndarfundum, sem frv. var fyrst lagt fram, kom það glöggt fram, að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í n. voru andvígir ýmsum ákvæðum frv., svo sem ákvæðum 1. gr. um kosningu húsnæðismálastjórnar og ákvæðum 3. gr., sem takmörkuðu mjög verkefni stjórnarinnar borið saman við gildandi lög, ákvæðunum um framlag ríkissjóðs, sbr. 4. gr. d-liðar, og síðast en ekki sízt ákvæðum 6. gr. undir tölul. 3, þar sem löggjafinn ætlaði að handsama í einu vetfangi einn fjórða hluta af árlegu ráðstöfunarfé lífeyris- og eftirlaunasjóðanna. Það verður að segjast, að sýnilegt var á þessum fundi, eða réttara sagt auðheyrt, að fulltrúar Sjálfstfl. í n. voru ekki allt of hrifnir af þessu frv., þessari nýsköpun húsnæðismálanna á Íslandi. Ókyrrð tók að grípa um sig meðal félaga og einstaklinga. Í fyrsta lagi fóru forsvarsmenn lífeyrissjóðanna á stað. Landssamband þeirra boðaði til almenns fulltrúafundar hér í Reykjavík. Þeir sendu frá sér erindi til heilbr.- og félmn. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Hinn 6. apríl s. l. lagði ríkisstj. fyrir Alþ. frv. til 1. um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Frv. gerir ráð fyrir mörgum verulegum efnisbreytingum miðað við gildandi lög. M. a. í 6. gr. frv. er gert ráð fyrir, að lífeyrissjóðum og eftirlaunasjóðum verði skylt að kaupa skuldabréf skv. 5. gr. fyrir sem svarar fjórðungi árlegs ráðstöfunarfjár þeirra. Landssambandi lífeyrissjóða hefur ekki gefizt kostur á að kynna sér efni frv. og láta í ljós skoðanir sínar á þeim atriðum frv., sem varða lífeyrissjóðina. En tilgangur sambandsins er m. a. sá að gæta hagsmuna sjóðanna á sviði löggjafar og vinna að því, að ríkisvaldið taki réttmætt tillit til starfsemi og þarfa þeirra. Fyrrgreind ákvæði frv. marka nýja grundvallarstefnu í afskiptum hins opinbera af málefnum lífeyrissjóðanna, sem veldur mjög tilfinnanlegri skerðingu á ráðstöfunarrétti lífeyrissjóðanna á fjármagni þeirra. Landssambandið telur þá stefnu, sem hér hefur verið tekin, alranga og sér engin rök, er réttlæti svo víðtæka skerðingu á ráðstöfunarrétti sjóðanna á fé þeirra. Landssamband lífeyrissjóðanna skorar því á heilbr.- og félmn. Nd., að hún flytji brtt. við frv. þess efnis, að 3. tölul. 6. gr. falli niður. Landssambandið vill benda á eftirfarandi rök, sem mæla gegn því, að ráðstöfunarréttur lífeyrissjóðanna á fjármagni þeirra verði skertur:

1. Fé hvers lífeyrissjóðs er eign sjóðfélaga hans, og réttur þeirra til þess að ráðstafa því ætti að vera ótvíræður. Ef ráðstöfunarrétturinn er tekinn af sjóðunum að hluta, mun það þýða, að aðilar, sem standa utan lífeyrissjóða, munu fá aukna lánsmöguleika á kostnað sjóðfélaganna. Verðbólguþróun undanfarinna ára hefur mjög rýrt verðgildi lífeyrisréttinda sjóðfélaganna. Á móti þeirri rýrnun vegur nokkuð, að sjóðfélagar hafa átt þess kost að fjárfesta í húseignum. Verður að telja, að sjóðfélagar eigi að hafa forgangsrétt til þess hags, sem lántakendur njóta á verðbólgutímum.

2. Útlán lífeyrissjóða hafa að langmestu leyti verið notuð til að fjármagna íbúðabyggingar og íbúðakaup. Því er ljóst, að aukið fjármagn til húsnæðismála fæst ekki með því að skylda sjóðina til að láta af hendi við Húsnæðismálastofnun ríkisins ráðstöfunarrétt á hluta af eignum þeirra.

