04.12.1969
Efri deild: 21. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

2. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Mér finnst mér nú varla sætt í mínu sæti, þegar rætt er um þá meintu galla, sem taldir eru vera á umræddum Breiðholtsíbúðum og allan þann ljóta dóm, sem kollegar mínir í byggingarstétt fá þar fyrir sín vinnubrögð.

Ég hygg, að ég hafi átt þess tvisvar sinnum kost að ganga í gegnum þessar íbúðir og skoða þær og ég hef áður haft nokkur kynni af byggingariðnaðarvinnu hér á landi og kröfum fólks til íbúðabygginga. Ég tel að þarna hafi að megin hluta verið vel staðið að verki. Það er, eins og kom fram í umr. hér áðan, sjálfsagt hægt að finna galla á hverri einustu íbúð í landinu, ef beinlínis er eftir þeim leitað. Ég hef orð erlendra manna þar um, að hvergi nokkurs staðar séu opinber lán veitt til jafn fullkominna íbúða eins og hér á landi og miða þeir þá við íbúðir í sínu heimalandi. Enn fremur tel ég nauðsynlegt, að það komi hér fram einu sinni enn, að þær tilraunir, sem gerðar hafa verið á Norðurlöndunum á framleiðslu íbúða, hafa leitt í ljós, að þar hefur það tekið frá 4 og upp í 6 ár, að koma byggingarkostnaðinum niður. Þar er bæði þjálfun starfsfólks á háu stigi og öll aðstaða til þessarar vinnu, sem þarf að samlagast fólkinu og byggingariðnaðar málunum og þar hefur það samt tekið þennan tíma. Það er því ekkert að furða, þegar um er að ræða jafn mikla byltingu í byggingaraðferðum og þarna er reynt að viðhafa í fyrsta sinni, að á fyrsta áfanga kunni að koma fram einhverjir gallar. Ekki er nema eðlilegt, að svo sé. Í þessu máli finnst mér aðalatriðið, að menn læri af reynslunni og þá sérstaklega þeir, sem hafa byggt þessar íbúðir og kunni betur til slíkra verka næst. Ég efast þess vegna ekki um, út frá þeirri reynslu, sem ég hef af íslenzkum byggingariðnaði, að þeir muni kynnast þessu starfi þann veg, að þeir verði þess umkomnir að afgreiða íbúðirnar bæði betri og ódýrari, þegar þeir hafa fengið til þess nægan tíma.

Ég lagði á það mikla áherzlu, þegar frv. um þessar framkvæmdir var hér til umr. fyrir tveimur árum, að menn mættu ekki búast við of skjótum árangri eða að byggingarkostnaðurinn lækkaði, svo að nokkru verulegu næmi, fyrr en eftir að hæfilegur þjálfunar– og aðlögunartími að þessum nýju verkefnum hefði fengizt. Ég tel nauðsynlegt, að þetta komi fram, til þess að hér sé ekki verið að tala um málið, eins og það sé einsdæmi í veröldinni, að einhverjir ágallar finnist á slíkum íbúðum.

Ég ítreka það, sem ég hef eftir erlendum mönnum, kunnugum þessum málum, að þeir hafa heldur vítt okkur fyrir það, að við leggjum of mikið í íbúðir yfirleitt og gerum þær of vandaðar, með hliðsjón af því, að næstu kynslóðir muni vilja hafa þær á annan veg og þá sé dýrt að rífa svo vandaðar íbúðir niður, eins og við höfum séð byggðar á undanförnum árum. Það sama á við um Breiðholtsíbúðirnar. Ég hygg, að það, sem þar mætti helzt að finna, væri það, að íbúðirnar væru í stærra lagi, a.m.k. í þessum fyrsta áfanga. Ég held það ætti að reyna í framtíðinni að draga úr stærð þeirra og auka heldur þann fjölda, sem byggður er.