30.04.1970
Neðri deild: 95. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (1581)

168. mál, Stofnlánaadeild landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég vildi segja hér, vegna þess að það hefur komið fram í þessum umr., að vitnað hefur verið í grg. með frv. til l. um olíuhreinsunarstöð. Út af fyrir sig finnst mér eðlilegt, að þetta hafi vakið umtal, því þegar ég fór að lesa þessa grg. og fskj., sem er á bls. 29 í þessu frv., þá sá ég strax, að hér hlaut að vera um einhver mistök að ræða, prentvillu eða pennaglöp. Það er sagt hér á bls. 29:

„Því hefur verið spáð (Efnahagsstofnun), að fjöldi bænda muni dragast saman úr 5000 í 3700 árið 1980. Þetta hefði í för með sér, að samtala fólks, er hefur framfæri sitt af landbúnaði, lækkaði úr 30 þús. í 20 þús. manns.“

Þetta er náttúrlega nokkuð, sem getur ekki staðizt, enda kemur það fram í grg. og línuritum, sem þessu fylgja, að þetta er alls ekki spá. Mér fannst ástæða til að tala við forstöðumann Efnahagsstofnunarinnar og spyrja hann að því, hvernig á þessu stæði, þetta hafi ekki sézt áður. Forstöðumaðurinn fletti upp í grg., hann leitaði í sínum skjölum hjá stofnuninni, talaði við starfsmennina og það kannaðist enginn við að hafa unnið þetta á stofnuninni. Það er því alveg öruggt mál, að þessi setning hér og þessar tölur, sem hér er um að ræða, eru rangar. En hins vegar sýnist mér annað á bls. 29 alveg geta staðizt. Það segir hér neðar á bls., að vélakostur muni aukast á þessu tímabili og olíunotkun þar af leiðandi. Það segir enn fremur, að ræktunin muni aukast um 3% á ári, eða úr 107 þús. hekturum 1968 í 148 þús. hektara 1980. Þetta er ekki ósennileg aukning í ræktuninni — alls ekki ósennileg, og vitanlega verður aukning í vélakosti, ef á að nýta allt þetta ræktaða land. Af þessu leiðir það, að það verður aukning í framleiðslunni, en fólkinu, sem á að standa að þessari auknu framleiðslu og auknu ræktun, á að fækka samkv. því, sem segir efst á bls., úr 30 þús. í 20 þús. Það hafa vitanlega allir leyfi til þess að leiðrétta, hvort sem það er pennaglöp eða prentvilla. Og forstöðumaður Efnahagsstofnunarinnar hefur í dag skrifað bréf til hæstv. iðnmrh. og ég hef fengið afrit af þessu bréfi, og með leyfi hæstv. forseta vildi ég lesa þetta bréf. Bréfið er dags. í dag:

„Herra Jóhann Hafstein, iðnmrh., iðnmrn., Reykjavík.

Í grg. með frv. til l. um olíuhreinsunarstöð er vitnað til Efnahagsstofnunarinnar, að vísu óbeint (bls. 29), um áætlaða fækkun bænda úr 5000 í 3700 árið 1980. Hér hlýtur að vera um misskilning eða mistök að ræða af hálfu höfunda grg. Spádómar þessir eru alls ekki frá Efnahagsstofnuninni og kannast enginn starfsmanna hér við þá. Hins vegar er tilvitnuð tala, 3700 bændur, áþekk tölu kvæntra bænda nú, og kynni það að vera skýring þessa misskilnings. Efnahagsstofnunin hefur enn ekki gert neina opinbera spá um fjölda bænda eða atvinnu fólks í öðrum greinum, er gilda skuli umfram aðrar hugsanlegar spár. En í óopinberri spá, sem gerð hefur verið í könnunarskyni vegna menntamálaáætlana, hefur verið gert ráð fyrir, að fjöldi starfandi fólks í landbúnaði muni haldast mjög lítið breyttur allt til ársins 1985. Byggist það jöfnum höndum á tiltölulega örri fjölgun þjóðarinnar og ýmsum möguleikum til aukinnar fjölbreytni í landbúnaði. En nú stendur yfir nánari könnun á þróunarhorfum landbúnaðar á vegum sérstakrar 7 manna nefndar, er landbrh. skipaði. En formaður þessarar n. er forstöðumaður Efnahagsstofnunarinnar, Bjarni Bragi Jónsson.

Það er von Efnahagsstofnunarinnar, að með þessum upplýsingum sé framangreindur misskilningur að fullu leiðréttur.

Virðingarfyllst,

Efnahagsstofnunin,

Bjarni Bragi Jónsson.“

Þá segir hér enn:

„Þá má bæta við, að frá 1965 og frá því að umrædd spá var gerð hefur unnum mannárum í landbúnaði fjölgað úr 9 567 í 10 101 árið 1968, samkv. heimildum um slysatryggðar vinnuvikur.“

Forstöðumönnum í Efnahagsstofnuninni fannst nauðsynlegt að koma þessu á framfæri, og tel ég einnig, að það sé gott fyrir hv. alþm. að fá að vita hér það, sem sannara reynist í þessu efni. Út af fyrir sig var eðlilegt, þegar þetta birtist hér á þskj., að mönnum fyndist það ótrúlegt, og það væri umtalsvert, ef þetta væri virkileg spá. En þetta er ekki spá. Við trúum því áreiðanlega flestir, að landbúnaðurinn haldi áfram að þróast, og við teljum, að það sé þjóðhagsleg nauðsyn, að svo megi verða. Við munum stuðla að því, að mjólkurframleiðslan geti fullnægt innanlandsþörfinni, þótt fólkinu haldi áfram að fjölga. Og við munum stuðla að því, að ræktunin aukist og sauðfjárræktin geti aukizt. Í seinni tíð hefur mikið verið talað um, að það væri gott að hafa ull og gærur til vinnslu, þetta væri verðmæt útflutningsvara, þegar búið væri að vinna úr henni. En ull og gærur fáum við ekki, nema því aðeins að við höfum sauðfé.

Nú er ekki tími til langra ræðuhalda, en mér fannst eðlilegt að koma þessu á framfæri, vegna þess að hér er um misskilning að ræða í opinberu þskj., og ég tel, að forstöðumaður Efnahagsstofnunarinnar hafi borið hér fram þá leiðréttingu, sem ætti að vera fullnægjandi.

Það var gott, að hv. þm. minntist á línuritið. Línuritið er ekki nein spá, heldur er þetta uppdráttur. (Gripið fram í.) Það er sama. Nú veit ég ekki, hvort hv. þm. vilja, að forstöðumaður Efnahagsstofnunarinnar fái að leiðrétta það, sem hann segir að séu mistök, en línuritið byggist á þessum tölum efst á bls. 29, sem forstöðumaður Efnahagsstofnunarinnar segir, að séu rangar. Úr því að forsendurnar, sem línuritið byggist á, eru skakkar, þá hlýtur línuritið einnig að vera skakkt. Mér þykir það fróðlegt, ef einhverjir hv. þm. vilja ekki taka til greina leiðréttingu frá forstöðumanni þeirrar stofnunar, sem vitnað er til.