17.03.1970
Efri deild: 57. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1218 í B-deild Alþingistíðinda. (1546)

168. mál, Stofnlánaadeild landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Frv. þetta er um að lækka framlög til landbúnaðarins um 15 millj. kr. á þessu og næsta ári til viðbótar þeim 15 millj. kr., sem þessi framlög voru lækkuð um á tveimur s. l. árum. Þarna er því um að ræða 30 millj. kr. lækkun framlaga til landbúnaðarins á 4 árum. Samkv. 27. gr. laga um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum eru ætlaðar 9.5 millj. kr. til þess að undirbúa ræktun á landi því, er Landnám ríkisins hefur til umráða, og til meiri háttar ræktunarframkvæmda. En þessa upphæð á að lækka á ári úr 9.5 millj. niður í 3.5 millj. kr. eða um 6 millj. kr.

Þegar litið er á landbúnaðinn um þessar mundir, virðist þess vera þörf, að hann haldi öllum þeim fjárframlögum, sem hann hefur að undanförnu haft. Túnkalið og grasleysið undanfarin ár hafa valdið miklu tjóni og valdið mörgum bændum miklu fjárhagslegu tjóni: Fyrirtæki Landnáms ríkisins, Fóður og fræ, hefur bjargað mörgum bændum með fóður, þar sem um er að ræða heykögglana, sem þykja mjög gott fóður og þarf að framleiða í stærri stíl og víðar á landinu en verið hefur, þar sem framleiðslan hefur einungis farið fram í Gunnarsholti. Fjöldamargar óskir bænda hafa komið fram á fundum þeirra víðs vegar að af landinu um það, að Landnám ríkisins framleiddi heyköggla í stærri stíl en verið hefur. Verkefni Landnámsins eru mikil og margþætt og er því ástæðulaust að láta Landnámið ekki hafa til umráða það fjármagn, sem því er ætlað lögum samkv. Hér er um það háa upphæð að ræða fyrir Landnámið og ræktunarmálin í landinu, að það er útilokað að samþykkja þetta frv., enda munar ríkissjóð sáralítið um þessa fjármuni samanborið við Landnámið og það Grettistak, sem því er ætlað að lyfta í ræktunar- og fóðuröflunarmálum landsins.

Þá er samkv. þessu frv. lagt til að lækka framlag samkv. 48. gr. stofnlánadeildarlaga um 1½ millj. kr. En samkv. þessari lagagr. hefur Landnámið heimild til að veita þeim, sem byggja íbúðarhús í sveitum, fjárframlag, sem nú er orðið allt of lágt samanborið við byggingarkostnað, eða um 4%, en það var upphaflega 10% af byggingarkostnaði íbúðarhúsa. Þegar það er haft í huga, að það eru lánaðar úr Stofnlánadeild landbúnaðarins aðeins 300 þús. kr. út á íbúðarhús í sveitum, þá er sannarlega þörf á, að hærra framlag frá Landnáminu sé veitt til íbúðarhúsabygginga en verið hefur nú um skeið, því að lán og framlag til íbúðarhúsa í sveitum nemur sem næst 25% eða 1/4 hluta af því, sem kostar að koma húsunum upp. Hér er því verið að ráðast á garðinn, þar sem hann er lægstur. Fjöldinn allur af þeim bændum, sem eiga eftir að byggja yfir sig, eru illa stæðir og veitir því ekki af að fá það fjármagn, sem lög heimila þeim.

Þá vil ég að lokum minna á, eins og hv. frsm. kom raunar inn á, að það er verið að endurskoða þá löggjöf, sem hér um ræðir, og því ekki tímabært af þeim sökum að skerða þau framlög, sem Landnámið hefur yfir að ráða, fyrr en ef sú endurskoðun leiðir það í ljós, að það sé réttmætt. Verkefni Landnáms ríkisins eru margþætt og því auðsætt, að þær fjárveitingar, sem það hefur yfir að ráða, eru sízt of miklar.

Þá vil ég minnast á það atriði, sem hv. frsm. gat um, að það væri búið að taka ákvörðun um þessa lækkun með fjárveitingum til Landnáms ríkisins í fjárl., sem gilda fyrir yfirstandandi ár. En minna vil ég hv. þingheim á það, að í fjárl. stendur, að breyta megi fjárhæðum tekju- og gjaldamegin, ef lög verða staðfest eða afgr. frá Alþ., sem hafa í för með sér tekjur eða gjöld fyrir ríkissjóð, þannig að það er lagaheimild fyrir því, þó að þetta verði ekki tekjustofn hjá ríkinu, og fjárlög standast fyllilega fyrir því.

Ég vænti þess, að hv. alþm. minnist þess, að landbúnaðurinn á í erfiðleikum um þessar mundir, og þeir standi að því, að frv. þetta verði fellt.