25.11.1969
Efri deild: 18. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

2. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Björn Fr. Björnsson:

Herra forseti. Ég er fyllilega samdóma hv. frsm. heilbr.– og félmn. um það, sem hann hefur sagt um nauðsyn þess að aðstoða það láglaunafólk innan verkalýðsfélaganna, sem er að kaupa eða hefur keypt íbúðir, sem framkvæmdanefnd byggingaráætlunar í Reykjavík hefur látið reisa. Fjárhagsörðugleikar þessa fólks eru miklir og íbúðirnar eru dýrar. Í sambyggingunum kostar t.d. 90 fermetra íbúð 1 millj. 132 þús. kr. Við þetta bætast svo 3 prómill af brunabótaverði, en brunabótaverð er væntanlega mun hærra, en kaupverðið. Mér er tjáð, að kaupendur þessara íbúða telji, að seljandi, þ.e.a.s. húsnæðismálastofnunin, eigi að greiða þetta gjald og enn fremur, að út af þessu atriði megi kannske búast við, að málsókn verði hafin fyrir dómstólum. Önnur gjöld koma einnig hér til greina, sem kaupendur verða að greiða ásamt með kaupverðinu, t.d. stimpilgjald. Það bætist einnig við og skiptir það þá þúsundum ásamt þinglýsingargjaldinu. Gjöldin, stimpilgjöld og þinglýsingargjöld, af fjögurra herbergja íbúð eru nánast um 26 þús. kr. Þetta er sannarlega allveruleg viðbót við aðrar greiðslur fyrir ómagamargt fólk og það, sem tekjulægst er í þjóðfélaginu, ekki sízt ef atvinnuleysi kemur svo einnig til. Ef þjóðfélagið vill búa að þessu leyti vel í haginn fyrir fátækasta fólkið og það ber þjóðfélaginu að sjálfsögðu skylda til, þá verður eðlilega að haga lánskjörum og kaupverði á íbúðum með þeim hætti, að því verði undir eðlilegum kringumstæðum talið kleift að standa undir kostnaði við íbúðareign. Ef halda á áfram að aðstoða í þessu efni, sem ber að gera og fáir efast um, þá verður að taka upp annað og sérstakt lánakerfi. En hvernig því kerfi skuli hagað, er ég ekki reiðubúinn að gera grein fyrir nú. Það mál þarf gaumgæfilegrar athugunar við eins og svo margt annað í sambandi við húsnæðismálalöggjöfina í heild. Ég vil geta þess í sambandi við þetta mál, að húsnæðismálastjórnin hefur þegar gefið út afsal fyrir flestum, ef ekki öllum umræddum íbúðum. En mér er tjáð, að þessum afsölum hafi alls ekki eða a.m.k. mjög fáum, verið þinglýst enn þá og það er að sjálfsögðu vegna örðugleika fólksins við að greiða tilskilin gjöld. En hvað sem því líður, þá verður að telja eðlilegt, að þær breytingar, sem frv. getur um og eru staðfesting á brbl. frá því í sumar, nái fram að ganga. En eins og ég drap á hér áðan, tel ég það höfuðnauðsyn, að rannsakað verði, hvað sé frekar og fram yfir það, sem í frv. greinir, hægt að gera til þess að létta sem mest og sem haganlegast má verða þessu fátæka fólki og auðvelda því íbúðareign meir en nú er. En það eru fleiri, sem þarf að líta til. Margt af því fólki, sem hefur fengið hin venjulegu húsnæðismálalán að undanförnu, berst einnig í bökkum fjárhagslega. En þá tekur fyrst steininn úr, þegar við bætast veikindi eða atvinnuleysi eða aðrir erfiðleikar. Þess vegna höfum við hv. 1. þm. Vesturl. leyft okkur að flytja brtt. við það frv., sem hér liggur fyrir. Þessi brtt. er á þskj. 113 og er m.a. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt skal veðdeild Landsbanka Íslands að veita lántakanda gjaldfrest í eitt ár, ef hlutaðeigandi hefur orðið fyrir fjárhagslegum áföllum vegna atvinnuleysis eða af öðrum óviðráðanlegum orsökum.“

Okkur þykir eðlilegt, að slík heimild sé til staðar í lögum og ekki ætti það að saka, ef til þessarar heimildar þyrfti sem sjaldnast að grípa. Hv. frsm. vék lítillega að þessari till. og hafði leitað sér umsagnar forstöðumanns veðdeildarinnar. Forstöðumaðurinn átti að hafa sagt, að þetta mundi valda nokkurri örtröð hjá þeim uppi í veðdeildinni og skapa þeim minni vinnufrið heldur en ella og auk þess væru þeir yfirleitt góðir við þetta fólk, sem ætti í erfiðleikum með greiðslur og létu bíða að ganga til aðgerða eins og uppboðssölu. Ég hygg, að ekki sé rétt að veðdeildin krefjist ekki uppboðssölu, þegar um vanefndir á greiðslum er að ræða. En yrði þessi heimild í okkar brtt. samþ., þá mundi fresturinn verða lengri en eitt ár og við teljum það mjög til bóta. Ef meiri ágangur og örtröð verður í veðdeildinni vegna slíkrar heimildar, þá sýnir það bara þörfina fyrir að greiða fyrir þessu fólki. Þess vegna tel ég, að við ættum enn fremur að greiða atkv. okkar þessum brtt. Og ég tel, að veðdeildinni ætti ekki að verða skotaskuld úr því að meta það, hverjir umsækjendur um þennan greiðslufrest ættu að njóta slíkrar heimildar. Og ég þekki frá mínu starfi í héraði í sambandi við húsnæðismálalánin, að hefði slík heimild verið til staðar í lögum, hefði það komið sér mjög vel fyrir lántakandann, sem heimildin á annað borð hefði náð til.

Efni þessarar brtt. okkar lætur ekki mjög mikið yfir sér, en er að dómi okkar flm. mjög sanngjarnt og gæti orðið nokkuð til hagræðis þeim lántakendum, sem við stundarerfiðleika eiga að etja.