04.12.1969
Efri deild: 21. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

2. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera þetta frekar að umtalsefni að sinni, en ég vil bara bæta því við, sem ég gleymdi áðan, að í raun og veru er margt gott við þessar íbúðir. Ég vil gjarnan láta það koma fram líka, að t.d. teikningarnar eru að mörgu leyti vel heppnaðar. Það hefur tekizt að fá mikið út úr þessu rými. En hitt sný ég ekki aftur með, að framkvæmdin hefur tekizt í mörgum tilfellum hrapallega illa. Ég get ekki á mér setið að staðfesta það. Það er ekki fyrirkomulagsatriði, eins og hv. 3. landsk. þm. sagði, að skápahurðirnar lafa, svo það er margra millimetra bil á milli stafs og hurðar. Það hefur ábyggilega ekki verið ætlunin, ég trúi því ekki. Þetta hefur bara tekizt svona. Ég vil svo endilega styðja það, að þdm. séu ekki að hafa mín orð eða Stefáns Valgeirssonar eða einhverra enn annarra manna fyrir því, hvernig ástand Breiðholtsíbúðanna er, heldur kynni sér það af eigin raun. Ég vil svo aðeins segja það, að þó að ég færi þarna í fylgd með Stefáni Valgeirssyni og byggingarmeistara utan úr bæ, þá skemmdum við ekki íbúðirnar. Þær voru svona þegar við komum.