04.05.1970
Efri deild: 91. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1206 í B-deild Alþingistíðinda. (1534)

198. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Sigurður E. Guðmundsson:

Herra forseti, virðulega þd. Það frv. til l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins, er hér liggur nú fyrir til umr., er að mínu viti stórt og mikilvægt spor fram á við í húsnæðismálum íslenzku þjóðarinnar. Vænta má, að á grundvelli þess geti orðið um verulegar framfarir að ræða í húsnæðismálunum með svipuðum hætti og varð árið 1965, en þá voru síðast gerðar stórbreytingar á lögum um stofnunina, þótt annars eðlis væru. Við erum stödd á nokkrum tímamótum í húsnæðismálunum, og því þykir mér tilhlýðilegt að líta yfir farinn veg í lánamálum stofnunarinnar.

Ég skal láta það ógert að eyða tíma yðar í að rekja þær breytingar, sem orðið hafa á hámarkslánum stofnunarinnar til íbúðabygginga þau ár, sem liðin eru frá því að veiting íbúðalána hófst hinn 2. nóv. 1955. Lengi vel var fjármagn í þessu skyni afar takmarkað og lánin lág. En með breytingum þeim, sem gerðar voru á gildandi lögum um stofnunina vorið 1965, stórjókst ráðstöfunarfé hennar, og jafnframt voru sett lagaákvæði, er tryggðu verulega hækkun íbúðalánanna. Á þeim tíma, sem liðinn er síðan, hefur stofnunin í rauninni lyft Grettistaki í lánamálunum og tekizt að áorka miklu meiru en gert var ráð fyrir, að unnt yrði, þegar lögin voru sett.

Eins og áður sagði, hófst veiting íbúðalánanna, er ég nefni svo, hinn 2. nóv. 1955. Nú liggur fyrir yfirlit um starfsemina síðan og allt til ársloka 1969. Samkv. því hafa á tímabilinu 1955 til ársloka 1969 verið veitt 35 398 íbúðalán út á 14 044 íbúðir, samtals að upphæð rúmir 2 milljarðar 649 millj. og 650 þús. kr. Þar af hafa íbúðalánin á tímabilinu 1965–1969, að báðum árunum meðtöldum, numið 1961 millj. 199 þús. kr., eða u. þ. b. 4/5 alls þess fjármagns, sem farið hefur um hið almenna veðlánakerfi þau 14 ár, er það hefur starfað.

Fyrir liggur einnig yfirlit um það, hve íbúðalán hafa verið veitt til margra íbúða í hverju kjördæmi um sig og hver heildarupphæð íbúðalána þar er á umræddu 14 ára tímabili. Það yfirlit er á þessa leið: Íbúðalán hafa verið veitt til 650 íbúða í Vesturlandskjördæmi, samtals að upphæð 105.9 millj. kr. Í Vestfjarðakjördæmi hafa verið veitt íbúðalán til 337 íbúða, samtals að upphæð 54.8 millj. kr. Veitt hafa verið íbúðalán til 278 íbúða í Norðurlandskjördæmi vestra, að upphæð samtals 38.7 millj. kr. Í Norðurlandskjördæmi eystra hafa verið veitt íbúðalán til 1 072 íbúða, samtals að upphæð 197.3 millj. kr. Íbúðalán hafa verið veitt til 531 íbúðar í Austurlandskjördæmi, samtals að upphæð 104.6 millj. kr. Í Suðurlandskjördæmi hafa verið veitt íbúðalán til 1 013 íbúða, samtals að upphæð 166.7 millj. kr. Í Reykjaneskjördæmi hafa verið veitt íbúðalán til 3 479 íbúða, samtals að upphæð 582.8 millj. kr. Og í Reykjavík hafa verið veitt íbúðalán til 6 684 íbúða, samtals að upphæð 1 milljarður 398.9 millj. kr. Fæstar íbúðir hafa notið íbúðalána í Norðurlandskjördæmi vestra, eða 278 talsins, og flestar í Reykjavík, eða 6 684 talsins. Til íbúða í Reykjavík hefur runnið meira en helmingur þess fjármagns, er streymt hefur um hið almenna veðlánakerfi þessi 14 ár.

