16.03.1970
Neðri deild: 60. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (1702)

43. mál, Fjárfestingarfélag Íslands

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef gefið út sérstakt nál. á þskj. 417 og legg þar til, að frv. verði fellt.

Eins og hér hefur komið fram, er efni þessa frv. það, að stofnað skuli til sérstaks félagsskapar undir nafninu Fjárfestingarfélag Íslands h.f., og gert er ráð fyrir því, að þetta hlutafélag taki að sér ýmiss konar verk, sem hingað til hafa verið í höndum ýmiss konar opinberra lánasjóða og peningastofnana. Um það er t. d. rætt, að þetta félag skuli útvega, veita og ábyrgjast lán til atvinnufyrirtækja eða þá að kaupa, eiga og selja hlutabréf í atvinnufyrirtækjum.

Við vitum, að það eru starfandi í landinu mjög margir opinberir stofnlánasjóðir, sem ætlaðir eru til þess að fjalla um stofnlánaþörf hinna ýmsu fyrirtækja í landinu. Þannig er starfandi stofnlánasjóður sjávarútvegsins, fiskveiðasjóður, stofnlánadeild landbúnaðarins, stofnlánadeild iðnaðarins, stofnlánasjóður verzlunar, ferðamálasjóður, lánasjóður sveitarfélaga og eflaust eru þessir lánasjóðir miklu fleiri. Auk þessara sjóða eru svo sjóðir, sem hafa enn víðtækara verkefni, en þessir, sem ég nefndi, eru flestir bundnir við það að sinna tilteknum starfsgreinum. Lánasjóðir eins og t. d. atvinnuleysistryggingasjóður og Tryggingastofnun ríkisins veita margvísleg lán, auk þess atvinnujöfnunarsjóður, fiskimálasjóður, veðdeild Landsbankans og vátryggingafélögin í landinu, og eflaust eru ýmsir fleiri sjóðir, sem ég hef ekki talið upp hér.

Ég tel, að að því leyti til, sem ekki þykir nægilega vel séð fyrir stofnlánamöguleikum hinna einstöku fyrirtækja, sem á fót eru sett, þá beri að snúa sér að því að efla þessa stofnlánasjóði, sem starfandi eru og ættu í rauninni að hafa bezta aðstöðu til þess hver á sínu sviði að fylgjast með sínum málefnum og þjóna sínu hlutverki. — Hitt tel ég heldur hæpið, að koma upp sérstöku hlutafélagi á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., sem taki að sér að meira eða minna leyti sömu verkefni og hinir stofnlánasjóðirnir hafa. Mér finnst líka, að það komi engan veginn nægilega ljóst fram, hvernig þeir, sem að þessu máli standa, hafa hugsað sér skilin á milli starfsemi þessarar nýju stofnunar og hinna lánasjóðanna. Það er þó gert ráð fyrir því í frv., að opinberir sjóðir geti, ef þeir hafa fengið samþykki ráðh. til, — þ. e. samkv. brtt., sem liggur fyrir frá meiri hl. nú, — lagt fram fé til þessa Fjárfestingarfélags, og þá verður maður að álíta, að í a. m. k. öllum slíkum tilfellum sé við því að búast, að þessir almennu stofnlánasjóðir fari að víkja sér undan því að sinna einstökum lánabeiðnum, sem til þeirra koma, þegar þeir eru búnir að veita þessu sérstaka hlutafélagi tilteknar lánasummur til þess að standa undir hliðstæðum lánveitingum og stofnlánasjóðnum hafði sjálfum verið falið að annast. Ég óttast það, að í ýmsum tilfellum yrði það svo, að opinberir lánasjóðir kipptu mjög að sér hendinni, vísuðu á þetta Fjárfestingarfélag og bentu á það, að þeir hefðu þegar lagt í það nokkurt fé og væri því ekki óeðlilegt, að það sinnti þessum verkefnum, og þá tel ég verr farið en heima setið fyrir þá, sem þurfa að leita að nýjum stofnlánum. Nú eiga þeir þó í flestum tilfellum ákveðinn rétt hjá þeim opinberu stofnlánasjóðum, sem starfandi eru.

Þá tel ég einnig vera mjög vafasamt að fara inn á þá braut, að opinberir sjóðir gerist á þennan hátt aðilar að almennu hlutafélagi, því að á þann hátt er í rauninni verið að breyta eðli hinna opinberu stofnlánasjóða. Þeim hefur verið ætlað það hlutverk að lána eftir þar til settum reglum til allra þeirra í landinu, sem lánshæfir eru á annað borð, en á þennan hátt er verið að leyfa prívatfélagi afskipti af lánveitingastarfsemi hins opinbera.

Ég tel einnig, að það sé mjög vafasamt að stefna að því, að félag af þessari gerð, eins og Fjárfestingarfélag Íslands h. f. er hugsað, fái aðstöðu til að hafa hér meira eða minna eftirlit og afskipti af málum einstakra fyrirtækja í landinu, en það gefur vitanlega auga leið, þegar um það er að ræða, að þetta félag fari að ábyrgjast skuldbindingar fyrir einstök félög, að þá hefur það auðvitað um leið réttindi til þess að fylgjast nákvæmlega með rekstri þeirra. Ég tel, að allt öðru máli gegni um opinbera sjóði, bæði hina opinberu banka og eins opinbera stofnlánasjóði. Þeir starfa hér á nokkuð öðrum grundvelli, en þetta félag getur verið að meira eða minna leyti aðili í atvinnurekstrinum, því að þessu félagi er heimilt að eiga hlutabréf í einstökum hlutafélögum.

Mér sýnist því, að ekki sé brýn þörf á því að setja lög um stofnun slíks fjárfestingarfélags sem þetta frv. fjallar um. Ég held, að það sé í rauninni ekkert, sem kallar á það. En talsverðar hættur mundu fylgja því, að svona félagi yrði komið upp, a. m. k. ef starfsemi hinna opinberu sjóða yrði sveigð undir starfsemi þess að meira eða minna leyti.

Afstaða mín til þessa frv. er því sú, að það sé ekki þörf á því að samþ. það, og ég legg því til, að það verði fellt.