3. Þegar lífeyrissjóður bænda verður stofnaður, munu nær allir starfandi menn á landinu eiga kost aðildar að lífeyrissjóði, annaðhvort með skylduaðild eða með frjálsri aðild, og aðstaða manna til lántöku hjá lífeyrissjóði verður því svipuð eftir nokkurn tíma.“

Og í niðurlagi þessa bréfs nr. 4 segja þeir: „Lánasjónarmiðið er svo ríkt í huga margra sjóðfélaga, að þeir mundu telja ástæðuna til þátttöku í lífeyrissjóði brottfallna, ef lánveitingarnar til sjóðfélaga yrðu skertar. Slíkt gæti valdið sjóðum, sem myndaðir eru með frjálsri þátttöku að öllu eða verulegu leyti, talsverðum erfiðleikum og dregið úr áhuga þeirra, sem ekki eru í lífeyrissjóði.“

Ég hef nú lesið þessar ábendingar lífeyrissjóðsmanna, og ég verð að segja, að þessar ábendingar og fullyrðingar stangast nokkuð á við staðhæfingar hæstv. félmrh. um stærstu nýju tekjulind byggingarsjóðsins.

Nokkru eftir komu frv. til heilbr.- og félmn. fór aðalmálgagn ríkisstj., Morgunblaðið, að rita um frv. Þar segir m. a. á þessa leið, með leyfi forseta:

„Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna á fundi 9. apríl 1970 mótmælir eindregið því ákvæði í nýframkomnu frv. til l. um Húsnæðismálastofnun, að lífeyris- og eftirlaunasjóðum verði með valdboði gert að leggja fram 25% af ráðstöfunarfé sínu. Þetta jafngildir áformi um þjóðnýtingu lífeyrissjóðanna að vissu marki og er gagnstætt grundvallarstefnu Sjálfstfl. og hættulegt fordæmi, sem ungir sjálfstæðismenn geta með engu móti fellt sig við. Stjórnin telur hins vegar sjálfsagt, að leitað verði eftir samvinnu við stjórnir sjóðanna um samverkandi útlánakerfi með húsnæðismálastjórn, sem a. m. k. stefni að því, að lánuð verði 80% af kostnaðarverði allra þeirra íbúða, sem byggðar verða og taldar eru samrýmast skynsamlegum kröfum.“

Í þessu sama blaði segir á öðrum stað:

„Eitt stórmálanna, sem komið hafa fram á Alþingi nú undir þinglok, er frv. til l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins, þar sem gert er ráð fyrir nokkrum skipulagsumbótum í húsnæðismálum og nýrri fjáröflun, einkum með þjóðnýtingu lífeyris- og eftirlaunasjóða landsmanna að 1/4. Það er auðvitað aukaatriði, en Alþýðublaðið hefur belgt sig upp út af þessu máli sem eins konar tímamótaviðburði, enda mun það eiga að vera eitt af sönnunargögnunum um það, að kröfur Alþfl. nái fram að ganga. Vissulega efast enginn um, að Alþfl. hefur axlað ærna ábyrgð í húsnæðismálum að undanförnu og í framhaldi af því haft forustu um samningu þessa nýja frv. Það hefði mátt ætla, að hvorki skorti þekkingu né reynslu að baki frv. Einhverra hluta vegna virðist þó eitthvað hafa brostið í þeim efnum, nema helztu gallar frv. heyri til trúarástæðum, en hvort sem er, kemur það sér jafnilla fyrir byggingariðnaðinn og starfsmenn hans.“

Ég ætla ekki að tefja þennan fund með því að lesa meira upp um þetta efni, en þó er þetta dálítið fróðlegt til samanburðar. Svo mörg voru þau orð, þau voru hvorki hlýleg né bróðurleg á alvörustund til samstarfsflokksins. Hins vegar var fólginn í þeim sannleikur, og boðskapnum um samverkandi útlánakerfi, er stefni að 80% lánum á allar nýjar íbúðir, ber að sjálfsögðu að fagna. Vonandi verða þetta meira en orðin tóm hjá stærsta stjórnmálaflokki landsins, svona rétt fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar.