Herra forseti. Fjármagn, menntun og dugur eru undirstaða þess, sem gjöra skal. Það er vissulega ánægjuefni, að Byggingarsjóður ríkisins skuli hafa verið þess megnugur að leggja, þann grundvallarskerf af mörkum í húsnæðismálum þjóðarinnar, er áðurgreint yfirlit ber með sér, og er þó engan veginn talið allt starf Húsnæðismálastofnunarinnar, hvorki í tæknimálum né lánamálum. En þótt bæði íbúðalánin almennt og ráðstöfunarfé stofnunarinnar hafi aukizt í ríkum mæli og þótt enn sé fyrirhugað að hækka mjög íbúðalánin frá og með næstu áramótum sem og ráðstöfunarféð, er að fleiru að hyggja, og margar aðrar hliðar húsnæðismálanna skipta afar miklu máli. Þess er enginn kostur að gera þeim öllum fullnægjandi skil hér og nú, en ekki get ég látið hjá líða að fjalla lítillega um nokkrar, sem mjög mikilsverðar eru.

Það atriði, er borið hefur einna hæst í umr. um íbúðabyggingar á umliðnum árum, er vafalaust lækkun byggingarkostnaðarins. Það hefur verið talið stórmikið hagsmunamál þjóðarinnar allrar og skal ekki úr því dregið, hve mikla þýðingu það hefði, ef unnt væri að minnka nokkuð eða verulega byggingarkostnaðinn frá því, sem nú er. Það er vitaskuld augljóst, að þótt mikilvægt sé, að íbúðalán veðlánakerfanna tveggja geti verið sem stærstur hluti kostnaðarverðs hverrar íbúðar, þá er engan veginn einhlítt að stefna sífellt í átt til hærri íbúðalána. Það gefur auga leið, að ekki er síður mikilvægt að vinna jafnframt að stöðugri lækkun byggingarkostnaðarins, þannig að hann sé í sem eðlilegustu horfi á hverjum tíma.

Árið 1960 kom hingað til lands sem sérlegur ráðgjafi Robert L. Davison frá tækniaðstoð Sameinuðu þjóðanna. Dvaldist hann hér um 6 mánaða skeið á vegum Húsnæðismálastofnunarinnar við athugun á húsnæðismálum landsmanna. Í lok veru sinnar skilaði hann skýrslu um þessi mál, sem er hin fróðlegasta og hefur enn ákveðið gildi. Telur hann, að ástæðan fyrir háum byggingarkostnaði íbúða hér á landi sé m. a. léleg hönnun íbúða, léleg skipulagning vinnu, skortur á samfelldum verkefnum og stórum byggingarfélögum, fjármagnskortur og hár vaxtakostnaður sem og há opinber gjöld. Hann segir einnig, að ef 5% af því fjármagni, sem varið er til íbúðalána, yrði varið til byggingarrannsókna og tilrauna, mætti spara margfalt þá upphæð í kostnaði við íbúðabyggingar í náinni framtíð. Haraldur Ásgeirsson forstjóri Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins hefur nýlega sagt við mig, að þessi staðfesting hafi enn fullt gildi.

Lækkun byggingarkostnaðarins er ekki einfalt mál. Að lækkun hans verður því að vinna eftir mörgum leiðum, sem eru bæði framkvæmdalegs, fjárhagslegs og tæknilegs eðlis. Í rauninni er þar um að ræða viðleitni okkar allra til þess að fá sem mest af góðu íbúðarhúsnæði fyrir sem minnst fé. Að því verður að stefna á næstu árum, og því vil ég leyfa mér að ræða hér nokkuð þau verkefni, er ég tel einna brýnast að vinna þurfi að.

Fyrst vil ég leggja áherzlu á hina brýnu nauðsyn þess, að sveitarfélögin, einkanlega hin stóru hér á Suðvesturlandi, taki verulegt tillit til lánagetu þeirra tveggja aðalveðlánakerfa, er fjármagna íbúðabyggingar að verulegu leyti, þegar þau skipuleggja þær með veitingu lóða. Því miður er alls ekki um það að ræða, að bæjarfélögin annars vegar og veðlánakerfin hins vegar samræmi að neinu leyti aðgerðir sínar að því er íbúðabyggingar varðar. Þetta skipulagsleysi getur valdið miklum erfiðleikum og hefur raunar gert það. Í því efni er þess raunar skemmst að minnast, er hafnar voru íbúðabyggingar næstum samtímis í tveimur stórum þéttbýlishverfum í Reykjavík, þ. e. a. s. Fossvogi og Breiðholti. Meginþungi þeirra framkvæmda kom á árið 1967 og jafnaðist síðan yfir árin 1968 og 1969. Hið almenna veðlánakerfi Húsnæðismálastofnunarinnar og veðdeildar Landsbankans fékk auðvitað engan veginn ráðið við svo stórt átak, er kom skyndilega og átti að framkvæma á skömmum tíma. Varð þetta m. a. til þess, að íbúðabyggingar í þessum tveimur hverfum hafa vafalaust orðið dýrari en ella, ef lánsféð hefði borizt til þeirra með eðlilegum hætti, og ekki síður hins, að íbúðabyggjendur í þessum hverfum, ekki sízt í Fossvogi, lentu í verulegum erfiðleikum. Ég tel, að það sé eitt meginverkefnið í byggingariðnaðinum á komandi árum að skipuleggja og samræma þetta tvennt: útlán veðlánakerfanna annars vegar og lóðaveitingar bæjarfélaganna hins vegar.

