09.03.1970
Neðri deild: 56. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (1760)

163. mál, gæðamat á æðardún

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Í fjarveru 1. flm. þessa frv., sem nú er farinn af landi brott og tekinn við mikilvægum störfum fyrir Ísland á erlendri grund, þá mun ég fylgja þessu frv. úr hlaði með örfáum orðum.

Það er alkunna, að æðardúnn hefur frá fornu fari verið verðmæt vara, bæði á erlendum og innlendum markaði, en jafnframt staðreynd, að íslenzkur æðardúnn, sem boðinn hefur verið til sölu, er ekki allur jafngóður. Hann er misjafn að gæðum, þó að hann sé talinn í einum og sama verðflokki. Dúnninn er verðmæt vara, eins og ég sagði, enda hafa oft verið mynduð samtök til þess að auka framleiðslu á þessari vöru og bæta hana að gæðum. Slík samtök æðarvarpseigenda hafa yfirleitt staðið skamma stund, ekki átt sér langa lífdaga. Einna lengst mun hafa lifað Æðarvarpsræktarfélag Breiðafjarðar og Strandasýslu, sem stofnað var um 1880, og var aðalhvatamaður að því Pétur Eggerz í Akureyjum. En nú nýlega hefur vaknað mikill áhugi æðarvarpseigenda um gjörvallt land, og á s. l. hausti eða 29. nóvember var haldinn stofnfundur félags, sem hlaut nafnið Æðarræktarfélag Íslands. Félagið lýsti fyrstu verkefnum sínum í nokkrum orðum á þessa leið:

Í fyrsta lagi að reyna að vinna gegn flugvargi, sem jafnan herjar á æðarvörp. Í öðru lagi að auka þekkingu manna í þessum efnum. Og loks í þriðja lagi að óska þess, að Alþ. það, er nú situr, setji lög um gæðamat á æðardún, eða eins og sagði í bréfi frá Æðarræktarfélagi Íslands, sem prentað er sem fskj. með þessu frv.:

„Stofnfundur Æðarræktarfélags Íslands, haldinn í Bændahöllinni 29. nóv. 1969, skorar á Alþ. það, er nú situr, að setja þegar í stað lög um gæðamat á æðardún og skipa mann í þann starfa ekki síðar en á næsta vori og þá eftir ábendingu Búnaðarfélags Íslands.“

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er samið með hliðsjón af öðrum lögum, sem gilda um svipuð efni, eins og t. d. lög um gærumat. Er þó haft í huga, að æðardúnn fellur ekki til nema á nokkrum svæðum á landinu. Þess vegna er ekki ástæða til að setja upp mjög flókið kerfi af þessu tilefni. Ég vil því benda á 5. gr., sem kveður á um það atriði, með hliðsjón af því, sem sagði í bréfi Æðarræktarfélagsins og ég las upp áðan. Þar er gert ráð fyrir því, að lögreglustjóri, sem yfirleitt skipar matsmenn í hinum ýmsu greinum, skipi og umrædda matsmenn eins og segir í 5. gr.:

„Lögreglustjóri skipar dúnmatsmenn á þeim stöðum, er landbrn. telur þörf á, að fengnum till. Búnaðarfélags Íslands.“

Að öðru leyti hníga ákvæði þessa frv. mjög í átt til samræmingar við ákvæði laga um gærumat.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um frv., en legg til, að því verði vísað til hv. landbn. að umræðu lokinni.