Eftir þessi blaðaskrif og undirtektir stjórna lífeyrissjóðanna var engin hreyfing á vinnubrögðum í sambandi við málið í n. í nokkrar vikur. Aðspurður vissi form. og varaform. n. lítið eða ekkert um málið. Þyrnirósarsvefn sótti nú frv. heim, en eitt og annað gerðist í málinu utan veggja Alþingis. Stjórn Landssambands lífeyrissjóða var kölluð á fund til viðræðna um andstöðu lífeyrissjóðanna við frv. um húsnæðismálastjórn. Í þeim umr. hefur komið fram m. a. undrun yfir því, að efni frv., er varðar fé lífeyrissjóða, skyldi ekki rætt við samtök lífeyrissjóðanna, áður en frv. var lagt fram á Alþ. En samtök lífeyrissjóðanna töldu sig hafa fyrirheit félmrh. frá 1964 um að bera undir eða ræða við samtök lífeyrissjóðanna fyrirætlanir stjórnarvalda varðandi breytingar á starfsemi sjóðanna. Ég veit ekki nákvæmlega, hvernig þessu var svarað, en hygg þó, að það hafi verið eitthvað á þá leið, að þeir, sem hér héldu um stjórnvölinn, hafi talið sig svo vissa um andstöðu lífeyrissjóðanna við fyrirliggjandi frv., að ekki hefði þótt ástæða til að ræða það við lífeyrissjóðina fyrir fram. Þetta er að mínum dómi og margra annarra skökk stefna. Með þessu var hugsanlegur möguleiki til einhvers samkomulags lamaður, með þeim vinnubrögðum að leggja frv. fyrir Alþ. án umræðna við stjórnirnar. Hið rétta var, að samkomulagsleiðina hefði átt að reyna fyrst, en hið beina valdboð látið bíða um framlag á miklu fé frá lífeyrissjóðum, eins og frv. gerði ráð fyrir. Ég harma það, að svo virðist, að nú sé búið að egna til andstöðu, svo að um vinsamlega samninga við alla lífeyrissjóðina er vart að ræða. Og það er illa farið. Hv. frummælandi hefur upplýst hér og við höfum vitað það í heilbr.- og félmn., að tekizt hafi samkomulag um verðbréfakaup við stjórnir nokkurra lífeyrissjóða, eins og fram hefur komið.

Í sambandi við allt þetta mál, undirbúning og afgreiðslu, er ástæða til að spyrja: Telja hinir raunverulegu höfundar þessa frv., að nýtt fé, sem um munar, komi til húsnæðismálanna með því að afhenda fé lífeyrissjóðanna, sem þeir annars mundu lána beint til sjóðfélaga til húsnæðismála, gegnum Húsnæðismálastofnunina til íbúðabygginga?

Húsnæðismálastjórn sparar sér nú útlánafé með því að skerða lán til þeirra, sem aðgang hafa að lánum í lífeyrissjóðum. Þeirri skerðingu hafa lífeyrissjóðirnir alltaf mótmælt sem óréttlátri og farið fram á við heilbr.- og félmn., að þeirri skerðingu verði hætt. Linað hefur verið á skerðingunni, en aðeins að nokkrum hluta. Nú er gert ráð fyrir að hætta skerðingunni, ef húsnæðismálastjórn fær 25% af ráðstöfunarfé úr lífeyrissjóðum, og það er hægt í framhaldi af því samkomulagi, sem upplýst var hér áðan um. Þá á ekki lengur að skerða lán, sem lífeyrissjóðsþegar fá hjá húsnæðismálastjórn. En segjum nú, að húsnæðismálastjórn spari sér með því að beita skerðingunni 150 millj. kr. á ári. Ég tek dæmi: Segjum að þeirri skerðingu verði hætt, en húsnæðismálastjórn fái af ráðstöfunarfé sjóðanna, — við skulum segja, að það verði sama upphæð, 150 millj. kr. árið 1970. Húsnæðismálastjórn er engu nær. Það er ekkert nýtt blóð. Það eru aðeins aðrir húsbændur, sem úthluta lánunum, en það er ekki um neinar nýjar blóðgjafir um að ræða.

