24.04.1970
Efri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (1725)

43. mál, Fjárfestingarfélag Íslands

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft þetta mál til meðferðar, en eins og nál., sem útbýtt hefur verið, bera með sér, hefur hún ekki náð samstöðu um málið, þannig að við, sem stöndum að meirihlutanál. á þskj. 615, leggjum til, að það verði samþ. eins og Nd. gekk frá því, eða með þeim breyt., sem þar voru gerðar á frv., en aðrir nm. hafa tjáð sig andvíga frv., eins og nál. á þskj. 586 ber með sér.

Þegar frv. um útflutningslánadeild var til umr. fyrir fáum dögum hér í hv. d., gerði ég það að umræðuefni, að hin breyttu viðhorf í efnahagsmálum vegna EFTA-aðildar Íslands sköpuðu margvísleg ný viðfangsefni og vandamál og gerðu alla hagstjórn erfiðari en áður hafði verið. Íslendingar verða að leggja inn á nýjar brautir í atvinnumálum, stofna ný fyrirtæki og umbreyta þeim, sem fyrir eru, og leita inn á nýja markaði. Allt þetta krefst í senn aukins fjármagns og betri nýtingar þess fjármagns, sem til ráðstöfunar er. Við, sem að nál. meiri hl. stöndum, lítum svo á, að frv. það, sem fyrir liggur, sé spor í rétta átt til lausnar þessum viðfangsefnum. Þetta ber ekki svo að skilja, að ekki hefði verið þörf fyrir það að leysa þau viðfangsefni, sem stofnun þeirri, sem frv. gerir ráð fyrir, að komið sé á fót, verður falið að vinna, þótt ekki hefði til EFTA-aðildar komið, en hún gerir það miklum mun meira aðkallandi en áður, að þessi viðfangsefni séu leyst.

Ég gat þess í umræddri framsöguræðu minni fyrir frv. um útflutningslánasjóð, að framleiðsla iðnvarnings fyrir svo lítinn markað sem íslenzki markaðurinn er skapaði ekki skilyrði fyrir það, að nútímatækni mætti hagnýta, nema þá á mjög takmörkuðum sviðum. En til framleiðslu í stærri stíl og þá fyrir erlendan markað þarf í senn meiri fjárfestingu og þá um leið fjármagnsnotkun en þegar framleiðslan var í smærri stíl, meira átak í markaðsmálum en þegar framleiðsla er eingöngu fyrir innlendan markað, og enn fremur verður öll áætlanagerð, tækni og stjórnun vandasamari en áður. Ég vænti þess ekki, að ágreiningur sé um það hér í hv. d., að þau verkefni, sem Fjárfestingarfélaginu er ætlað að vinna að og nánar eru tilgreind í 1. gr. frv., þarfnist úrlausnar, sem sé meira aðkallandi vegna nýrra viðhorfa í efnahagsmálum en nokkru sinni fyrr. Hitt getur menn auðvitað greint á um, hvort nauðsynlegt sé að koma á fót nýrri stofnun í þessu skyni eða hvort treysta megi því, að þær fjárfestingarlánastofnanir, sem starfandi eru, muni taka að sér lausn þeirra, svo að viðunandi sé. Við, sem að meirihlutanál. stöndum, erum þeirrar skoðunar, að miklu meiri líkur séu á árangri með því að koma á fót nýrri stofnun í þessu skyni en ef treysta ætti á þær lánastofnanir, sem nú eru starfandi, í þessu efni. En út af fyrir sig má segja, að ef maður hefði trú á því, að þessar lánastofnanir gætu sinnt þessu verkefni og væru líklegar til að sinna því, svo að viðunandi væri, þyrfti ekki sérstaka lagaheimild þeim til handa. Út af fyrir sig er það tekið réttilega fram í nál. hv. minni hl.

Rök okkar fyrir því, að þessum málum verði skynsamlegar skipað með því að koma á fót nýrri stofnun, sem þau hafi með höndum, eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi hníga að því þau rök, að okkar áliti, að Fjárfestingarfélagið er í nánum og beinum tengslum við samtök þeirra aðila, sem hitinn og þunginn hlýtur að hvíla á við þá aðlögun atvinnulífsins, sem EFTA-aðildin krefst.

Í öðru lagi má á það benda, að skortur er á hæfum starfskröftum til þess að leysa af hendi þau verkefni, sem hér er um að ræða, og má gera ráð fyrir því, að þeir starfskraftar, sem völ er á, mundu nýtast betur í einni stofnun en ef þeim væri dreift á milli margra aðila.

Þá má einnig geta þess, þó að vera megi og ég geti vel tekið undir það sem eðlilegt er, þar sem ég tilheyri hinni rosknari kynslóð, að ungu mennirnir geri kannske stundum of lítið úr hæfni og verðleikum okkar hinna eldri, en meira en efni kunna að standa til úr hæfni sinni, að hvað sem þessu líður, þá tel ég, að þegar um ný verkefni er að ræða, sem áður hefur ekki verið sinnt, sé það betri skipan mála að koma á fót nýjum stofnunum, sem gera má ráð fyrir að ungir menn, sem tækniþjálfun hafa í þeim verkefnum, sem um er að ræða, starfi við, heldur en að fela þessi sömu verkefni gömlum stofnunum, sem stjórnað er af rosknum mönnum, sem ekki hafa sinnt eða stjórnað slíkum málefnum áður. Þetta meira almenna atriði tel ég einnig, að mæli með því, að ef menn eru þeirrar skoðunar, að nauðsyn sé á að leysa þau viðfangsefni, sem hér er um að ræða, — og það kæmi mér einkennilega fyrir sjónir, ef menn væru ekki sammála um það, — þá sé það betri skipan mála að fela þau nýrri stofnun en að treysta á lausn þeirra af hálfu eldri stofnana, sem ekki hafa starfað á slíkum grundvelli, þó að æskilegt hefði verið í sjálfu sér. En það er nú einu sinni staðreynd, þó að það megi segja, að starfandi lánastofnanir hefðu átt að leysa þau viðfangsefni, sem upp eru talin í 1. gr. frv., að það hefur ekki verið gert þannig, að viðunandi megi teljast. En nú verður það meira aðkallandi en nokkru sinni áður, að þessi verkefni séu leyst.

