30.10.1969
Neðri deild: 8. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1259 í B-deild Alþingistíðinda. (1695)

43. mál, Fjárfestingarfélag Íslands

Björn Pálsson:

Herra forseti. Frv. þetta lá hér fyrir þinginu í fyrra, en ég tók það ekki mjög alvarlega þá og gerði ekki ráð fyrir, að það yrði samþ. Það er yfirleitt þannig, að frv. ná ekki fram að ganga nema báðir þeir flokkar, sem standa að ríkisstj., fylgi þeim, en í fyrra var það flutt einhliða af sjálfstæðismönnum.

Málið horfir nokkuð öðruvísi við nú. Eftir því sem frsm., hv. 4. þm. Norðurl. v., upplýsti, virðist ríkisstj. vera þessu máli hlynnt, að því er mér skildist, og jafnvel þeir flokkar báðir, sem ríkisstj. styðja. Ekki virðist þó ríkisstj. hafa keppt að því að flytja þetta sem stjórnarfrv., svo að sennilega er hik á einhverjum ráðh. að fylgja málinu, a. m. k. óbreyttu. Um þetta get ég ekkert fullyrt, en mér virðist ýmislegt benda til þess.

Við athugun á þessu frv. finnst mér þetta dálítið einkennilegt frv. Þó að menn stofni hlutafélög, þarf ekki sérstök lög um það, það er öllum aðilum frjálst að stofna hlutafélag. Ef eitthvert ólag er á lögunum um hlutafélög, er eðlilegast að vinna að umbótum á því sviði. Ef útgjöldin eru of þung eða lögin um hlutafélög eru óhagkvæm fyrir rekstur þeirra og stofnun, er það eðlilegast að fá breytingar á því, sem öllum hlutafélögum sé gerlegt að starfa eftir, en ekki að semja sérstaka löggjöf fyrir eitthvert eitt hlutafélag.

Annars á starfsemi þessa hlutafélags að vera dálítið einkennileg. Í fyrsta lagi ætlar þetta hlutafélag að vera frumkvöðull að stofnun, endurskipulagningu og sameiningu atvinnufyrirtækja. Það er e. t. v. ekkert nema gott um það að segja, að atvinnufyrirtæki starfi saman, en þá eiga þau að ráða því sjálf. Ég veit ekki betur en t. d. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Sambandið, Sölusamband ísl. fiskframleiðenda o. fl. séu sjálfstæðir aðilar, sem mynda samtök, af því að þeir álíta, að það sé hagkvæmt. Hitt má svo deila um, hvort þannig einokun, að ákveðinn aðili hafi skilyrðislausan rétt til að selja vissar vörutegundir úr landi, sé að öllu leyti hagkvæm. Mér hafa sagt kunnugir menn, að þeir hafi haft möguleika á að selja betur en þessi fyrirtæki. M. a. sagði mér einn aðili, að hann hefði getað selt skreið suður til Afríku, en hann fékk það ekki, fékk ekki leyfi til þess. Og loksins þegar hann fékk leyfið, var tækifærið liðið hjá. Það má deila um þetta, en að þurfa að stofna sérstakt hlutafélag til að sameina fyrirtæki og endurskipuleggja þau, til þess sé ég enga ástæðu. Það má vel vera, að tímarnir breytist þannig, að það sé hagkvæmara að hafa stór fyrirtæki. Ef reynslan sýnir, að hinar minni einingar séu óhagkvæmar að einhverju leyti, er hægt að gera það eftir frjálsum leiðum og þarf ekki sérstakt hlutafélag til þess að braska í því.

Í öðru lagi, að kaupa, eiga og selja hlutabréf í atvinnufyrirtækjum og skuldabréf þeirra.

Í þriðja lagi, að greiða fyrir útgáfu hlutabréfa og skuldabréfa atvinnufyrirtækja með beinni og óbeinni þátttöku í útboðum og annarri dreifingu á þeim. Ég sé ekki annað en þarna sé komið inn á kauphallarbrask. Það er allt í lagi að stofna kauphöll á Íslandi, ef manni sýnist svo. En að það þurfi að stofna með sérstakri löggjöf hlutafélag til þess að annast þetta, til þess sé ég enga ástæðu.

