27.04.1970
Efri deild: 81. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1314 í B-deild Alþingistíðinda. (1772)

163. mál, gæðamat á æðardún

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Svo sem fram kemur í grg. fyrir frv. um gæðamat á æðardún, eru ekki fyrir hendi nein lagaákvæði um, að gæðamat skuli eiga sér stað á æðardún. Það er talið, að þessi verðmikla vara sé nú seld, hvort heldur er á erlendum eða innlendum markaði, í mjög misjöfnu ásigkomulagi. Dæmi munu einnig vera til þess, að íslenzkur æðardúnn, sem sendur hefur verið til sölu erlendis, hafi verið endursendur sem ósöluhæf vara.

Á s. l. hausti stofnuðu bændur, sem stunda æðarrækt, með sér félag, og á stofnfundi félagsins var þetta vandamál ítarlega tekið til umr. Það var skoðun manna, að til þess að hér yrði ráðin sú bót á, sem að haldi mætti koma, væri vart um annað að ræða en sett yrði löggjöf um gæðamat æðardúns. Í framhaldi af þeirri samþykkt Æðarræktarfélags Íslands er þetta frv. fram komið, og leggur landbn. einróma til, að frv. verði samþ. og því að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.