17.04.1970
Neðri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1318 í B-deild Alþingistíðinda. (1801)

209. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Friðjón Þórðarson:

Það eru aðeins örfá orð í framhaldi af ræðu framsögumanns. Það er sennilega rétt, að frv. þetta er nauðsynlegt. Það er nauðsynlegt, að það nái fram að ganga, og um það er nokkurn veginn eining, en ég get ekki stillt mig um að benda á eitt í þessu sambandi. Ég tel, að ákvæði frv. gangi í mörgum atriðum of skammt. Það þarf að athuga lög um tekjustofna sveitarfélaga enn nánar, og gera á þeim meiri breytingar. Það hefur verið bent á ýmis atriði af reyndum og vönum sveitarstjórnarmönnum, t. d. að það sé nauðsynlegt að breyta ákvæðum um fasteignaskatt, þannig að sá tekjustofn standi undir þeim gjöldum, sem sveitarfélagið verður að inna af hendi og miðuð eru við fasteignir. Sennilega verður þetta nú líka athugað.

Þá er eitt atriði í þessu frv., sem fjallar um, að niður eigi að fella skiptingu útsvara. Ýmis smærri og fátækari sveitarfélög eru hrædd við þetta ákvæði, vegna þess að það bitnar náttúrlega sérstaklega á þeim sveitarfélögum, sem fólkið flytur burt úr. En vera má, að nýmæli frv., sem hv. frsm. vék að, vegi þarna upp á móti. Og við verðum að vona það.

Þá vil ég að lokum benda á atriði, sem er orðin knýjandi nauðsyn að athuga af meira raunsæi en gert hefur verið. Það er þegar jarðir fara í eyði í stórum stíl í einstökum sveitarfélögum eða eru keyptar upp af mönnum, sem búa utan sveitarfélagsins. Það getur tæpast gengið, að jafnvel beztu hlunnindajarðir sveitanna lendi í eigu utansveitarmanna, sem sveitin getur svo ekki náð gjöldum af, nema að mjög takmörkuðu leyti. Ég vil segja, að það er allt í lagi þó að menn kaupi jarðir, en þeir verða að greiða af þeim skatta og skyldur, þannig að það verði ekki ómögulegt fyrir þá, sem eftir búa í sveitinni, að búa áfram. Þetta er mikilvægt atriði, sem athuga þarf. Sennilega bíður það þó síns tíma, því að nauðsynlegt er, að þetta frv. út af fyrir sig nái fram að ganga á þessu þingi.