Á þessu máli er líka önnur hlið, en hún er nauðsyn þess, að sveitarfélögin, einkanlega hin stóru hér á Suðvesturlandi, hagi aðgerðum sínum í lóðamálum á þann veg, að þær stuðli að jafnri og samfelldri þróun í íbúðabyggingum. Þessa hafa stærstu bæjarfélögin, er mesta þýðingu hafa í þessum efnum, engan veginn alltaf gætt sem skyldi, og því hafa aðgerðir þeirra í lóðamálunum oft og tíðum fremur aukið á og ýtt undir miklar sveiflur í byggingu íbúða í stað þess að leitast við að jafna þær. En um það eru allir þeir sammála, er við þessi mál fást, að mikilsvert væri og miklu heppilegra og hagkvæmara fyrir alla aðila, ef bygging íbúðarhúsnæðis færi fram jafnt og þétt, árlega, en gengi ekki í bylgjum, eins og verið hefur oft og tíðum.

Ég sagði áðan, að leiðirnar til lækkunar byggingarkostnaðarins væru framkvæmdalegs, fjárhagslegs og tæknilegs eðlis. Sé framkvæmdaleiðin könnuð lítið eitt, kemur í ljós, að meðal mikilvægustu verkefna á því sviði er myndun fárra, en stórra framkvæmdaaðila í stað fjölda lítilla. Enginn vafi er á því, að stórir framkvæmdaaðilar hafa miklu meiri möguleika til að framleiða ódýrt, en jafn gott húsnæði en litlir aðilar. Ýmsar aðstæður þurfa auðvitað að vera fyrir hendi til myndunar slíkra stóraðila, en þær skulu ekki ræddar hér. Mikilvægt atriði er líka það, að bæjarfélögin gefi slíkum aðilum tækifæri til að starfa með sem hagkvæmustum hætti um nokkra hríð á því sem næst sama stað, þegar byggingasvæði eru skipulögð. Þá er nægilegur undirbúningur framkvæmdaaðila á öllum sviðum, áður en byggingar eru hafnar, einnig afar mikilsverður. Þá skiptir miklu máli, að fyrir hendi sé jafnan samstætt og þjálfað starfslið, er geti stundað starf sitt samfleytt, en þurfi ekki að búa við atvinnuskort eða atvinnuleysi af og til.

Sé fjárhagsleiðin til lækkunar byggingarkostnaðar athuguð lítið eitt, kemur í ljós, að mikilsvert væri, ef unnt verður að koma til leiðar samstarfi eða sameiningu veðlánakerfanna tveggja að meira eða minna leyti. Vafalaust er, að þá skapaðist betri fjárhagsgrundvöllur fyrir íbúðabyggingar í landinu. En miklu máli skiptir einnig, að lánsfjármagni veðlánakerfanna sé beinlínis beitt til þess að koma á fót eða treysta í sessi jákvæða og heilbrigða framkvæmdaaðila, er framleiði og selji íbúðir á hóflegu verði. Sú þróun er þegar hafin að nokkru af hálfu Byggingarsjóðs ríkisins, en hún þarf að færast í aukana og styrkjast að mun.

Sé að lokum hin tæknilega leið til lækkunar byggingarkostnaðar könnuð, blasir við nauðsyn þess, að þeir opinberu aðilar, er hafa lækkun byggingarkostnaðar á stefnuskrá sinni, samhæfi krafta sína að hinni tæknilegu lausn þess máls og fái aðstöðu til að koma niðurstöðum sínum á framfæri. Nú er sú viðleitni margskipt og í of litlum tengslum innbyrðis. Hana þarf að samtengja, og jafnframt þarf að tryggja þeirri starfsemi verulegt fjármagn, enda mun það skila sér margfalt aftur, eins og ég hafði í upphafi eftir hr. Davison. En á það verður að leggja áherzlu og það má aldrei gleymast, að lækkun byggingarkostnaðar á og verður að koma hinum almenna borgara til góða, þeim er á að njóta húsnæðisins. Lendi hann í vösum framkvæmdaaðilans, milliliða eða fasteignasala, er allt unnið fyrir gýg.