Í fjórða lagi, að útvega, veita og ábyrgjast lán til atvinnufyrirtækjanna, sem félagið tekur þátt í eða beitir sér fyrir. Útvega peninga, veita lán og ábyrgjast lán innifelst í þessum lið. Ég sé ekki annað en þarna sé verið að fara inn á verksvið Framkvæmdasjóðs og hinna ýmsu lánastofnana, sem til þessa eru stofnaðar. Vera má, að eitthvað þurfi að breyta löggjöf þessara stofnana, og þá er að gera það. Ég sé enga ástæðu til þess að semja lög fyrir eitthvert sérstakt hlutafélag til þess að annast þetta hlutverk, sem er í raun og veru búið að fela allt öðrum stofnunum.

Í fimmta lagi, að taka þátt í rannsóknum á atvinnunýjungum og tilraunum með þær og hafa milligöngu um öflun og sölu á réttindum til hagnýtingar þeirra. Mér finnst þetta dálítið einkennilegt. Ég vissi ekki betur en að 1965 væri saminn hér mikill lagabálkur um Rannsóknaráð ríkisins, og þar eru hinar ýmsu deildir, m. a. sérstök Rannsóknastofnun iðnaðarins, og þar hafa Verzlunarráð og Iðnráð rétt til að tilnefna menn, þar geta þeir komið sínum áhugamálum fram. Ekkert er nema gott um það að segja, ef eitthvert hlutafélag vill annast þessa starfrækslu meira og betur en hinir aðilarnir gera, en þá er eitthvað í ólagi hjá hinni stofnuninni, en vilji eitthvert hlutafélag gera þetta, er ekkert nema gott um það að segja. Það þarf ekki neina sérstaka löggjöf um það.

Í sjötta lagi, að annast tæknilega og viðskiptalega ráðgjafarþjónustu við stofnun og rekstur atvinnufyrirtækja. Þarna sé ég ekki annað en að það sé einnig verið að fara inn á starfssvið annarra aðila, tæknilega og viðskiptalega ráðgjafarþjónustu. Ég held, að atvinnuvegirnir hafi yfirleitt stofnanir, sem þeir geta leitað til í þessum efnum, bændurnir hafa Búnaðarfélagið, sjávarútvegurinn Rannsóknastofnun sjávarútvegsins, svo er Iðnaðarmálastofnunin. Vera má, að þessar stofnanir ræki ekki hlutverk sitt nógu vel, en þá er að vinna að umbótum í því efni. Vilji eitthvert hlutafélag gera meira eða betur, er ekkert nema gott um það að segja, en ég sé enga ástæðu til þess að fara að semja sérstakan lagabálk viðvíkjandi einhverju hlutafélagi og veita því einhver sérstök fríðindi, sem önnur félög hafa ekki.

2. gr. frv. er um heimili félagsins og varnarþing, en það á að vera í Reykjavík. Það þarf ekkert um það að deila.

Svo kemur 3. gr. Forgöngu um stofnun félagsins hafa Verzlunarráð Íslands og Félag ísl. iðnrekenda og þeir aðilar, sem samtök þessi kveðja til. Klippt og skorið; þessir aðilar hafa rétt til að stofna þetta félag og svo þeir, sem þeim þóknast að kveðja sér til aðstoðar.

1. flm. þessa frv. lét að því liggja, að þetta væri samið af Verzlunarráði og Félagi ísl. iðnrekenda. Vera má, að svo sé. En s. l. laugardag var skrifað í Morgunblaðið eða birt ræða, sem Haraldur Sveinsson hélt, formaður Verzlunarráðs, og hann sagði svo, með leyfi hæstv. forseta: „Á aðalfundi 1968 flutti Eyjólfur Konráð Jónsson ritstjóri erindi um framkvæmdafélag eða fjárfestingarfélag. Síðar á þeim sama fundi var samþ. hvatning til þess að koma slíku félagi á fót.“ Svo er áframhald á frásögninni af þessu. Ég held því, að 1. flm. hafi verið of yfirlætislaus, þegar hann var að skýra okkur frá þessu. Ég held, að þessi hv. þm. sé að mestu leyti upphafsmaður að þessu, hvort sem hann hefur persónulega sjálfur samið frv. eða aðrir með honum.