Vandi okkar í sambandi við aðlögun að EFTA-aðildinni er þó ekki einungis fólginn í því að nýta betur þá fjármuni, sem til ráðstöfunar eru, heldur og ekki síður í því að auka það fjármagn, sem til ráðstöfunar er, fyrst og fremst með aukinni fjármagnsmyndun innanlands, en auk þess er að mínu áliti óhjákvæmilegt að leita á erlendan fjármagnsmarkað, ef lán eru þar fáanleg með hagkvæmum kjörum. Ekki skal ég að vísu gefa nein loforð um það, að samþykkt þessa frv. marki stórt spor í þá átt að útvega nýtt fjármagn, en þó eru til erlendar lánastofnanir, sem gera má ráð fyrir, að fúsari mundu að veita lán til Fjárfestingarfélagsins, ef því yrði komið á fót, en annarra innlendra stofnana. Má þar fyrst og fremst nefna International Finance Corp., sem er í nánum tengslum við Alþjóðabankann, og má í rauninni líta á stofnunina sem eins konar útibú frá honum. Hlutverk þessarar stofnunar er að efla einkarekstur í þeim löndum, þar sem hann á erfitt uppdráttar. Starfsemi stofnunarinnar hefur að vísu einkum verið í þróunarlöndunum, því að þar má segja, að skiljanlegar ástæður liggi fyrir því, að einkarekstur eigi þar sérstaklega erfitt uppdráttar. En einnig mun stofnunin þó hafa lánað löndum, sem ekki teljast til þróunarlanda, ef einkarekstur á þar erfitt uppdráttar af einhverjum orsökum, svo sem t. d. Finnlandi. Og vel að merkja er með einkarekstri hér ekki átt einvörðungu við rekstur á vegum einstaklinga, heldur einnig félaga, svo sem þegar um er að ræða hlutafélög, samvinnufélög eða önnur félög. Það fellur einnig undir einkarekstur. En á Íslandi á einkarekstur erfitt uppdráttar, þótt ekki væri nema vegna smæðar landsins, og ættu því lán á vegum þessarar stofnunar hingað að geta komið til greina.

Þetta frv. hefur verið gagnrýnt á þeim grundvelli, að gert er ráð fyrir tímabundnum skattfríðindum í 6. gr. frv. En þess ber þó að gæta í sambandi við það, að það er aðeins félagið, sem gert er ráð fyrir að verði skattfrjálst um árabil, en hins vegar greiða hluthafar auðvitað skatta af útborguðum arði eftir þeim reglum, sem um það gilda á hverjum tíma. Hér er því aðeins um það að ræða, að félagið fái eftirgjöf á tvísköttun, að því er útborgaðan arð snertir, og þurfi ekki að greiða skatta af því, sem lagt er í varasjóði. Verður að telja það sjálfsagðan hlut, ef á annað borð er litið svo á, að stofnunin hafi nauðsynlegu hlutverki að gegna, enda, eins og frv. ber með sér, eru þessi ákvæði tímabundin.

Niðurstaðan af því, sem ég hef nú sagt, hlýtur að vera sú, að Fjárfestingarfélagið geti átt mikilvægu hlutverki að gegna til lausnar þeim viðfangsefnum, sem við blasa í atvinnulífinu, ef vel tekst til um rekstur þess. Af hinu má þó ekki missa sjónar, að það, sem mestu máli skiptir fyrir lausn þeirra viðfangsefna, sem við blasa, er aukin fjármagnsmyndun í landinu, því að ef ekkert fjármagn myndast, verður heldur ekkert fjármagn til ráðstöfunar, og bollaleggingar um það, hvort það eigi að vera hið opinbera, einstaklingar eða félög, sem nýta eigi fjármagnið, mundu þá vera fánýtar. En grundvallarskilyrði aukinnar fjármagnsmyndunar er það, að takast megi að halda verðbólgunni í skefjum. Sparnaður einstaklinga er að jafnaði í þeirri mynd, að peningar eru lagðir fyrir, en fari peningagildið ört rýrnandi, vill enginn eiga peninga eða peningakröfur, og eyða menn þá peningunum frekar en að leggja þá fyrir. Að mínu áliti er bæði hér á hv. Alþ. og annars staðar, þar sem fjárhagsmálefnum þjóðarinnar er ráðið til lykta, einblínt allt of mikið á það, hvernig eigi að skipta kökunni, fremur en að leggja áherzlu á að skapa sem bezt skilyrði fyrir að stækka hana. Og ættu menn þó frekar að geta staðið saman um ráðstafanir, sem að því miða að stækka kökuna, því að það er mannlegt að deila, þegar til þess kemur að skipta kökunni. En þannig er það nú einu sinni, að yfirgnæfandi meiri hluti af tíma hv. Alþ. fer í það að deila um og ákvarða það, hvernig fjármununum skuli ráðstafað. Hitt ber sjaldan á góma, hvaða skynsamlegar leiðir lægju til þess að fá meiri fjármuni til ráðstöfunar.

Það má nú að vísu segja, að þessar hugleiðingar liggi utan þess málefnis, sem hér er til umræðu, en þessu má þó að mínu áliti ekki missa sjónar á, þegar vandamál í sambandi við fjárfestingu og fjármögnun eru til umræðu.