Framtíðaraðstaða er fengin til þess að ganga e. t. v. enn harðar að lífeyrissjóðunum. Það er ekki úr vegi í þessum umr. að spyrja: Hver er höfuðtilgangur lífeyrissjóðanna? Þetta er eiginlega spurning, sem hefur vaknað núna undir umr. þessa máls, og munaði litlu, að hún hefði kafnað undir þeim líka. Höfuðtilgangur lífeyrissjóða er að veita tryggingar, þ. e. elli-, örorku-, maka- og barnalífeyri. Þessar tryggingar hafa rýrnað jafnt og þétt og mjög þétt í óðaverðbólgu síðustu ára. Lífeyrisþegarnir fá nú greiddar mjög verðlitlar krónur fyrir miklu verðmeiri krónur, sem þeir lögðu fram í iðgjöldum sínum áður. Ætlar valdhafinn enn að skerða hag meðlima lífeyrissjóðanna með því að þvinga sjóðina til að binda fé sitt í mörgum langtímaverðbréfum? Og ég vildi gjarnan í sambandi við þessar vangaveltur spyrja um það: Hver eru þau lánakjör, sem um hefur verið samið, hver er vaxtafóturinn, hver er lánstíminn og eru bréfin vísitölutryggð?

Þær 3 vikur, sem frv. hefur verið í n. og sofið þar værum svefni, hafa ýmsar tilgátur verið á lofti um framtíð þess. Spurt var: Sekkur það eins og verðgæzlufrv., eða strandar það? Staðreyndin blasir nú við. Það er á floti, og það strandaði ekki, en fór hins vegar í slipp hjá vinnusamri n., sem hefur betrumbætt það að miklum mun, en engu síður ber að átelja þau vinnubrögð, sem eru viðhöfð við afgreiðslu þessa máls. Frv., sem varðar þýðingarmestu hagsmuna- og velferðarmál almennings, húsnæðismálin, er kastað inn á Alþingi undir þinglokin. Það má ekki minnast á það í 3 vikur vegna ósamkomulags í stjórninni eða vegna efnislegrar málsmeðferðar eða einhvers þess háttar, en fyrirvaralaust skýtur því þó upp á ný á næstsíðasta degi þingsins. Fundir eru boðaðir fyrirvaralítið í n. þeirri, sem á að fjalla um málið, meira að segja á meðan deildarfundir standa yfir á Alþ., til að greiða fyrir framgangi þessa máls, og fulltrúum stjórnarandstöðunnar í heilbr.- og félmn. ekki gefinn neinn tími til að kynna sér hin nýju viðhorf, sem skapazt hafa, eftir að samkomulag hefur tekizt á ný innan stjórnarflokkanna. „Allt í hvelli, undireins“, er kjörorðið núna við þingslitin. Og ég verð að segja, að þetta eru vægast sagt óviðeigandi vinnubrögð, svo að ekki sé meira sagt. Þessum fullyrðingum mínum til stuðnings get ég sagt það, að núna eftir að ég tók til máls í þessu máli, þá var útbýtt í d. till. frá mér og hv. alþm. Hannibal Valdimarssyni og Jónasi Árnasyni (Gripið fram í.) Já, það er komið núna, en ég var byrjaður að tala. Þetta var upp á fjórar síður, og þessar till. koma afgreiðslu þessa máls við. Og fyrir einum tveimur tímum, ef það er þá svo langur tími, var útbýtt brtt. frá heilbr.- og félmn. Að vísu stöndum við að baki þessari till. allir nm., en á þessum skamma tíma er þm. ætlað að kynna sér allar þessar brtt. Það sjá allir réttsýnir menn, að þetta er vart hægt. En þrátt fyrir þessi vinnubrögð við afgreiðslu málsins, sem átt hafa sér stað, hefur frv. þó tekið stakkaskiptum til hins betra, og vísa ég þar til þeirra brtt., sem hafa komið frá heilbr.- og félmn. á þskj 798.