Áður en ég lýk þessum þætti máls míns, vil ég leyfa mér að fjalla í stuttu máli um nauðsyn þess, að aukinn verði hluti lífeyrissjóðakerfisins í veðlánum til íbúðabygginga í landinu. Þegar núgildandi lög um Húsnæðismálastofnunina voru sett árið 1965 og henni voru fengnir núverandi tekjustofnar, var gert ráð fyrir því, að með þeim mætti veita íbúðalán til 750 íbúða á ári, en lífeyrissjóðakerfið veitti lán til annarra 750 íbúða. Var þá talið, að nýjum íbúðum þyrfti að fjölga um 1500 á ári. Þetta hefur þó farið á annan veg, því að Byggingarsjóður ríkisins hefur á þessum árum eftir sem áður í rauninni veitt íbúðalán til nánast allra þeirra íbúða, sem byggðar hafa verið í landinu, annars staðar en í sveitum, og því hefur hann venjulega veitt lán til 1000–1200 íbúða á ári. Þetta hefur hann getað, vegna þess að tekjustofnar hans hafa dugað miklu betur en ráð var fyrir gert, og þetta varð hann að gera, vegna þess að því varð eigi komið í framkvæmd, að lífeyrissjóðakerfið fjármagnaði með lánum sínum smíði u. þ. b. helmings nýrra íbúða í landinu, eins og fyrirhugað var þó. Vafalaust hefur af þessum orsökum og fleirum safnazt saman talsvert fé hjá lífeyrissjóðunum seinni árin, enda hafa þeir yfirleitt ekki heldur hækkað íbúðalán sín á þessum árum, á sama tíma og Byggingarsjóður ríkisins hefur árlega stórhækkað sín íbúðalán, né heldur hafa þeir veitt ráðstöfunarfé sínu skipulega til fjármögnunar annars iðnaðar eða annarra atvinnugreina í landinu. Því er einnig við að bæta, að ekkert liggur fyrir um það, að hve miklu leyti lán lífeyrissjóðakerfisins á þessum tíma og fyrr hafa runnið beint til nýrra íbúða og að hve miklu leyti til eldri íbúða, fyrir utan það fé, sem sjóðirnir kunna að hafa lánað til annarra framkvæmda. Því verður að treysta, að það fé úr lífeyrissjóðunum, er veitt hefur verið til bygginga nýrra íbúða, hafi beinlínis verið notað við smíði þeirra. Það fjármagn hefur þó áreiðanlega verið miklum mun minna á ári hverju en það fjármagn, er Byggingarsjóður ríkisins hefur veitt til nýrra íbúða. Sjálfsagt hefur líka talsverður hluti þess fjármagns, er lífeyrissjóðirnir hafa veitt með veði í eldri íbúðum, verið notað til kaupa eða viðgerða á þeim, enda mikil nauðsyn á, að fasteignalán séu veitt í því skyni. En vafalaust hafa líka verið mikil brögð að því, að tekin hafa verið veð í eldri íbúðum fyrir lífeyrissjóðslánum og lántakendur síðan notað þau til annarra þarfa. Liggur þar vafalaust stórfé. Út af fyrir sig er kannske heldur ekkert við því að segja, menn hafa verið frjálsir að því. En vafalaust fær það ekki heldur staðizt, er fullyrt var af einum hv. alþm. í Nd. við 1. umr. málsins, að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna renni að 9/10 til húsbygginga. Sannleikurinn er sá, að Byggingarsjóður ríkisins hefur undanfarin ár borið hita og þunga dagsins af lánveitingum til nánast allra almennra íbúðabygginga í landinu, að sveitunum undanskildum, jafnt til þeirra einstaklinga, sem eru í lífeyrissjóðunum, og hinna, sem utan þeirra hafa verið. Starf lífeyrissjóðanna á þessu sviði hefur engan veginn verið sambærilegt við lánveitingar Byggingarsjóðs ríkisins, enda voru þeir til annars stofnaðir. Því neitar samt enginn, að lífeyrissjóðirnir hafa auk veðlána til nýbygginga veitt sjóðfélögum sínum umtalsverða aðstoð við kaup á eða til viðgerða á eldri íbúðum. En slíkrar aðstoðar hafa líka margir farið á mis, þ. e. allir þeir, er ekki hafa verið aðilar að sjóðunum.

