24.03.1970
Neðri deild: 66. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í B-deild Alþingistíðinda. (1565)

168. mál, Stofnlánaadeild landbúnaðarins

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það eru bara örfá orð í tilefni af ummælum hv. síðasta ræðumanns. Ég vil láta það koma alveg skýrt fram, að það, sem fyrir mér vakir, þegar ég er á móti þessu máli nú, eins og ég var áður, er ekki það endilega, að ég telji óhjákvæmilegt og nauðsynlegt að halda áfram í sama farvegi og var um stofnun nýbýla, heldur tel ég eðlilegt að láta starfsemi Landnámsins þróast inn á þær brautir, inn á þau verksvið, sem nauðsynlegt er að sinna hverju sinni. Það, sem ég álít að hefði átt að gera, þegar þörfin fyrir framlög til nýbýlastofnunar minnkaði, var að láta framlögin til Landnámsins haldast, en leyfa starfsemi stofnunarinnar að þróast inn á þau verksvið, sem þá voru orðin meira aðkallandi. Ég vil, að komi alveg skýrt fram hér, að það er þetta, sem fyrir mér vakir. En þetta hefur ekki þótt henta, og hvað sem kann að koma út úr endurskoðun laganna nú, þá hefur verið farið inn á þá óheillabraut að kippa þessum fjármunum út frá Landnáminu. Búið er að gera þetta í eitt ár og nú er farið fram á heimild til þess að gera hið sama næstu tvö árin. Það er þetta, sem ég álít rangt. Það hefði átt að beina starfsemi Landnámsins inn á aðrar leiðir, og það hefur enginn í þessum stuttu umr., sem hér hafa farið fram, vefengt það, að þau verkefni, sem ég nefndi, séu einmitt mjög aðkallandi.