Ég sé ekki ástæðu til að fara að ræða hverja einstöku till. á þessu þskj. Við ræddum það mikið í n., þótt á skömmum tíma væri, og ég vil vekja athygli á því, að það er fyrst og fremst almenningsálitið, sem er búið að gjörbreyta frv. frá því það sá fyrst dagsins ljós og því var fylgt úr hlaði hér 9. apríl. Það er ekki nokkur vafi á því. Það er hinn þungi straumur frá forustumönnum lífeyrissjóðanna, sem hefur haft hér áhrif.

Ég vil þá með nokkrum orðum minnast hér á brtt. á þskj. 819. Það er brtt. við frv. til l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins frá Jóni Kjartanssyni, Hannibal Valdimarssyni og Jónasi Arnasyni. Þar leggjum við til, að við 3. gr. bætist ný málsgr., sem orðist svo — þar sem ég tel, að þm. hafi varla lesið þetta, þá vil ég leyfa mér að lesa það upp, — með leyfi hæstv. forseta:

„Við 3. gr. bætist ný málsgr., sem orðist svo: „Húsnæðismálastjórn er heimilt að láta undirbúa byggingu íbúðarhúsahverfa í kaupstöðum með því að láta gera skipulagsuppdrætti af þeim í samráði við skipulagsnefnd ríkisins. Þegar slíkir skipulagsuppdrættir hafa verið samþykktir af skipulagsnefnd og félmrh., er viðkomandi bæjarfélagi skylt að heimila byggingar þar og láta af hendi eða útvega landssvæði fyrir þær, ef með þarf með eignarnámi, og fer um eignarnám samkv. l. nr. 61 frá 1917. Sömuleiðis er viðkomandi bæjarfélagi skylt að leggja nauðsynlega vegi og leiðslur um slík hverfi innan hæfilegs tíma að mati húsnæðismálastjórnar og félmrh.“

Þetta ákvæði var í gömlu lögunum, og við, sem stöndum að flutningi þessarar brtt., sjáum enga ástæðu til að láta það falla niður. Það er ekki þar með sagt, að það verði á næsta leiti, sem húsnæðismálastjórnin þarf að grípa til þessarar lagagr., en hins vegar teljum við, að það skemmi ekki lögin, nema síður sé.

Við b-lið 4. gr. höfum við leyft okkur að flytja till., sem hljóðar svo: „Framlag úr ríkissjóði að fjárhæð 125 millj. kr., nema hærri upphæð sé ákveðin á fjárl.“ Hér er þetta framlag hækkað um 50 millj. kr., og teljum við það ekkert óeðlilegt, að á næstu fjárl. verði tillag til húsnæðismálaframkvæmda hækkað sem nemur þessari upphæð.

Við 5. gr. er brtt. Gr. orðist svo:

„Veðlánakerfi til aðstoðar við byggingu íbúðarhúsnæðis skal starfrækt undir stjórn húsnæðismálastjórnar. Byggingarsjóður skal gefa út og selja skuldabréf til 35 ára. Kaupendur slíkra bréfa skulu hafa rétt til að draga andvirði þeirra frá skattskyldum tekjum það ár, sem þeir kaupa bréfin af byggingarsjóði. Þó skulu ekki frádráttarbær meiri bréfakaup ár hvert en sem nemur 100 þús. hjá einstaklingum og 300 þús. hjá fyrirtækjum. Bankavaxtabréf þessi skulu vera ríkistryggð og 1/35 hluti hvers lánaflokks, árssala, dregin út ár hvert. Vísitöluuppbót skal greidd á bréf þessi við útdrátt á sama hátt og af lánum byggingarsjóðs. Bankavaxtabréf þessi skulu skráð á nafn, og hver lánaflokkur má eigi nema hærri fjárhæð en 300 millj. kr. Bankavaxtabréfin skal byggingarsjóður hafa til sölu í öllum bönkum og bankaútibúum, svo og þeim sparisjóðum, sem húsnæðismálastjórn ákveður. Húsnæðismálastjórn og veðdeild Landsbankans skulu ákveða gerð bréfanna og fjárhæð hvers lánaflokks. Vextir af bréfum þessum skulu vera 6%. Nánari ákvæði um sölu og útdrátt bréfanna skulu sett með reglugerð.“

Þetta eru nýmæli í lögum. Hér er gert ráð fyrir, að þessi bréf verði tryggð með vísitöluuppbót og þau verði 6% og heimilað verði að draga þau frá skattskyldum tekjum. Það má vera, að menn greini á um það ákvæði, en það er hér sett inn í til þess að örva kaup á þessum bréfum. 5. gr. l. hefur verið algerlega máttlaus. Þar var gert ráð fyrir sölu slíkra bréfa sem þessara, en hér er lagt til að hækka vextina um 2% auk þeirra fríðinda, sem ég minntist á.

