24.03.1970
Neðri deild: 66. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1224 í B-deild Alþingistíðinda. (1562)

168. mál, Stofnlánaadeild landbúnaðarins

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara langt út í þessar umr., sem hér hafa farið fram, en ég vil í sambandi við þetta mál geta þess, að ég hef áður látið þá skoðun mína í ljós, að réttara væri að stefna að því, að sameina Landnám ríkisins Búnaðarfélagi Íslands, heldur en að hafa þar tvær greinar, eins og nú er. Þessa skoðun mína hef ég byggt á því, sem ég sagði áðan um frv. um ríkisframkvæmdirnar, að það yrði þá betri nýting á því fjármagni, sem til landbúnaðarins er veitt í gegnum þessar tvær stofnanir. Það fólst hins vegar ekki í minni umsögn, að það ætti að lækka framlagið til Landnámsins, eins og hér er lagt til, þó að mér væri það hins vegar ljóst, að eins og málum þess var komið, þá mundi stefnt að því, og ég hefði talið að við endurskoðun á þessari löggjöf Landnámsins ætti að hafa þetta í huga, hvort ekki reyndist betri nýting á þessu fjármagni með þeim hætti en nú er. Ekki byggi ég þessa skoðun mína á því, að ég sé að vantreysta þeim mönnum, sem að þessum málum vinna, hvorki fyrr né nú, heldur á hinu, að ég hef þá skoðun, að við þurfum að sameina stofnanir í okkar þjóðfélagi, ef okkur á ekki að reynast ókleift að halda uppi eðlilegri þjónustu og eðlilegum framkvæmdum með þeim fjármunum, sem við höfum til umráða. Og svo ekki meira um það.

Það var ein setning í ræðu hv. 4. þm. Vesturl., sem ég held að hafi mistalað sig, þegar hann talaði um það, að með lögum um Stofnlánadeildina 1962 hafi þessum málum verið komið á rekstrarhæfan grundvöll. Ég held, að hv. þm. hafi mistalað sig þarna, því að þeir, sem þekkja sögu þeirra mála, vita það, að á engan hátt hefur verið betur séð fyrir stofnlánum til landbúnaðar síðan 1962 heldur en fyrir þann tíma, nema síður sé, þar sem nú á síðari árum hafa verið settar reglur eins og þær að veita aðeins til einna framkvæmda, en það mátti með sanni segja, að fyrir 1960 var veitt lán til þeirra framkvæmda, sem gerðar höfðu verið. Þess vegna hefur að minni hyggju verið hér um missögn að ræða, eða hv. þm. hefur komizt að orði á annan veg en hann hugsaði.