En það virðist koma fram hjá Haraldi Sveinssyni, að Eyjólfur K. Jónsson sé frumkvöðull að þessu máli, og satt að segja finnst mér það ákaflega sennilegt. Ég hef haft mikil og góð kynni af þessum ágæta þm. Ég býst við, að öllum þm. sé það ljóst, að það hefur verið sérstaklega gott samkomulag hjá okkur þm. í Norðurl. v. Það vill nú þannig til, að við erum 4 af sömu ættinni, 3 aðalþm. og einn varaþm., allir af þessari frægu Skeggsstaðaætt. Við erum að vísu nokkuð fjarskyldir. Þessir ættfeður okkar bjuggu á Skeggsstöðum í móðuharðindunum, en þetta er kjarngóð ætt og hefur lengi komið við sögu í Húnaþingi og flestir þm. Húnvetninga af þessu kyni. Ég er elztur af þessum fjórmenningum og hef látið mér sérstaklega annt um þá. Raunar áttu sér stað dálítil vopnaskipti á milli mín og hv. 4. þm. Norðurl. v. við síðustu kosningar, en satt að segja hafði ég ánægju af því. Menn þurfa að hafa syndahafur í öllum kosningum, og ég var orðinn hálfleiður á því að hafa drenginn, Ragnar Arnalds, fyrir syndahafur og var satt að segja feginn að fá þessa sendingu frá Bjarna Ben., og samskipti okkar voru mjög ánægjuleg. Og eins og þið vitið, — því að þið eruð baráttumenn miklir, þó að þið hafið kannske ekki allir verið í eins miklu hættusæti og ég, — fer manni að þykja vænt um þá menn, sem maður á vopnaviðskipti við, bera vissa hlýju til þeirra og láta sér annt um þá. Þannig er með mig gagnvart Eyjólfi Konráð. Mér er mjög vel við manninn og hefur líkað vel við hann síðan þessum kosningaerjum okkar lauk. Hann er röskur og duglegur, en hins vegar virðist mér hann hafa of mikla heigð til að vilja leysa alla erfiðleika með stofnun hlutafélaga.

Það var hér á árunum, þegar talað var um efnahagsörðugleika, þá kom Einar Olgeirsson alltaf með það, að það ætti að kaupa 20–30 togara, þá væru öll vandamálin leyst, og reiknaði þá alltaf með brúttótekjum. En þegar togararnir fóru að bera sig mjög illa, fiskuðu eiginlega ekki nema fyrir þeim erlenda gjaldeyri, sem þeir eyddu, eins og þeir gerðu um tíma, þá hætti Einar að minnast á togarana. Þetta er ofurlítið áþekkt með þennan hv. frænda minn. Hann vill leysa allt með því að stofna hlutafélag.

Satt að segja vil ég ekki halda því fram, að þessi frændi minn sé gætinn eða djúpvitur, en röskur og duglegur er hann, og samkomulag okkar hefur verið ágætt. Hins vegar hef ég ekki jafn takmarkalausa trú á hlutafélögum og þessi venzlamaður minn hefur, og mér virðist, að þeir, sem hafa lagt hlutafé í fyrirtæki hér á landi hafi lítið borið úr býtum, aðrir en þeir sem reka þau og vinna við þau. Vera má, að það liggi að einhverju leyti í því, að fé sé beint eða óbeint dregið út úr þessum hlutafélögum. En þeir, sem hafa verið narraðir til að leggja fé í þau, fá aldrei neitt aftur. Undantekningar eru sjálfsagt frá þessu, einkum innan fjölskyldufyrirtækja. Fjölskyldumeðlimirnir fá vinnu og lifa á einhvern hátt á eða við þessi fyrirtæki betur en ella mundi, en almennt er þetta þó eins og ég gat um áðan. Ég held, að Einar ríki hafi fyrir u. þ. b. 2 árum stofnað einhvers konar almenningshlutafélag. Hann ætlaði að kaupa bát, sem áreiðanlega gæfi geipitekjur árlega. Eitthvað hef ég heyrt lauslega um það, þó ég hafi ekki sönnur á því, að þeir hefðu fengið einhverjar smávegis rentur af þessum peningum fyrsta árið og svo ekki söguna meir, og sennilega sjá þeir aldrei neitt af þessu.

