29.04.1970
Efri deild: 85. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1321 í B-deild Alþingistíðinda. (1815)

209. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Frv. þetta, sem er þmfrv., flutt af þm. úr 4 þfl. í hv. Nd. Alþ., fjallar um breyt. á l. um tekjustofna sveitarfélaga, og er flutt að beiðni stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga. Í grg. fyrir frv. eru raktar þær breyt. frá núgildandi lögum, sem í því felast. Ég skal nú aðeins í stórum dráttum stikla á þeim.

Með 1. gr. er lagt til, að sú gagnkvæma ábyrgð, sem hjón bera samkvæmt 50. gr. tekjustofnalaganna á greiðslu útsvars, skuli einnig gilda um greiðslu aðstöðugjalds. Hefur verið talið, að svo væri, en eins og í grg. segir, hefur reynt á þetta í dómsmáli og niðurstaðan var sú, að það var talið skorta lagaheimild til þess að gera lögtak í séreign annars hjóna til tryggingar á aðstöðugjaldi vegna sameiginlegs fyrirtækis hjónanna.

Með 2. gr. er lagt til að það ½%, sem nú fellur til starfsemi Sambands ísl. sveitarfélaga, hækki í 1%. Sú heimild er í l. nr. 43 frá 1966, og er það ákvæði alveg samhljóða 2. gr. frv., nema hvað samkv. núgildandi lögum er það ½%, sem þannig á að fara til sérþarfa sambandsins.

Þá er með 3. gr. lagt til, að þarna komi nýr stafliður í 15. gr. tekjustofnalaganna þar sem heimilað er að greiða sérstakt framlag þeim sveitarfélögum, þar sem íbúum hefur fækkað næstliðið ár. Það er svo aftur samkvæmt 5. gr. frv. kveðið á um, hvernig þær greiðslur skuli reikna út, sem er í stuttu máli þannig, að það er reiknað út meðalútsvar á hvern íbúa í sveitarfélaginu, og þegar svo hefur fækkað þar, þá er þetta meðalútsvar margfaldað með tölu brottfluttra íbúa. Sú greiðsla gengur svo til sveitarfélagsins.

Þá er í 4. gr. lagt til, að í stað þeirra 3%, sem nú renna til þeirra þarfa, sem þar segir, verði þau hækkuð í 4%. Í grg. með frv. segir, að þetta fé, sem þarna er um að ræða, hafi aðallega gengið til þeirra sveitarfélaga, sem hafa notað útsvarsstigann með fullu lögleyfðu hámarksálagi, og þó hafi útsvarstekjurnar ekki nægt til að mæta eðlilegum útgjöldum sveitarfélagsins. Þar segir einnig, að á árinu 1969 hafi þessi 3% gefið 10.5 millj. kr., auk eftirstöðva frá fyrra ári. Einnig segir þar, að það sé ekki útlit fyrir, að 3% af tekjum jöfnunarsjóðs nægi til þessara aukaframlaga árið 1970, og því er lagt til, að þetta verði hækkað upp í 4%.

Þá er loks það ákvæði, sem er ekki hvað þýðingarminnst af þeim breyt., sem í frv. felast, en það er, að með því er lagt til að falli niður hin svonefndu skiptiútsvör. Í núgildandi lögum segir, að ef gjaldandi flyzt búferlum milli sveitarfélaga, þá skuli skipta útsvarinu milli sveitarfélaganna í réttu hlutfalli við þann tíma, sem hann hefur átt búsetu í hvoru þeirra. Þessi mál hafa oft valdið miklum erfiðleikum og miklu þvargi, og það hefur sýnt sig, að það borgaði sig tæplega að standa í öllum þeim bréfaskriftum og þrasi, sem þessu fylgir, auk þess að niðurstöður fást oft ekki fyrr en seint og síðar meir. Það hefur m. a. leitt til þess, að sveitarfélögin hér í Reykjaneskjördæmi ásamt Reykjavíkurborg hafa t. d. gert með sér samkomulag um að fella niður skiptikröfur. Í frv. segir, að þrátt fyrir það, — og að sjálfsögðu hefur þessum málum fækkað gríðarlega við það, að þessi landshluti allur, ásamt höfuðborginni, hefur komið sér saman um að fella niður slíkar kröfur, — þá hafi samt á árinu 1968 verið kveðnir upp 1000 skiptiútsvarsúrskurðir. Og eins og í grg. segir hefur þó mörgum kröfum verið synjað, m. a. vegna þess að þær voru of seint fram komnar.

Nú varð nokkur breyt. á frv. í hv. Nd., að því er þetta ákvæði varðar, og er þá breyt. að finna á þskj. 681, eins og frv. er eftir 2. umr. í Nd. Það er sem sé ekki algjörlega sleppt öllum skiptiútsvörum, heldur segir þar: „Sveitarfélag, þar sem útsvar er á lagt, hlýtur aldrei minna en 1/4 hluta af útsvari, sem skipt er samkvæmt d-lið 2, og eigi verður útsvari þá skipt, nema í hlut þess sveitarfél., sem skiptikröfu gerir, komi a. m. k. 75 þús. kr.“ Þetta þýðir auðvitað, að allur fjöldinn af skiptikröfum yrði með þessu úr sögunni. Það er sjálfsagt ekki nema lítill hluti af útsvörum, sem eru það há, að þetta nái til þeirra. Samt er sá varnagli sleginn við þessu, að upphæðin megi vera lægri, hún þurfi þó ekki að ná 75 þús. kr., ef hún eigi að síður nemi a. m. k. 5% af heildarútsvörum þess sveitarfélags, sem kröfuna gerir, og er það að sjálfsögðu gert til þess að fyrirbyggja það, að tekjumissir samkv. þessu verði tilfinnanlegur fyrir smærri sveitarfélög.

Það eru að sjálfsögðu mörg ákvæði tekjustofnalaganna, sem ástæða væri til að endurskoða og breyta, og það er vitað, að Samband ísl. sveitarfélaga hefur haft þar ýmis atriði til athugunar, en mun þó ekki hafa talið rétt á þessu stigi að setja fram till. um fleiri breytingar. Þessar breytingar allar eru þess háttar, að það má ætla, að samkomulag geti orðið um þær og málið fái þess vegna greiðan framgang. Einnig er á það að líta, að þegar horfið verður að staðgreiðslukerfinu, þá verður auðvitað nauðsynlegt að endurskoða algerlega tekjustofnalögin og þá að sjálfsögðu margt, sem m. a. hefur verið rætt hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga og komið þar til athugunar.

Eins og fram kemur í nál. á þskj. 753, hefur heilbr.og félmn. athugað frv. og leggur einróma til, að það verði samþykkt.