15.01.1970
Neðri deild: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1324 í B-deild Alþingistíðinda. (1823)

130. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Eðlilegt er, að leitazt sé við að bæta úr misrétti, en eins og kom fram hjá hv. flm. eru verulegir annmarkar á því, eins og löggjöf er nú og raunar framkvæmd einnig, að fylgjast með því, hversu langur útgerðartími þessara skipa er og hver raunverulegur mannafli stundi veiðarnar. Hann benti raunar á ráð og í frv. er bent á ráð, sem á að tryggja að misnotkun eigi sér þarna ekki stað. Spurningin er, hvort það er nógu haldgott. Ég hef ekki gert mér grein fyrir því, en n. athugar það að sjálfsögðu. En það, sem ég vildi fyrst og fremst benda á, er, að þetta fyrirkomulag um fæðisgreiðslur er í raun og veru hluti af samningum, sem gerðir voru á milli sjómanna og útvegsmanna í fyrra. Þó að ríkið væri þarna formlegur aðili, þá var þarna um að ræða raunverulegan hluta þeirra samninga, sem tókust. Og ef bæta á við nýjum skuldbindingum, hvort sem það er í þessu sambandi eða öðru, og legg ég áherzlu á það að gefnu tilefni, sem ég skal ekki fara frekar út í, þá þarf að sjá fyrir auknu fé í því skyni, því það var aldrei ætlunin og kom aldrei til greina af hálfu ríkisvaldsins, að ríkissjóður ætti að taka á sig verulegar eða ótakmarkaðar skuldbindingar í þessu. Það var gert ráð fyrir því, að þessi gjaldstofn stæði undir greiðslunum, og ef menn ætla að bæta á þann gjaldstofn, þá verður að sjá fyrir fé í því skyni. Þetta vil ég að liggi alveg ljóst fyrir, vegna þess að af hálfu ríkisvaldsins var í fyrra aldrei ráðgert, að þarna væri verið að taka greiðslur úr ríkissjóði sem nokkru næmi. Þó að það kynni að verða þörf á því um sinn að mjög takmörkuðu leyti, vegna þess hversu seint þessi gjöld voru lögákveðin í fyrra, þá var þar um algerlega sérstakt tilvik að ræða.