4. brtt. er við 8. gr. 3. málsgr. A-liðar orðist svo: „Húsnæðismálastjórn getur enn fremur veitt sveitarstjórnum og Öryrkjabandalagi Íslands lán til byggingar leiguhúsnæðis o. s. frv.“ Þetta var í gömlu lögunum, og við sjáum engin rök, sem mæla með því að þessir liðir verði látnir falla niður.

Þá er í B-lið sömu gr. svo ákveðið: „Húsnæðismálastjórn getur, að fengnu samþykki ráðh., breytt lánsfjárhæð þessari á tveggja ára fresti til samræmis við breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar.“ Við leggjum til, að í staðinn fyrir orðin „á tveggja ára fresti“ komi: árlega. Þessi till. skýrir sig sjálf, og þarf ég ekki að eyða frekari orðum í sambandi við hana.

Þá flytjum við till. um, að C-liður sömu gr. orðist svo: „Ársvextir af lánum þessum skulu vera 6%. Þau skulu vera afborgunarlaus fyrstu 3 árin, en endurgreiðast síðan að fullu á 32 árum með jöfnum ársgreiðslum vaxta og afborgana (annuitet). Hvert lán skal vera tryggt með 1. veðrétti í viðkomandi íbúð.“ Um þetta fékkst ekki samstaða í heilbr.- og félmn., enda er um veigamikla breytingu að ræða. Hér er vísitöluuppbótin á afborgunum og vöxtum felld alveg niður, en vextir hins vegar hækkaðir upp í 6% og lánstíminn lengdur um 10 ár.

Mér finnst og hefur alltaf fundizt, að það væri höfuðgalli á löggjöfinni um Húsnæðismálastofnun ríkisins, að það væri ekki lánað lengur en til 25 ára. Það má alltaf deila um vaxtafótinn, og það má deila um það, hvort vísitalan á að fylgja afborgunum og vöxtum, en ég hélt og held, að hv. alþm. gætu orðið sammála um að tengja lánstímann. Það er verið að byggja hús, sem standa í aldir, rammbyggilegri byggingar en líklega nokkurs staðar í Evrópu. Í Bretlandi þykir Wilson nú ekki góður, hjá sumum a. m. k. En þar held ég að ég fari rétt með, að þar séu veitt lán til 99 ára. Og þó að það sé ekki álíka lánstími í öðrum löndum, þá er víða á Norðurlöndum lengri tími en þessi. Ég vil alveg sérstaklega skora á hæstv. ríkisstj. og hv. alþm. að endurskoða afstöðuna til lánstímans. Og ég spyr, hvort þeir sjái sér ekki fært að þetta verði lengt um 10 ár. Ég hygg, að það væri stærsta hjálpin, sem húsbyggjendum væri veitt á þessu ári.

Við 9. gr., 3. málsl., erum við með brtt., sem orðast svo: „Skal veðdeildin sjá um, að afgreiðsla og innheimta geti farið fram í peningastofnun sem næst lögheimili lántakenda.“ Þetta er ekki stórvægilegt og skiptir kannske ekki miklu máli, hvort verður samþ. eða fellt, en þetta ætti þó að vera lántakendum til hægðarauka.