Þessi frændi minn hefur sérstakan áhuga á almenningshlutafélögum. Ég er honum ekki sammála um þetta að öllu leyti, vegna þess að ég held, að þarna sé eingöngu verið að narra fólk til að leggja fram peninga og fá þannig vissan styrk við þessi hlutafélög gegnum almenningsálitið, með því að telja fólki trú um, að það séu þess hagsmunir að þessi hlutafélög geti gengið vel. Ég held, að þarna sé verið að ginna fé út úr fólki. Vera má, að þetta þurfi ekki þannig að vera, en það hefur bara verið svona.

Svo eru stofnuð önnur hlutafélög, sem eru lífsnauðsynleg fyrir fólkið til þess að eignast atvinnutæki. Það var hlutafélag stofnað norður á Hofsósi til að kaupa skip. Ég held, að það hafi verið stofnað á þessu ári. Þá lagði fólkið í byggðinni fram smáupphæðir hver, en það náðist almenn þátttaka, og það var til að geta eignazt atvinnutækin. Fólkið vissi, að það mundi ekki fá framlög sín beinlínis aftur, en það mundi skapa vinnu í byggðarlaginu og það gæti unnið upp á þann hátt meira en sem því fé næmi, sem það lagði beint fram sem hlutafé. Þarna var ekki um neina pretti að tala, fólkið vissi að hverju það gekk, og það áleit, að það hefði hagnað af þessu.

Þegar þessi hv. þm. mælti fyrir þessu frv., lýsti hann því yfir, — að mér skildist, — að þetta ætti að vera gildur liður í að gera okkur að mesta velmegunarþjóðfélagi í heimi, en annars hélt ég, að við værum orðnir það áður, því að ég las það í Morgunblaðinu snemma á s. l. ári, að við værum orðin einhver tekjuhæsta þjóð heims, miðað við einstakling. Síðar tók ég eftir því í búðunum, að húsmæðurnar voru að athuga, hvað ódýrast væri til að borða handa fjölskyldunni, þannig að þetta er víst aumt, þar sem verst er, fyrst það er þannig í mesta velmegunarþjóðfélagi heimsins. Ég hélt, að við værum orðin mikil velmegunarþjóð eftir nýsköpunina, en það vantar víst eitthvað á það, því að þetta frv. á að laga það, sem eftir er.

En viðvíkjandi þessu á Hofsósi, þá vissi fólkið, hvað það var að gera, og það var allt heiðarlegt, en hins vegar gerðist hv. 4. þm. Norðurl. v. þar forgöngumaður og læknirinn á Hofsósi. Þeir réðust í að kaupa nýtt skip, sem er rösk 100 tonn og kostar 181/2 millj. kr., gagnstætt því, sem þeir á Skagaströnd og Sauðárkróki gerðu, — þeir ráðfærðu sig við okkur alla og fengu allt að því helmingi stærra skip fyrir heldur minna verð. Ég álít, að mistökin á Hofsósi hafi legið í því, að þessi hv. þm., sem er duglegur og snar, réðst þarna í að semja um smíði á nýju skipi, en hliðstætt skip var fyrir áramót í fyrra hægt að fá fyrir 12–13 millj. kr., hygg ég. Skip, sem búið er að nota í 2–3 ár, er að ýmsu leyti betra er alveg nýtt skip, því að þar er búið að laga ýmislegt, sem áfátt var. Þarna var ekki viðhöfð nógu mikil gætni að mínu áliti og auk þess bilaði þrennt eða fernt í þessu nýja skipi í fyrstu ferð. Ég kom á Hofsós fyrir nokkrum dögum, þá var það búið að vera marga daga í viðgerð. En þetta kemur oft fyrir á nýjum skipum.

