30.04.1970
Neðri deild: 94. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1195 í B-deild Alþingistíðinda. (1521)

198. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var lagt fyrir þingið, taldi ég litlar líkur til þess, að það fengi afgreiðslu nú fyrir þinglok. Ég var nokkurn veginn viss um það, að annaðhvort mundi þingheimur snúast gegn frv. og fella það ellegar þá að hæstv. ríkisstj. yrði að bíta í það súra epli að fyrirfara þessu afkvæmi sínu sjálf. Ég er líka viss um það, að einmitt þegar hún horfðist jafnvel í augu við þau ókjör að þurfa að gera slíkt, þá vaknaði sterkur vilji hjá stuðningsmönnum stjórnarinnar í heilbr.- og félmn. um að freista þess að ná umfram allt samkomulagi um verulegar breyt. á frv. Það verður að segja, að eftir að gengið var að því verki að lagfæra frv. og bera saman ráð sín um það, hvernig mætti sníða af því allra verstu agnúana, sem gerðu málið í raun og veru algjörlega óaðgengilegt, þá var um ánægjulegt starf að ræða í n. og þokaðist nokkuð í rétta átt, því að samkomulag hefur orðið í heilbr.- og félmn. um að gera tíu, sumar mjög þýðingarmiklar breyt. á frv. En svo fjarri var því, að frv. væri frambærilegt og æskilegt, að það væri afgreitt sem lög, að í viðbót hafa þrír heilbr.- og félmn.-menn talið nauðsynlegt, að gerðar yrðu a. m. k. fimmtán, sumar allvíðtækar og þýðingarmiklar, breyt. á frv. í viðbót. M. ö. o. hafa nm. talið nauðsynlegt að gera á því 10 breyt. og aðrir nm. 15 í viðbót, 25 brtt. við þetta frv., og sýnir það, að það hefði verið full þörf á að umsemja það gersamlega að nýju frá grunni.

Ég skal tímans vegna fara fljótt yfir sögu, aðeins nefna hinar þýðingarmestu breyt., sem n. var sammála um að gera á frv.

Það er fyrst 2. brtt. á þskj. 798. Hún er mjög til bóta. Þar er tekið upp meginefni 3. gr. núgildandi laga, sem hafði verið skotið undan og sett bara í lauslegu yfirliti inn í frv. sjálft.

Í annan stað tel ég, að gerbreyting verði á frv. við þá fyrirferðarlitlu breyt., sem er 4. brtt. hjá n. Það er að fella 3. tölulið 6. gr. niður. Það er lífeyrissjóðaárásin, henni er þar með hnekkt. Það atriði er tekið út úr frv. En það var það atriði, sem vakti hinn sterkasta styr og gný gegn frv. Þetta er meginbreytingin, þótt hún sé nú aðeins ein lína hérna í nál.: 3. töluliður 6. gr. falli niður.

Í þriðja lagi tel ég það til verulegra bóta að hækka upphæðina um 25 millj. kr. í 50 millj. kr., sem heimilt er að verja til kaupa á eldri húsum.

Í fjórða lagi tel ég það nokkuð mikils virði, að svolítil hækkun hefur fengizt á árstekjum, sem verkamönnum er leyfilegt að hafa til þess að halda þó rétti til þess að byggja samkv. ákvæðum kaflans um verkamannabústaði.

Og að síðustu er það, þótt ég sé ekki fyllilega ánægður með það ákvæði, lokaákvæðið í nál. heilbr.- og félmn., að heimilt er að veita tekjulágu fólki í verkalýðsfélögum 75 þús. kr. viðbótarlánin, að vísu ekki nema út þetta ár, samkv. sameiginlegu till., en bráðnauðsynlegt væri, að þetta ákvæði væri í gildi, þangað til lífeyrissjóðir verkalýðsfélaganna gætu tekið að sér það hlutverk að jafna þeirra hlutskipti móts við aðra, sem viðbótarlána geta notið, en það var ætlunin í frv. að fella niður, nú frá ársbyrjun 1970.

Þetta læt ég þá nægja til þess að lýsa þeim meginbreytingum, sem n. öll stendur að. Þær eru í raun og veru, þegar á þær er litið, allar saman þess eðlis, að segja má, að frv. sé orðið nýtt frv., nýtt þingmál, við þessar breyt. einar.

Þá eru það þær 10 brtt., sem við þrír nm. stöndum að. Þar tel ég til bóta 1. till., sem er um það að taka inn í 3. gr. kafla, sem er í gildandi lögum, en átti að fella niður samkv. frv. Það er nokkur hækkun þarna á ríkissjóðsframlaginu, úr 75 millj. kr. í 125 millj. kr., eða um 50 millj. kr. hækkun. Það er önnur brtt. okkar. Þá er það 3. till. um verulega fjáröflun með sölu skuldabréfa með álitlegum kjörum.