Við 11. gr., 3. málsgr., er brtt. okkar, a. Fyrir „4%“ komi: 6%. Það er í samræmi við aðrar vaxtabreytingar, sem ég hef minnzt á, og rétt er, að niður falli í sömu málsgr.: „sbr. 5. málsgr. 5. gr.“ Við teljum réttara, að ákveðnara væri kveðið að orði í niðurlagi gr., þar sem stendur: „enn fremur skulu þeir sitja fyrir um lán til íbúðabyggingar frá húsnæðismálastjórn, og mega þau lán vera allt að 25%.“ Við erum með brtt., að í staðinn fyrir orðið „mega“ komi: skulu: „skulu þau lán vera allt að 25%.“

Þá vík ég máli mínu að IV. kafla frv. Það er till., sem við flytjum á þessu þskj. Hún er við 18. gr. Þar komi ný gr., svo hljóðandi:

„Nú hefur sveitarstjórn ekki ákveðið að hefja byggingar samkv. IV. kafla þessara laga innan tveggja ára frá gildistöku laganna, og getur þá byggingarfélag verkamanna, sem starfað hefur samkv. eldri lögum um verkamannabústaði, tekið að sér byggingar samkv. þessum lögum og nýtur þá allra réttinda samkv. IV. kafla laganna, en viðkomandi sveitarfélag greiðir Byggingarsjóði verkamanna gjald samkv. ákvörðun húsnæðismálastjórnar.“

Eins og frv. er úr garði gert, þá getur sveitarstjórn tafið byggingu verkamannabústaða. Ég er persónulega ekki þeirrar skoðunar, að sveitarstjórnir muni gera það, svo fremi að þær vilji ná endurkosningu. En hins vegar er þetta nokkur trygging fyrir verkamenn í sveitarfélögum, að þetta geti ekki komið fyrir. Og ákvæði þessarar gr., eins og þið heyrðuð, sem á hlýdduð, eru á þá lund, að ef sveitarfélag hefst ekkert að í tvö ár eftir gildistöku þessara laga, þá getur stjórn byggingarfélags eftir gömlu lögunum farið af stað, og það er á valdi húsnæðismálastjórnar að ákveða, hvað sveitarstjórnin á að greiða á íbúa.

Við 20. gr. er svo hljóðandi brtt. á nefndu þskj., það er málsgr., sem á að bætast við 20. gr.

„Enn fremur getur sjóðurinn tekið lán til útlánastarfsemi sinnar. Lánin ábyrgist ríkissjóður, en hlutaðeigandi sveitarsjóður stendur í bakábyrgð fyrir þeim lánum, sem hann kann að fá til byggingarframkvæmda í kaupstaðnum eða kauptúninu af lánsfé sjóðsins. Nú er kauptún aðeins hluti úr hreppi, og skal þá tillagi sveitarsjóðs til byggingarsjóðs jafnað niður á þá íbúa kauptúnsins, sem gjaldskyldir eru til sveitarsjóðs, eftir sömu reglum og útsvörum.“

Þetta ákvæði var í lögum um verkamannabústaði, og það hafa sjálfsagt fá ákvæði frekar en þetta hjálpað til að byggja húsnæði í fámennustu þorpum á landinu. Og við flm. teljum, að það væri til mikilla bóta, ef sú brtt. fengist samþ. og tekin inn í þetta frv. um Húsnæðis- málastofnun ríkisins.

Á eftir 26. gr., þ. e. IV. kafla, leggjum við til, að komi nýr kafli, sem verður V. kafli: Um leiguhúsnæði, og orðist svo:

„Nú kýs sveitarfélag að koma sjálft upp íbúð eða íbúðum og leigja lágtekjufólki, sem af eigin rammleik getur ekki eignazt húsnæði, og er þá húsnæðismálastjórn heimilt að leyfa slíkar byggingar og lána til þeirra á sama hátt og til verkamannabústaða. Húsnæðismálastjórn setur reglur um leigukjör slíkra íbúða.“

Það þarf ekki langt mál til að gera grein fyrir því, hvað hér er átt við. Með þessari gr., ef samþ. verður, verður létt undir með sveitarfélögum að koma upp íbúðum til að leigja lágtekjufólki. Og ég er á því, að þessi liður væri til stórbóta í fjöldamörgum kauptúnum og smærri þorpum úti á landi.

Við ákvæði til bráðabirgða leggjum við til, að við 3. tölulið bætist ákvæði til bráðabirgða, svo hljóðandi: „Haldast skulu óbreytt ákvæði laga um framkvæmd byggingaráætlana.“ Í gr. segir svo: „Haldast skulu óbreytt ákvæði laga og reglugerða um framkvæmd byggingaráætlunar í Reykjavík, en heimilt er ríkisstj.“ o. s. frv. Við teljum, að það eigi að halda þessu opnu og það eigi að standa við það, sem hefur verið lofað úti á landi í þessum efnum.

