02.04.1970
Efri deild: 64. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1247 í B-deild Alþingistíðinda. (1653)

114. mál, Minningarsjóður Jóns Sigurðssonar frá Gautlöndum

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Efni þess frv., sem hér liggur fyrir, er það, að felld verði úr gildi núgildandi skipulagsskrá fyrir Minningarsjóð Jóns Sigurðssonar frá Gautlöndum. Þetta er lítill sjóður, sem verðbólgan hefur í rauninni eyðilagt, eins og margar aðrar slíkar stofnanir, þannig að auðsætt ætti að vera, þar sem sjóðurinn nemur aðeins um 22 þús. kr., að hann getur ekki sinnt því hlutverki, svo að neinu gagni sé, sem honum var ætlað samkv. skipulagsskránni. En afkomendur Jóns frá Gautlöndum hafa nú farið fram á það, að heimild sé fengin frá Alþ. til þess að ráðstafa sjóðnum á þann veg, að honum sé varið til þess að styrkja útgáfu niðjatals Jóns Sigurðssonar frá Gautlöndum.

N. hefur haft þetta frv. til meðferðar, og eins og nál. á þskj. 461 ber með sér, voru allir þeir nm., sem staddir voru á þeim fundi, sem afgreiddi málið, sammála um að mæla með því, að þetta frv. yrði samþ. óbreytt.