24.04.1970
Neðri deild: 81. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1320 í B-deild Alþingistíðinda. (1804)

209. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Frv. þetta fjallar um breytingu á l. nr. 51 frá 10. júní 1964, um tekjustofna sveitarfélaga, og er flutt skv. beiðni Sambands ísl. sveitarfélaga af þm. úr öllum flokkum. Heilbr.- og félmn. hefur fjallað um frv., og enda þótt viðurkennt sé, að þar séu ekki tekin til greina öll atriði, sem hreyfa þyrfti, til breytingar á þessum lögum, eins og ég benti á við 1. umr. málsins, þá er þó talið rétt, að frv. nái fram að ganga í þeirri mynd, sem það nú er. Hafa allir nm. orðið ásáttir um það. Jafnframt hafa nm. fallizt á að flytja eina brtt. við frv. Hún kemur fram á þskj. 644 og er við 7. gr., um að 30. gr., e-liðurinn, orðist svo:

„Sveitarfélag, þar sem útsvar er á lagt, hlýtur aldrei minna en 1/4 hluta af útsvari, sem skipt er skv. d-lið 2, og eigi verður útsvari þá skipt, nema í hlut þess sveitarfélags, sem skiptikröfu gerir, komi a. m. k. kr. 75 000.00, þó má fjárhæðin lægri vera, ef hún eigi að síður nemur a. m. k. 5% af heildarútsvörum þess sveitarfélags, er kröfuna gerir. Tekjuútsvari aðila, sem jafnframt greiðir landsútsvar, skal ekki skipt.“ Brtt. þessi, sem er flutt að beiðni stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, eins og ég sagði, felur í sér hækkun á viðmiðunarfjárhæð í e-lið 30. gr. l. nr. 51 frá 1964 úr 25 000 kr. í 75 000 kr.

Með l. nr. 42 frá 30. apríl 1963 var tekin upp í lög um tekjustofna sveitarfélaga regla um skiptingu útsvara milli sveitarfélaga, þegar útsvarsgreiðandi rekur atvinnustöð í fleira en einu sveitarfélagi. Slík útsvarsskipti voru þó bundin þeim takmörkum, að í hlut þess sveitarfélags, sem skiptikröfu gerði, kæmu a. m. k. 25 000 kr. af útsvari gjaldanda. Þessi fjárhæð, 25 000 kr. hefur staðið óbreytt allt frá árinu 1963, þrátt fyrir verð- og launabreytingar á þessu tímabili. Virðist eðlilegt og sjálfsagt, að þessi viðmiðunarfjárhæð verði færð til samræmis við almennar launabreytingar á þessu árabili, svo upphaflegum tilgangi með téðri takmörkun verði haldið. Ella má búast víð því, að kröfur sveitarfélaga á hendur öðrum um slík útsvarsskipti vaxi úr hömlu, ekki sízt milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, og gæti það leitt til mikils glundroða.

Ég læt þessi orð nægja með þessari brtt. og sé ekki ástæðu til að fjalla nánar um frv., enda hefur verið gerð grein fyrir því áður. Legg ég til, að það verði samþykkt.