Við 4. tölulið í ákvæðum til bráðabirgða er talað um „35 m. kr.“ Við leggjum til, að þar komi „85 millj. kr.“, og það er í framhaldi af þeirri till. okkar, sem við höfum lagt fram í sambandi við b-lið 4. gr. Á eftir tölulið 4 komi hins vegar nýr töluliður, svo hljóðandi:

„Það fé, sem Byggingarsjóður ríkisins leggur af mörkum til framkvæmdaáætlunar um byggingar í Breiðholti í Reykjavík, ber framkvæmdanefnd byggingaáætlunarinnar að endurgreiða byggingarsjóði eftir þeim reglum, sem ráðh. setur. Ríkisstj. skal, eftir því sem þörf krefur, afla þess fjár, sem framkvæmdanefnd er skylt að endurgreiða. Því fé, sem þannig rennur í Byggingarsjóð ríkisins, ber húsnæðismálastjórn að úthluta eftir reglum hins almenna veðlánakerfis.“

Við flm. teljum fyllstu ástæðu til, að slík till. verði fram borin og að það sé sanngirni, að hún verði samþ. Annað komi eiginlega ekki til greina.

Mér er ljóst, að ég hef eytt alllöngum tíma af dýrmætum fundartíma þessarar hv. d. í það að lesa upp brtt., en ég taldi það alveg óhjákvæmilegt, þar sem þær höfðu ekki einu sinni verið lagðar á borð hv. alþm., þegar ég hóf mál mitt, og taldi ég því litlar líkur á, að hv. alþm. gætu kynnt sér þær á þessum stutta tíma, sem þeir hafa haft til umráða.

Ég er þeirrar skoðunar, eins og ég hef minnzt á áður í máli mínu, að þessar brtt. og fyrst og fremst brtt. allrar heilbr.- og félmn. séu til komnar m. a. vegna aðvörunarorða, sem þeir létu falla, er töluðu við 1. umr. þessa máls hér í hv. d. hinn 9. apríl, og þá ekki síður vegna almenningsálitsins, eins og ég komst að orði áður í ræðu minni. Það átti í upphafi að knýja þetta mál fram í óbreyttu formi. Það átti ekki að láta sjóðsstjórnir lífeyrissjóðanna valsa með fé sitt, eins og einn stjórnarsinninn komst að orði í útvarpinu í gærkvöld eða fyrrakvöld. Það átti ekki að láta þá valsa með sitt eigið fé. Það átti að samþykkja þetta óbreytt. Það var hin almenna og víðtæka andstaða gegn frv. óbreyttu, sem hefur nú bjargað því í höfn í þeim búningi, sem það er. Og það er líka skoðun mín, að þessi almenna, víðtæka andstaða hafi verið það líka, sem réð pennum Morgunblaðsins, en þær ritsmíðar las ég upp í ræðu minni áðan.

Ég vil að lokum segja það, að ég veit, að allar brtt. á þskj. 798 verða samþ. Það er búið að tryggja þingmeirihl. fyrir því, og ég fagna því af heilum hug. En ég vænti einnig, að hv. alþm. sjái sér fært að samþykkja eitthvað af till. okkar þremenninganna, þótt þeir standi kannske ekki að því að samþykkja þær allar.

Herra forseti. Ég hef orðið nokkuð langorður um dagskrárliðinn, og það kemur ekki til af góðu. En segja má, að eftir samþykkt þeirra brtt. heilbr.- og félmn., sem lesnar hafa hér verið og kunngerðar, er frv. allt annað plagg en það var í upphafi. Og ég tel, að það geti batnað enn að mun, ef till. okkar þremenninganna verða einnig samþykktar. Ég vil svo ljúka máli mínu með því að undirstrika það, sem ég minntist á í ræðu minni, að hér er að vísu verið að flaustra af afgreiðslu stórmáls, en þrátt fyrir það vænti ég þess, að afgreiðsla þess og lögin í framkvæmd verði öllum húsbyggjendum til góða og til farsældar.