17.04.1970
Neðri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1317 í B-deild Alþingistíðinda. (1800)

209. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Flm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Mál þetta á þskj. 529 er flutt að beiðni stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, eins og fram kemur í grg. frv. Um málið hafði áður verið fjallað á fulltrúaráðsfundi sveitarfélaganna og er alger samstaða um það.

Þær breytingar, sem hér er gert ráð fyrir að gera á tekjustofnalögunum, eru í fyrsta lagi það, að lögtaksréttur vegna aðstöðugjalds verði hliðstæður við það, sem hann er til útsvars. Það hefur reynt á það í dómi, að ef um séreign hjóna hefur verið að ræða, þá hefur lögtaksréttur vegna aðstöðugjalds ekki náð til séreignar, eins og er þó með útsvar, þó að um sameignarfyrirtæki sé að ræða. Þetta telja sveitarstjórnarmenn, að þurfi að vera skýrt og afdráttarlaust í lögunum.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því, að hækka gjald það, sem Jöfnunarsjóður greiðir til Sambands ísl. sveitarfélaga, úr ½% í 1%. Ástæðan til þess að farið er fram á þetta er í fyrsta lagi sú, að nú á síðari árum hafa ýmis landshlutasambönd orðið til á vegum sveitarfélaganna, og er ætlunin, að það gjald, sem sveitarfélögin greiða nú, 3 kr. af hverjum íbúa, gangi til þessara landshlutasambanda. En til þess að svo megi verða, þarf að auka tekjur Sambands ísl. sveitarfélaga a. m. k. til jafns við það eða rúmlega það, en þetta ½% gaf sambandinu 1 millj. 479 þús. kr. á s. l. ári.

Þá er gert ráð fyrir því í samræmi við þetta, að hluti sá, sem Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur til ráðstöfunar óskiptan af tekjum sínum, áður en farið er að skipta upp á milli sveitarfélaganna, verði hækkaður um 1% og verði hér eftir 4% í staðinn fyrir 3%.

Fjórða atriðið, sem hér er um að ræða, er að skiptaútsvör vegna búferlaflutninga verði lögð niður. Þetta atriði hefur valdið sveitarstjórnarmönnum nokkrum erfiðleikum og er ekki að þeirra dómi talið heppilegt til þess, að samstarf þeirra geti verið eins gott og æskilegt er, og sum sveitarfélög, eins og t. d. hér á Reykjanesinu, hafa tekið það upp að hætta að afgreiða skiptaútsvör innbyrðis. Þess vegna er nú lagt til, að hér verði það tekið upp í lög að hætta þessum greiðslum, en til þess að bæta þeim upp, sem fólksfækkun er hjá, verði Jöfnunarsjóði gert að skyldu að greiða þeim sveitarfélögum. sem fólki fækkar hjá, meðalútsvar fyrir hvern þegn, sem fækkar um í byggðarlaginu. Með þessu móti er þeim sveitarfélögum, sem fækkunin á sér stað í, tryggt að fá greiðslur vegna fækkunarinnar, vegna þess að Jöfnunarsjóður sér um greiðsluna, en nokkrar Hálfdánarheimtur hafa verið á því, þegar sveitarfélögin. sem tekið hafa við fólkinu, hafa átt að skila þessu til þeirra, sem misstu fólkið, og ekkert sveitarfélag hefur að sjálfsögðu greitt til hins sveitarfélagsins, nema það væri búið að innheimta hjá viðkomandi einstaklingi, sem flutti á milli sveitarfélaganna. Um þetta mál er samstaða hjá sveitarstjórnarmönnum. Það hefur áður verið rætt á þingi sveitarstjórnanna og er fram komið þar og svo afgr. hjá fulltrúaráði þeirra.

Í fimmta lagi er svo fjallað um það, að þegar ríkisskattanefnd hefur ákveðið skatthækkun vegna rannsóknar, þar sem í ljós hefur komið, að skattsvik hafa átt sér stað, þá hefur sá háttur verið á hafður, að ríkisskattanefnd hefur ákveðið fjárhæð tekjuskattsins, sem viðkomandi aðili átti að greiða til viðbótar vegna skattsvikanna, en aftur á móti hafa framtalsnefndir lagt tekjuútsvörin á vegna þessara breytinga. Hér er hins vegar gert ráð fyrir því, að ríkisskattanefnd verði falið að leggja á hvort tveggja í senn, tekjuskattinn og tekjuútsvarsviðbótina, sem leiddi af skattsvikunum. Það er gert ráð fyrir því, að það megi rannsaka skattframtöl 6 s. l. ára, og er það svipað og nú er gert. Breyt. er hins vegar fólgin í því, að ríkisskattanefnd mun einnig leggja á útsvarið eftir reglum þess byggðarlags, sem viðkomandi gjaldþegn á heima í, en framtalsnefnd mun ekki sjá um þann þáttinn.

Ég þarf ekki að segja fleiri orð um þetta frv. og vil endurtaka það, að það er samstaða um það hjá sveitarstjórnarmönnum. Ég treysti því, að hv. Alþ. geti afgr. þetta mál á þessu þingi, þó að seint sé.

Ég vil því leggja til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn., því þar munu tekjustofnalögin hafa verið til meðferðar.