24.03.1970
Neðri deild: 66. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í B-deild Alþingistíðinda. (1566)

168. mál, Stofnlánaadeild landbúnaðarins

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Þar sem ég hef átt sæti í landnámsstjórn um nokkurt skeið, þá vil ég aðeins skjóta því hér inn, að mér hefur einmitt fundizt starfsemin þar vera að breytast með breyttum aðstæðum nú undanfarin ár. Það viðurkenna allir, að óskir um stofnun nýbýla hafa verið færri en þær áður voru, en einmitt á þessu tímabili hefur Landnámið farið inn á aðstoð við að byggja upp íbúðarhús í sveitum og hefur á síðustu árum unnið mikið verk á því sviði. Það þekkja þeir bezt, sem hafa kynnzt því, hvernig aðstæður hafa verið hjá ýmsum þeim, sem hafa notið aðstoðar við íbúðabyggingar.

Þá vil ég benda á það, að einmitt nú á síðustu árum hafa smábýli og garðyrkjubýli, sem hafa mikla þýðingu fyrir byggðina, komið fram í mjög vaxandi mæli og aðstoð við uppbyggingu þeirra orðið vaxandi þáttur í starfsemi Landnámsins. Smábýlin eru ætluð fyrir iðnaðarmenn og ýmsa aðra, sem stunda þjónustustörf til sveita og hafa einhvern búskap með, og hafa því mjög mikla þýðingu. Um garðyrkjubýlin þarf ekki að fjölyrða. Þá hafa ýmis sérstök verkefni komið til greina og verið unnin af Landnáminu, bæði við lausn á vandamálum einstakra byggðarlaga við að reyna að aðstoða við sem hagkvæmasta fóðuröflun. Ætla ég ekki að nefna einstök dæmi um það, en gæti þó minnt á það, að nýlega hefur verið keypt land í einu héraði norðanlands, þar sem menn hafa í huga framkvæmdir, sem ættu að geta stutt búskap á stórum svæðum þar.

Ég tel því, að einmitt það hafi gerzt, sem hv. þm. óskaði, þó að hitt megi vel vera, að enn önnur verkefni hefðu átt að færast inn á svið Landnámsins. Það er aftur á móti mál, sem hlýtur að verða rætt við þá endurskoðun málsins, sem nú stendur yfir.