Jæja, þetta er nú aukaatriði. En það er aðalatriðið, þegar ráðizt er í að stofna hlutafélag og yfirleitt í framkvæmdir, að þá þurfa menn að sýna fyllstu gætni og vera ekki að flana að hlutunum undirbúningslaust og án athugunar. Jónas Haralz segir, að það sé ekki nóg að hafa fjármagn. Það verði að hafa þekkingu líka. Og ef fjármagni sé varið án þekkingar, geti það orðið til einskis. Það er ágætt að stofna hlutafélög, en við eigum að hafa ein og sömu lög fyrir alla aðila í þjóðfélaginu, engin sérstök forréttindi fyrir eitt félag, og við eigum að haga þeirri löggjöf þannig, að það sé viðunanlegt að starfa eftir henni.

Ef hv. 4. þm. Norðurl. v. vill vinna að því að lækka útgjöld atvinnuveganna, — það eru t. d. 25 skattar á bátaútveginum, smáir og stórir, mjög margir á iðnaðinum, kannske ekki alveg eins margir, og þannig mætti lengi telja, — ef hv. þm. vildi vinna að þessu, skyldi ekki standa á mér að greiða atkv. með því. Hitt verðum við að gera okkur ljóst, að ef við ætlum að minnka tekjur þær, sem ríkissjóður fær, þá verðum við líka að gera till. um það að lækka útgjöldin, og ég skal gjarnan vera með í hvoru tveggja, ef hv. þm. vill fara inn á þær brautir. Ég hef komið hér með till. ásamt öðrum um að lækka þessi útgjöld og þær hafa ekki fengizt samþykktar.

4. gr. frv. er um það, að hlutaféð skuli eigi vera minna en 80 millj. kr. Einkabönkum og opinberum sjóðum í landinu er heimilt að kaupa og eiga hlutabréf í félaginu, án tillits til gagnstæðra ákvæða laga um þessar stofnanir. Skal stofnunum þessum jafnframt heimilt að vera fullgildir stofnendur að félaginu. Þarna er með þessari stuttu gr. gerbreytt löggjöfinni, sem snertir þessa banka, svo að segja með einu pennastriki. Þetta nær m. a. til Verzlunarbankans, Iðnaðarbankans og Samvinnubankans, það er tekið fram í grg. Nú er það svo, að þessir bankar eiga ekki mikið fé sjálfir. Það eru rúmar 30 millj. kr. hrein eign hjá Iðnaðarbankanum og Verzlunarbankanum, en sparifé þeirra er sameiginlega um 1300 millj., þ. e. það fé, sem einstaklingar hafa trúað bönkunum fyrir. Allt starfsfé þeirra er því eign annarra manna og það er ekki ríkisábyrgð fyrir þessu. Ef þessir bankar fara að braska í einhverri hlutafélagsstofnun, hvort sem er eftir amerískri fyrirmynd eða ekki, — og satt að segja er það nú dálítið einkennilegt, ef Íslendingar ætla að fara að apa eftir fjármálakerfi Bandaríkjanna, 200 þús. manna þjóð, sem á ekkert fjármagn, og þar að auki held ég, að fjárbrask þeirra sé hreint ekki til fyrirmyndar og eigi alls ekki við hér á landi, — ef þessir bankar fara í hlutafjárbrask, án þess að eiga neitt sjálfir, — því vitanlega er engan veginn innheimtanlegt allt, sem þessir bankar hafa þegar lánað, — og festa sitt rekstrarfé í hlutafé, og ef þeir eiga meiri hlutann í þessu hlutafélagi, koma þeir aðilar, sem stjórna þessu hlutafélagi, þegar þá vantar rekstrarfé, og krefjast þess, að þeir aðilar, sem eiga hlutaféð, leggi fram meira fé, ef á liggur. Þannig væru líkur til, að ef meiri hlutinn eða mikill hluti af því sparifé, sem lagt hefur verið inn í þessa banka, sjálfsagt af því fólki, sem vinnur að iðnaði og við verzlun, af velvild til þessara atvinnugreina, — er dreginn inn í svona brask, þá gæti það orðið til þess, að traustið hyrfi hjá þessu fólki. Það er eins og farið hefur með innlánsdeildir í einstaka kaupfélögum. Kaupfélögin hafa orðið að hætta starfrækslu, fleiri en eitt, vegna þess að féð er tekið úr innlánsdeildunum. Þetta getur orðið hættulegt og algerlega óverjandi fyrir þingið, sem er búið að semja löggjöf um þessa banka, ef það allt í einu, bara með einu pennastriki, kippir fótunum undan þeirri tryggingu, sem sparifjáreigendur hafa, að fé þeirra sé ekki dregið inn í ábyrgðarlaust brask. Það er álit mitt, að það sé eigi að öllu leyti hagkvæmt, að pólitískir flokkar ráði yfir bönkum, og að bankarnir á þann hátt dragist of mikið inn í þá pólitísku hringiðu, og væri miklu æskilegra, að bankastjórarnir stæðu algerlega utan við hinar pólitísku erjur: Bankastjórar þurfa að vera óháðir. Þeir þurfa að meta í hverju tilfelli, hvort það er rétt að lána hinum eða þessum aðilanum. Þannig ætti bankastarfsemi okkar að vera, ef vel ætti að vera. Ég er ekki að segja, að þessir menn hafi sýnt mikla hlutdrægni, ég er ekkert að deila á þá með það. En vitanlega vitum við það, að þegar flokksstjórn einhvers flokks er búin að koma einhverjum manni í banka, hefur hann lakari aðstöðu, hann er engan veginn óháður þessum mönnum á eftir.

