24.03.1970
Neðri deild: 66. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1225 í B-deild Alþingistíðinda. (1564)

168. mál, Stofnlánaadeild landbúnaðarins

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég sé nú ekki ástæðu til þess að fara út í neitt karp um þetta frv. við þessa umr., þar sem málið á eftir að fá sína athugun í n. En út af þessum umr. vil ég segja það, að síðasti ræðumaður, hv. 5. þm. Norðurl. v., hélt sig þó við efni málsins, en sumir ræðumenn aðrir hafa farið nokkuð langt út fyrir hið beina efni frv. En það er ástæða til þess, eftir þessar umr., að ítreka það, að hér er aðeins um heimild að ræða til þess að lækka fjárveitingar til ákveðinna þátta í starfi Landnámsins. Það er einmitt til stofnunar nýbýla og styrkveiting til íbúðarhúsa á nýbýlum.

Nú er það kunnugt, að lítið hefur verið um stofnun nýbýla hin síðari ár, og ef svo fer, að þörf verður fyrir þetta fé til þessara þátta, þá dettur mér ekki í hug að halda, að ríkisstj. fari að skera það fé niður. Hér er alls ekki um það að ræða að lækka íbúðarhúsastyrkinn, eins og helzt mátti skilja á ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e. Það segir ekkert um það í þessu frv., en hann er óbreyttur og aðeins heimild, ef ekki er þörf á þessu fé, til þess að lækka hinn lögbundna styrk. Það getur komið til mála, að ríkisstj. noti sér þessa heimild. Bæði þessir tveir þættir, sem á er minnzt í þessu frv., svo og önnur þau verksvið, sem kunna að falla undir Landnám ríkisins í framtíðinni, verða mjög til umræðu og athugunar í þeirri nefnd, sem vinnur að endurskoðun laganna, og fjárþörf Landnámsins mun, eftir þeim niðurstöðum, sem sú nefnd kemst að, verða þar með tekin til gagngerrar athugunar og till. þar að lútandi verða væntanlega lagðar fram.