15.12.1969
Neðri deild: 25. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í B-deild Alþingistíðinda. (1643)

114. mál, Minningarsjóður Jóns Sigurðssonar frá Gautlöndum

Flm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér frv., ásamt þrem öðrum hv. þm., um það að afnema skipulagsskrá Minningarsjóðs Jóns Sigurðssonar frá Gautlöndum. Þetta frv. er flutt að beiðni afkomenda Jóns Sigurðssonar, og verð ég að gera nokkra grein fyrir þessu máli, vegna þess að þetta er dálítið óvenjulegt mál.

Jón Sigurðsson alþm. á Gautlöndum andaðist 26. júlí 1889. Þetta var héraðshöfðingi og merkur alþm. og kom víða við sögu á sínum tíma. Nokkru eftir andlát hans skutu vinir hans og ættingjar saman nokkru fé til þess að gera grafhellu á leiði hans í Skútustaðakirkjugarði með áletrun. Samskot þessi urðu það rífleg, að nokkur fjárhæð gekk af, þegar búið var að kosta legsteininn. Var sá peningur lagður í sjóð fyrst í stað og ekki ráðstafað formlega fyrr en árið 1913–14, en þá voru liðin 25 ár frá andláti Jóns heitins. Strax og sýnt þótti að samskotaféð yrði meira en fyrir legsteininum, tóku sumir gefendur það fram, að þeir ætluðust til að það yrði eigi að síður notað til að heiðra minningu Jóns með einhverju móti, þó að á öðrum vettvangi væri, t. d. í sambandi við alþingisstörf hans eða á alþjóðavettvangi. 1913 varð það svo að ráði, eins og á var drepið, að leggja upphæð þessa inn í Söfnunarsjóð Íslands og mynda með henni sjóð, sem bar nafn Jóns. Jafnframt var samin skipulagsskrá fyrir sjóðinn og stóðu að því séra Árni Jónsson að Skútustöðum og Steinþór Björnsson að Litlu-Strönd. Síðan var fengin staðfesting á þessari skipulagsskrá og er hún birt í Stjórnartíðindum 1913. Í skipulagsskránni segir í 1. gr., að sjóðurinn innleggist í Söfnunarsjóð Íslands fyrir 26. júlí 1914. Þá var þessi upphæð u. þ. b. 1400 kr. Samkvæmt 3. gr. skipulagsskrárinnar áttu 6/10 hlutar vaxta að ganga til að verðlauna beztu ritgerðir, er sjóðsstjórninni bærust, um búnaðarmál, samvinnumál, stjórnmál eða önnur framfaramál á Íslandi. Þessi verðlaun átti að veita eigi sjaldnar en tvisvar á hverjum 10 árum eða fimmta hvert ár. Síðan 1914 eru nú liðin 55 ár, en aðeins einu sinni hefur verið sótt um verðlaun úr sjóðnum og þau þá veitt. Aðeins einu sinni á þessum 55 árum, í staðinn fyrir að það átti að vera a. m. k. 11 sinnum eftir skipulagsskránni.

Í 6. gr. skipulagsskrárinnar segir: „Þegar stundir líða, þó eigi innan 50 ára, má Nd. Alþ. breyta til um verðlaunaveitingar úr sjóðnum, eftir því sem kröfur tímans þá kunna að heimta.“ Nú er þessi hálfa öld liðin og meira en það og kröfur tímans orðnar allt aðrar en 1914. Sjóðurinn er að engu orðinn eða svo til, og hefur hjaðnað niður vegna verðbólgu margra áratuga eða umbreytinga á gildi krónu okkar, sem stofnendur sjóðsins hafa ekki tekið með í reikninginn að orðið gæti. Sjóður þessi er undir sérstakri vernd Alþ. samkvæmt skipulagsskránni, því að forseti Nd. er formaður sjóðsstjórnar og Alþ. kýs auk þess tvo meðstjórnendur.

Frv. þetta er borið fram að ósk afkomenda Jóns Sigurðssonar, sem ekki geta unað því að nafn hans sé tengt jafnvanmátta minningarsjóði og hann er nú orðinn. Sama má sennilega segja um einhverja alþm. Eins og sjá má á undirskriftum á fskj., sem prentað er með frv., er full samstaða um það í hópi ættmenna Jóns, eða réttara sagt afkomenda, að þessar 22–23 þús. kr., sem sjóðurinn nú er, verði notaðar á annan hátt en upphafleg tilætlun var, en þó til að heiðra minningu Jóns. Sjóðsstjórnin er og sama sinnis, eins og sjá má á fskj. II. Þessi ráðstöfun, að afnema skipulagsskrána, er í fullu samræmi við tilgang gefendanna og í samræmi við vilja afkomendanna og stjórnar sjóðsins og að auki í samræmi við heilbrigða skynsemi. Þó stangast hún ofurlítið á við bókstafinn í 6. gr., því þar er gert ráð fyrir, að aldrei megi ganga nær sjóðnum en það, að eftir standi 10% eða 1/10 hluti af vöxtunum til að bætast við höfuðstólinn. M. ö. o. það er ekki gert ráð fyrir því, að sjóðurinn sé afnuminn, en þó er ekki hægt að segja að það sé beinlínis bannað.

Áður en þetta frv. var lagt fram, var leitað álits lögfróðra manna um þetta atriði og skyggnzt um eftir hliðstæðum fordæmum. Niðurstaðan var sú, að þau væru til, þ. e. a. s. hliðstæð fordæmi, m. a. að því er snertir sölu á jörðum, sem gefnar voru fyrr á tímum í ákveðnum tilgangi með skilyrðum, sem gefendur ætluðust til að væru ævarandi. Þar má t. d. nefna sölu svokallaðra kristfjárjarða, sem Alþ. hefur sett lög um oftar en einu sinni, og enn fleiri hliðstæður munu finnast, þó að ég hafi ekki á þessari stundu gögn til að rekja það. Kröfur tímans hafa heimtað það, eins og segir í skipulagsskránni, að hin fornu boð í henni væru á einhvern hátt sniðgengin.

Þó að þetta sé ekki mikið mál að fjármunagildi, hef ég talið rétt að rekja það dálítið, vegna þess hvernig það er vaxið. Fjöldi minningarsjóða er til í okkar landi, sem svipað stendur á um og þennan sjóð. Þeir gleymast og grafast í Söfnunarsjóði eða einhvers staðar og einhvers staðar, hjaðna niður og verða að engu, eða a. m. k. allt öðru en gefendur og stofnendur ætluðust til í öndverðu, vegna þeirra breytinga, sem sífellt verða á mannlegu samfélagi. Ráðstöfun þessa sjóðs á þann hátt, sem frv. leggur til, getur því boðið heim fleiri frv. af svipuðu tagi. Tel ég það ekki illa farið, þó að svo verði, og eðlilegt að líta meira á tilgang þeirra, er að myndun slíkra sjóða stóðu í upphafi, en bókstafinn, sem komizt hefur á pappírana, vegna þess að engum er unnt að sjá fyrir nema lítið eitt af því, sem í framtíðinni gerist.

Herra forseti. Ég óska eftir, að þessu frv. verði vísað til n., og held, að eðlilegast sé, þar sem þetta er þó sjóður, að því verði vísað til fjhn. Annars vil ég skjóta því til hæstv. forseta, sem er formaður sjóðsstjórnar, að ef hann teldi réttara að þetta færi í aðra n., þá er ég til viðræðu um að breyta þessari uppástungu.