16.03.1970
Neðri deild: 60. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í B-deild Alþingistíðinda. (1709)

43. mál, Fjárfestingarfélag Íslands

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Í sambandi við þetta frv. á þskj. 43, sem flutt er af hv. 5. þm. Vesturl. og hv. varaþm. Eyjólfi K. Jónssyni, verð ég að geta þess, að ég hef verið að reyna að gera mér grein fyrir þessu frv. og hver væri megintilgangurinn með því. Eftir því sem ég hef virt frv. betur fyrir mér og reynt að átta mig betur á því, hef ég fjarlægzt það. Ég sé ekki, að tilgangur þessa frv. sé annar en sá að fara inn á verksvið annarra stofnana, sem eru til staðar.

Megintilgangur frv. er talinn hér upp í nokkrum liðum, og ég held, að það þurfi ekki að leita lengi til að finna stofnun, sem sinnir þessu verkefni. Ég hef áður tekið það fram hér á hv. Alþ., að ég tel, að vandkvæðin í þjóðfélagi okkar byggist fyrst og fremst á því, hvað kerfið er orðið margbreytt, stofnanirnar orðnar of margar í sömu verkefnunum, en það er dýrt og það getur á vissan hátt leitt til spillingar. Það er mín persónulega skoðun, að þá spillingu eða þær veilur, sem e. t. v. kunna að finnast í bankakerfinu í landinu og að einhverju leyti munu vera til staðar, megi rekja fyrst og fremst til þess, hvað bankarnir eru margir. Það eru slagsmálin um fjármagnið, sem er mjög takmarkað í okkar landi, sem hafa skapað nokkuð margar þær veilur, sem í bankakerfi okkar eru. Ástæðan fyrir því er sú, að einmitt ásælnin eða sóknin í að ná í spariféð hefur leitt til lána, sem kannske hafa verið miður heppileg. Og ég held, að ef á að fara að fjölga slíkum stofnunum, eins og lagt er til með þessu frv., þá sé verið að fara inn á þá braut, sem við ættum ekki að fara inn á, og verið að fjarlægjast þá, sem við ættum að fara.

Það, sem skortir í fjárfestingu okkar í landinu, er fyrst og fremst fjármagn, og hagkvæmara fjármagn en við höfum nú. Það hefur verið deila um það hér á hv. Alþ. á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, hæstv. ríkisstj. og stjórnarandstæðinga, að við stjórnarandstæðingar hefðum talið, að fjárfestingarstarfsemin í landinu eða fjárfestingarlánin væru ekki nógu hagkvæm fyrir atvinnurekstur okkar. Þetta leiddi svo til þess, að það væri einn þátturinn í verðbólgunni, vegna þess að ef atvinnuvegirnir yrðu með því að greiða hærri vexti og greiða lánin upp á styttri tíma, yrðu þeir að sækja fjármagnið til þjóðarinnar aftur með meiri hraða og hærri álögum. Þessu tel ég, að við þurfum að gera okkur grein fyrir, og það frv., sem hér er á ferðinni, bætir ekkert úr í þessu efni, nema síður sé. Leiðin til þess að ná því marki er ekki að fjölga fjárfestingarstofnunum í landinu, heldur að gera þær hagkvæmari og jafnvel að fækka þeim. Ég tel, að við gætum hagnýtt betur það fjármagn, sem við höfum til fjárfestingar, ef við fækkuðum stofnunum og samræmdum nýtingu fjárins.

Þetta frv. gengur alveg í öfuga átt við það, sem er mín skoðun um þá hluti, og af þeirri ástæðu get ég ekki fylgt því, t. d. ekki því ákvæði frv., að opinberir sjóðir og bankar megi gerast aðilar að þessu félagi. Það mun ekki verða til þess að auðvelda fjárfestinguna í landinu almennt.

Ég ætla mér ekki að fara að ræða um þetta frv. í löngu máli, heldur vildi gera grein fyrir þeirri afstöðu, sem ég tek til málsins við atkvgr. um það, og vil endurtaka það, að það, sem skortir til að byggja fjárfestingu á í landi okkar, eru ekki fleiri stofnanir, heldur betri hagnýting, meira skipulag á því fjármagni, sem við notum til fjárfestingarinnar, heldur en verið hefur. Þess vegna er þetta frv. að minni hyggju, eins og fjármálum landsins og ástandinu í þessum fjárfestingarmálum er nú háttað, spor í ranga átt, þó að það geti e. t. v. undir vissum kringumstæðum átt rétt á sér, ef öðruvísi grundvöllur væri fyrir starfsemina en nú er.