24.04.1970
Efri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1307 í B-deild Alþingistíðinda. (1731)

43. mál, Fjárfestingarfélag Íslands

Sveinn Guðmundsson:

Herra forseti. Út af ummælum hv. 11. þm. Reykv. hér, bæði nú og í fyrri ræðu, vil ég upplýsa það, þó að ég sé kannske ekki rétti maðurinn í þessari hv. þd. til að upplýsa það, að Samband ísl. samvinnufélaga hefur samþykkt alveg skilyrðislaust að verða einn forgangsaðilinn að Fjárfestingarfélaginu ásamt Verzlunarráði Íslands og Félagi ísl. iðnrekenda.

Sami hv. þm. miklaði það fyrir sér, að hér væri eingöngu átt við hlutafélagsformið. Ég satt að segja get ekki stælt við hann um það, en í 1. gr. er alls staðar rætt um atvinnufyrirtæki. Atvinnufyrirtæki ná til samvinnufélaga og hvaða rekstrarforma sem er. Auk þess má bæta því við, að samvinnufélagsskapurinn á aragrúa af hlutafélögum í hinum ýmsu starfsgreinum, sem í mörgum tilfellum henta einmitt miklu betur en samvinnureksturinn, þar sem hver einstakur er kannske fullábyrgur fyrir áhættusömum rekstri.