Í fjórða lagi er till. okkar um lengingu á lánstíma, það er 4. brtt., hækkun vaxta úr 4% í 6% gegn því að vísitölukvöðin á húsnæðismálalánunum falli niður. Það er sú meginbreyting, sem ég hefði umfram allt viljað óska, að n. hefði öll getað orðið sammála um, og það hefði verið í samræmi við vilyrði, sem hæstv. félmrh. gaf hér við 1. umr. í svarræðu sinni, að hann gæti vel hugsað sér að taka það til endurskoðunar, hvort ekki væri rétt að fella vísitölukvöðina niður. En því miður erum við þannig staddir, að hvorugur þeirra ráðh., sem með þessi mál hafa farið, frá því að málið var lagt fyrir þingið, er á landinu. Þeir eru báðir erlendis og þannig ekki við neinn að tala um þetta. Þeir ráðh., sem heima eru, hafa ekki fengizt til að ganga frá þessu atriði fyrir hönd fjarverandi ráðh. En það væri meginbreyting á lánakjörum til húsnæðismála, ef vísitölukvöðin á lánunum yrði felld niður, og meira að segja einn af stjórnarstuðningsmönnunum lét það í ljós hér áðan, að hann teldi mjög æskilegt að geta orðið við því, þ. e. a. s. það er ánægjulegt að tala um það, en bara ekki að gera það. Það er þó meginatriðið.

Þá er 6. brtt. okkar þremenninganna, sem ég tel að væri mikils virði að koma fram. Hún er um að hækka vexti úr 4% upp í 6% af skyldusparnaðarfé unga fólksins og að ekki skuli aðeins vera heimilt að veita því þessi 25% hærri lán en öðrum, heldur skuli unga fólkið, sem leggur fram skyldusparnaðarfé, fá 25% hærri lán og ekki aðeins vísitölutryggð, heldur einnig með 6% vöxtum í staðinn fyrir, að vextirnir eru nú komnir niður í 4%.

Þá er okkar 7. till. Hún er um það, að byggingarfélög verkamanna verði ekki lögð niður, heldur fái þau að starfa áfram, ef svo skyldi fara, sem ég óttast í ýmsum tilfellum, að fjármálalega naumar sveitarstjórnir svíkist um hlutverk sitt samkv. hinum nýju lögum um að byggja verkamannabústaði, og þá eigi að rísa upp byggingarfélag verkamanna, sem áður starfaði, og taka í taumana og öðlast rétt til þess að knýja byggingu verkamannabústaða fram. Þetta álít ég vera þýðingarmikið atriði, því að ég tel, að það beri mjög að harma, að núv. ríkisstj. skuli ætla sér að leggja byggingarfélög verkamanna niður. Ég hefði ekki vænzt þess, að ráðh. Alþfl. yrðu til þess.

Þá kemur hér næstsíðasta till. okkar um, að sveitarstjórnum skuli heimilt að hefja byggingu leiguhúsnæðis til þess að leigja út tekjulágu fólki. Þetta er algert nýmæli. En ég tel, að þar sem um opinbera aðstoð við byggingar fátæks fólks er að ræða, þá sé rétt að heimila sveitarstjórnunum þetta.

Þá er að síðustu borin hér fram till. um það, að ríkissjóði skuli skylt að endurgreiða það fé, sem búið er að taka af húsnæðismálakerfinu á liðnum árum, sem eru rúmlega 114 millj. kr., og endurgreiða það byggingarlánakerfinu á ný, og það fé ætti þannig að koma til skila, en þetta hefur verið tekið vegna framkvæmdar Breiðholtsbyggingaáætlunarinnar. Það fé átti að útvega með öðrum hætti en húsnæðismálakerfinu, en húsnæðismálakerfið hefur verið látið hlaupa undir bagga þarna, sem því ekki var ætlað, en hæstv. ríkisstj. skuldbatt sig á sínum tíma til þess að gera þetta stóra átak í byggingarmálum á þann hátt, að ekki yrði gengið á fé Byggingarsjóðs ríkisins.

Ég heiti á hv. alþm. að sýna nú þá víðsýni, ekki aðeins að samþykkja þær till., sem n. stendur öll að, — það tel ég víst, að verði gert, — en einnig að veita stuðning hinum sjálfsögðustu og þýðingarmestu till. okkar þremenninganna í heilbr.- og félmn. Læt ég svo máli mínu lokið, því að tíminn er naumur og þm. ætla að skemmta sér í kvöld.