23.03.1970
Neðri deild: 65. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1291 í B-deild Alþingistíðinda. (1716)

43. mál, Fjárfestingarfélag Íslands

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að vera margorður. Ég hef áður rætt þetta mál við 2. umr. — Með þessu frv., ef að lögum verður, er verið að stofna nýjan banka, fjárfestingarbanka.

Í Reykjavík eru nú 7 aðalbankar og 17 bankaútibú. Utan Reykjavíkur eru 36 bankaútibú aðalbankanna í Reykjavík. Bankaútibú eru því samtals 53, en aðalbankar og bankaútibú samtals 60. Fjárfesting bankakerfisins er mikil og áberandi, bæði fjárfesting í húsum, lóðum, húsbúnaði og vélbúnaði. Starfsmenn bankanna, þ. e. a. s. fastir starfsmenn, eru nú samtals um 1070 samkv. heimildum frá bönkunum sjálfum. Auk bankanna og bankaútibúanna eru svo 53 sparisjóðir starfandi í landinu. Eru þá ótaldir fjárfestingarsjóðir, a. m. k. 10 talsins, í öllum atvinnugreinum, þar af einn nýlega stofnaður með lögum, þ. e. a. s. Iðnþróunarsjóður Íslands.

Samkv. þessu frv. á enn að stofna nýjan banka. Ég er þessu mótfallinn og mun af þeirri ástæðu og öðrum greiða atkv. gegn frv. nú, eins og ég gerði við 2. umr. Ég sé ekkert samræmi í því annars vegar að átelja ofvöxt bankakerfisins og halda svo áfram hins vegar að þenja það út, eins og gert er, ef þetta frv. verður að lögum. Skal ég svo ekki hafa þessi orð fleiri.