Ég veit, að Iðnaðarbankinn hefur t.d. hjálpað ýmsum úti á landsbyggðinni um fyrirgreiðslur. Þó er allmikill orðrómur uppi um það, að það séu vissir aðilar þar, sem njóti forréttinda. Sömu sögu er að segja um Verzlunarbankann. Ég hef ekki kunnugleika til þess að fullyrða neitt um þessa hluti, en það gefur eðlilega auga leið, að þeir, sem stjórna þessu fyrirtæki, geta beint eða óbeint haft áhrif á afgreiðslu þessara stofnana, ef þeir vilja. En þetta atriði tel ég alveg stórhættulegt, þ.e. að fara að draga fé þessara stofnana, bæði hlutafjárframlög og rekstrarfé, inn í braskhlutafélag eins og þetta. Það tel ég óverjandi fyrir þingið að leyfa.

Ég sé ekki annað en þessir aðilar, — ef þeir vilja endilega stofna hlutafélag til þess að laga alla hluti, sem aflaga fara hér í þjóðfélaginu, eins og þetta hlutafélag virðist eiga að gera, — geti stofnað sitt hlutafélag, Verzlunarráð Íslands og Félag ísl. iðnrekenda, með þeim einstaklingum, sem þeir kalla til þess. Hv. þm. gæti nú látið eitthvað af ágóðanum af Naustinu renna til þess hlutafélags. Þetta eru geysisterkir aðilar, sumir þeirra eru með mestu fjármálamönnum landsins. Þeir geta gert þetta persónulega, þurfa ekkert á bönkunum eða nýjum lögum að halda. Hvar endar þetta, ef þetta fordæmi er skapað? Getur ekki Samvinnubankinn komið á eftir og óskað eftir sömu löggjöf, fá skattfrelsi og að bankinn mætti kaupa hlutabréf? Þannig gæti hann yfirtekið megnið af rekstri SÍS og fengið skattfrelsi í leiðinni, eins og gert er ráð fyrir í 6. gr. Hvernig á að neita öðrum aðilum, ef einum er leyft? (Gripið fram í.) Samvinnubankinn, já. Hann gæti stofnað hlutafélag, sem heimtaði svo skattfrelsi. Það væri allt annað, ef hér væri verið að fara fram á hlutafélagaskattfrelsi, en ekki að Verzlunarbankinn og Iðnaðarbankinn fái skattfrelsi. (Gripið fram í: Verzlunarbankinn er hlutafélag.) Hlutafélag, já. En hann færi bara að búa til ótal önnur hlutafélög, sem færu að reka allt aðra starfsemi en hann.