Ég tel, að það sé afar röng stefna hjá lífeyrissjóðunum að vilja vera einhvers konar ríki í ríkinu, ef svo mætti segja. Stefna þeirra hefur verið sú, að þeir væru aðeins til fyrir sína félagsmenn, en ekki þá, er utan þeirra stæðu. Það er afar eðlilegt, að því er varðar greiðslu lífeyris. En slíkur „prívat-kapítalismi“ eða einkaauðhyggja í notkun ráðstöfunarfjár sjóðanna er ekki góð og gild nú á dögum. Sannarlega komast sjóðirnir ekki hjá því að verja fé sínu almennt til þjóðheilla með því að veita því til uppbyggingar þjóðlífinu, bæði á sviði íbúðabygginga og annars staðar, eftir því sem ákveðið verður og geta þeirra og skuldbindingar leyfa. Þetta hefur lífeyrissjóðunum nú skilizt og þó ekki fyrr en knýja átti þá með lögum eftir margra ára þóf til að taka meiri og sanngjarnari þátt í fjármögnun íbúðabygginga en þeir hafa gert. Augljóst er, að með samkomulaginu við ríkisstj. hafa lífeyrissjóðirnir nú beygt sig fyrir þessari stefnu og hún orðið ofan á, þótt með öðrum hætti hafi orðið um sinn en ráðgert var í upphafi, er frv. var lagt fram. Ber að fagna því.

Herra forseti. Ég vil í lok þessa máls míns víkja að frv. því, er hér liggur fyrir. Mun ég þó ekki hafa mörg orð um það, enda hef ég haft aðstöðu til þess að koma aths. mínum og ábendingum á framfæri á fyrri stigum við afgreiðslu þess. Ég sagði í upphafi, að það væri mikilvægt framfaraspor í húsnæðismálum landsmanna. Það kemur glöggt fram í þeim hluta frv., er fjallar öðru fremur um hin almennu íbúðalán og mál þeim skyld. Má þar minnast á hina nýju hækkun íbúðalána, er tekur gildi um næstu áramót, þá nýju fjáröflun, er bráðabirgðasamkomulag hefur fengizt um, hækkun ríkissjóðsframlagsins og ýmsar og ýmiss konar breytingar, er ég rek ekki, en hafa þó sumar hverjar verulegt gildi.

Hinn kafli frv., er fjallar um verkamannabústaðina, sætir þó enn meiri tíðindum, enda má næstum segja, að með þeim kafla sé verkamannabústaðakerfið endurvakið. Meginbreytingarnar eru í því fólgnar, að byggingarfélög verkamanna eru lögð niður, en í staðinn settar á stofn samkv. nánari ákvæðum stjórnir verkamannabústaða. Sérhvert verkamannabústaðalán er hækkað í 80% af kostnaðarverði hverrar slíkrar íbúðar, og sá hluti þess, sem kemur úr Byggingarsjóði verkamanna, er með mjög viðráðanlegum kjörum. Loks er Byggingarsjóður verkamanna fenginn í hendur veðdeildar Landsbankans og Húsnæðismálastofnunarinnar. Er þar um að ræða mikilvægt samræmingaratriði.

Það er skoðun mín, að með samþykkt þessa frv., ef að lögum verður, hafi ekki aðeins orðið mikilvæg framför í húsnæðismálum þjóðarinnar, heldur hafi Alþfl. einnig tekizt að þoka verulega fram á við félagsstefnu sinni í húsnæðismálunum. Grundvöllur þeirrar stefnu er það viðhorf, að húsnæðismálin séu sameiginleg viðfangsefni borgaranna, er þeim beri að leysa saman, eftir því sem aðstæður leyfa, á sem hagkvæmastan hátt með þeim stjórntækjum og stofnunum, er þeir hafa myndað með sér. Andstæða þessarar stefnu er það viðhorf, að húsnæðismálin séu einstaklingsbundið vandamál hvers og eins, er honum beri að leysa, eftir því sem efni og aðstæður leyfa. Á grundvelli hins fyrra viðhorfs byggist starfsemi á borð við byggingu íbúðarhúsnæðis í verkamannabústöðum á vegum sveitarfélaga og byggingarsamvinnufélaga. Á grundvelli einkaviðhorfsins í húsnæðismálunum byggist það ástand, sem í rauninni er ríkjandi og einkennist af of dýrum íbúðum, sem menn eiga afar erfitt með að eignast og greiða skatta og skyldur af.

Herra forseti. Ég lýk máli mínu með því að láta þá von í ljós, að hið félagslega viðhorf í húsnæðismálunum eigi eftir að ryðja sér enn frekar til rúms, enda tel ég, að það sé hið eina, er eigi rétt á sér fyrir allan þorra manna.