13.01.1970
Neðri deild: 36. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1315 í B-deild Alþingistíðinda. (1777)

129. mál, almannatryggingar

Flm. (Sverrir Júlíusson):

Herra forseti. Á þskj. 183 flyt ég ásamt hv. 4. þm. Vestf., 1. þm. Reykn. og 10. þm. Reykv. frv., sem felur í sér smábreytingu. Frv. er ekki mikið að vöxtum, eins og þm. sjá. Það felur í sér þá breytingu, að Tryggingastofnuninni er heimilt að greiða allt að 25% af lágmarksbótum til öryrkja, þegar þeir dvelja á spítölum eða dvalarheimilum, ef þeir eru algerlega tekjulausir. Í núgildandi lögum er heimild til þess að greiða 10%, en samkv. upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins, þá hefur greiðslan numið, eins og segir í grg., tæpum 1080 kr. á ársfjórðungi. En eftir þá breytingu, sem hér er lögð til, mundi þetta nema um 900 kr. á mánuði eða 2700 kr. á ársfjórðungi.

Það gera sér allir grein fyrir því, að þeir, sem eru algerlega tekjulausir, þurfa fleira með en greiddur sé dvalarkostnaður fyrir þá og húsnæði, fæði, meðul og þess háttar. Þeir eru samborgarar í félagslegu samfélagi, og hver skyni gædd lífvera þarf að hafa fleira en þetta. Þess vegna hefur mér fundizt, síðan minnzt var á þetta við mig á s. l. ári, að hér væri þörf á réttarbót, þó ekki sé langt farið í þessa átt. Það mun hafa verið þannig, að þegar öryrkjar fóru á spítala og ef þeir dvöldu þar lengur en einn mánuð, þá var öryrkjastyrkurinn, sem nam á árinu 1968 3 587 kr. á mánuði, tekinn af þeim nema þessi 10%, sem heimild var um í lögum. Þetta nær því einnig til þeirra, þótt þeir dvelji ekki ávallt á spítölum eða dvalarheimilum. Það er meining okkar flm., að það sé þannig í framkvæmd. Samkv. upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins nam þessi greiðsla á árinu 1969 um 4 millj. kr., svo að hér er um aukin útgjöld að ræða upp undir 10 millj., sem lagt er til með þessu frv.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fara lengra út í þetta mál. Mér finnst þetta liggja þannig fyrir, að það sé nauðsynlegt að verða við því að bæta stöðu þeirra, sem verst eru settir í þjóðfélaginu. Að vísu er það nokkuð gert og við státum af því, að hér sé velferðarþjóðfélag og almannatryggingarnar sjá fyrir miklu. En í samþykktum, sem öryrkjar hafa gert, voru að vísu nefnd fleiri atriði en þetta, en mér fannst, að þessi till. væri sanngjörn og því nauðsynlegt að kippa þessu í lag. Ég vonast til þess, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, afgreiði þetta.

Það vill nú þannig til, að á þessu þingi hafa verið bornar fram tvær aðrar brtt. við 56. gr. almannatryggingalaganna. Önnur var reifuð hér 27. okt., en hin 20. nóv., en þær hafa ekki komið frá n. enn þá. Ég var að hugleiða það að koma með brtt., ef þær hefðu komið fram. Sú n., sem fær þetta til athugunar, getur þá samið 56. gr. almannatryggingalaganna upp að nýju og tekið þetta þá inn í heildina, en ég legg áherzlu á það, að þetta sjónarmið, sem kemur hér fram í þessu frv., nái fram að ganga nú á þessu þingi.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, en legg til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn. að lokinni þessari umr.