Það er bók hér, sem heitir Fjármálatíðindi. Þetta er með beztu ritum, sem við fáum. Það kennir raunar ofurlítillar hlutdrægni í leiðaranum oftast nær, enda er það eðlilegt. Seðlabankinn er undir yfirstjórn ríkisstj. Þetta er að mörgu leyti prýðisbók og áreiðanlegri en margt annað, sem skrifað er. Hér er skrifað svo um bankamál á einum stað og um hlutverk banka: „Hlutverk lánastofnana er fyrst og fremst fólgið í öruggri varðveizlu og ávöxtun fjár fyrir þá, sem þess óska. Leiðin að því marki er fólgin í lánveitingum til þeirra aðila, sem telja sig hafa þörf fyrir lánsfé og geta veitt nægilega tryggingu fyrir endurgreiðslu.“ — Þetta er það, sem sagt er hér í byrjun, um hlutverk lánastofnana. Ég er alveg sammála því, sem sagt er hér í þessu merka riti. En nú virðist mér þarna vera farin allt önnur leið. Hlutverk þessara lánastofnana á að fara að verða að einhverju leyti að stofna hlutafélag með alls konar fyrirgreiðslum, alls konar braskfyrirgreiðslum. Samkv. frv. eiga þessar lánastofnanir að fara inn á allt annað svið en sérfræðingar Seðlabankans telja að sé hlutverk lánastofnana, og ég vil segja hættulegt svið.

Það var hér frv. frá ríkisstj. um það að heimila Framkvæmdasjóði að fara að eiga hlut í hlutafélögum, ef hann neyddist til að taka slíkt upp í skuldir, skildist mér. Ég álít þessa leið ákaflega hættulega. Það getur verið eðlilegt, að banki taki hlutabréf í fyrirtæki upp í skuld eða þá eignist hluta í fyrirtæki, jörð eða öðru slíku, ef hann er neyddur til þess. Í flestum tilfellum reyna bankar að komast hjá því. Þetta er annað starfssvið og satt að segja hafa bankastjórar nóg að gera við að fylgjast með sínum viðskiptamönnum, þó að þeir fari ekki að reka atvinnurekstur eða braska með hlutafé og hlutabréf. Þetta er annað starf og við eigum ekki að blanda því saman nema sem allra minnst og helzt alls ekki neitt.

Síðasta gr. frv., 6. gr., er nú hvorki meira né minna en um það, að Fjárfestingarfélag Íslands, — þetta er ekki óeðlilegt heiti, þetta á að vera hafið yfir allt með sérlögum, þetta virðulega félag, sem Verzlunarráðið, Félag ísl. iðnrekenda og þeir aðilar, sem samtök þessi kveðja til, stofna, og á víst að stjórna að mestu fjárfestingarmálum í þessu landi, — skuli til ársloka 1977 njóta sömu sérréttinda og Landsbanka Íslands eru veitt í 1. mgr. 18. gr. l. nr. 11 29. marz 1961. En þessi lög fela í sér alger skattfríðindi. 18. gr. hljóðar svo: „Bankinn“ — þ.e. Landsbankinn — „er undanþeginn öllum opinberum gjöldum og sköttum, hverju nafni sem nefnast, þ. á m. til ríkis og sveitarsjóða eða annarra stofnana.“ Það er ekkert annað en það. Það má engin gjöld leggja á þetta virðulega félag, sem á að hafa sérréttindi til að ráðskast með fé tveggja banka, og það er ákveðið fyrir fram, hverjir í raun og veru eiga að stjórna því og mega stofna það, og það á að hafa aðgang að fé tveggja banka, því að vitanlega ráða þessir menn, sem eru í Verzlunarráði og Félagi ísl. iðnrekenda, þessum bönkum að miklu leyti.

Trúlegt er, ef þetta verður að lögum, að það komi fleira á eftir, — og hvernig á þá að verja það að banna öllum öðrum að stofna hlutafélög í svipuðu formi? Það er ekki hægt í lýðræðislöndum.

Þessi ágæti frændi minn er duglegur og röskur, en ekki nógu gætinn og djúpvitur.