17.03.1970
Efri deild: 57. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (1545)

168. mál, Stofnlánaadeild landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Ég vil byrja mál mitt á því að vekja athygli d. á því, að ákvörðun um efnisatriði þessa frv., sem hér liggur fyrir til 2. umr., var tekin við afgreiðslu á fjárl. á öndverðu þessu þingi, þar sem framlög á fjárl. til nýbýla voru lækkuð, svo sem hér er skýrt frá í frv.

Landbn. hefur haft þetta frv. til meðferðar og leggur á það sérstaka áherzlu, að í raun og veru er hér aðeins verið að lögformlegum hætti að fullgilda þá ákvörðun, sem áður hefur verið tekin um þessi efni, að því er varðar árið 1970. Hins vegar er gert ráð fyrir því í þessu frv., að lækkun framlaga til nýbýla og nýbýlastofnunar verði einnig lækkuð að sama skapi á árinu 1971, og er það gert með sérstöku tilliti til þess, að nú stendur yfir gagnger endurskoðun á lögum um landnám, ræktun og byggingar í sveitum. Það er sérstök stjórnskipuð nefnd, sem hefur verið falið það verkefni, og eðlilegast er að ætla, að ekki muni vera búið að lögfesta þá nýskipan, sem sú n. mun gera till. um, fyrr en að þessum tíma liðnum. Fari hins vegar svo, að störf nefndarinnar gangi betur en maður getur búizt við, þá kemur þetta að sjálfsögðu til endurskoðunar á ný, en meiri hl. n. lítur svo á, að eðlilegast sé að samþykkja frv., eins og það liggur hér fyrir, þegar litið er til þessara atriða, sem ég hef hér bent á.

Eins og fram kemur í nál., hefur n. ekki orðið sammála um afgreiðslu frv. Meiri hl. leggur til, eins og ég áðan sagði, að frv. verði samþ. óbreytt.

Þá vil ég geta þess, að athygli mín var vakin á því, eftir að landbn. hafði fjallað um frv., að niður muni hafa fallið úr fyrirsögn frv. vísun til þeirra laga, sem hér er gert ráð fyrir að breyta, þ. e. að fallið hafði niður úr fyrirsögninni „nr. 75 1962“. Fyrir því að ég gat ekki haft samráð við meðnm. mína, þá leyfði ég mér að flytja þá sérstöku brtt., svo að úr þessu yrði bætt og ekki væri á frv. formgalli, sem annars hefði verið.

Sem sagt, meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ., og ég leyfi mér að mæla með því, að þessi breyting verði gerð á fyrirsögn frv.