20.04.1970
Neðri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1330 í B-deild Alþingistíðinda. (1832)

130. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Frsm. (Sverrir Júlíusson):

Herra forseti. Vegna brtt. þeirrar, sem fyrir liggur á þskj. 594 frá hv. 1. þm. Norðurl. e., vil ég leyfa mér að taka fram, að ég sem einn af upphaflegum flm. þessa frv. og síðan frsm. sjútvn. get ekki fallizt á, að þessi breyting verði á gerð. Ég vil rifja upp, að það var einmitt í ársbyrjun 1969, sem samið var um það milli sjómannafélaganna og Landssambands ísl. útvegsmanna, að fæði skyldi greitt fyrir skipverja á bátum, og náði það eingöngu til báta yfir 12 lestum. Þetta frv. er búið að vera til athugunar hjá hv. sjútvn. nokkuð lengi, og í umsögn frá þessum aðilum er annar samningsaðilinn á móti þeirri breytingu, sem sjútvn. var sammála um að bera fram. Hinn aðilinn, sem er Sjómannasamband Íslands, vildi samþ. þessa breyt. með því, að til viðbótar við það, sem upphaflega var í frv., kæmi sú kvöð á eigendur þessara báta, að þeir auk slysatryggingar kaupi líf- og örorkutryggingu, eins og samið var um í heildarsamningum milli útvegsmanna og sjómanna, en um það segir í 18. og 19. gr. samninganna, og ætla ég að leyfa mér að lesa það hér upp:

„Útgerðarmaður tryggir á sinn kostnað hvern þann mann, er samningur þessi tekur til, samkv. hinum almennu skilmálum um atvinnuleysistryggingu, fyrir 400 þús. kr., miðað við dauða eða fulla örorku, sbr. framlögð tryggingaskírteini. Sérákvæði um fyrirvara á tryggingu yfirmanna í frítímum skal einnig ná til annarra skipverja. Upphæðin greiðist aðstandendum hlutaðeigandi skipverja, ef hann deyr, en honum sjálfum, ef hann verður óvinnufær að dómi læknis. Trygging þessi kemur að fullu til frádráttar slysa- og dánarbótakröfu á hendur útgerðinni.“ Enn fremur er 19. gr. um ábyrgðartryggingu, þar sem segir: „Útvegsmenn skuldbinda sig til þess að taka ábyrgðartryggingu, samkv. hinum almennu skilmálum fyrir ábyrgðartryggingu, fyrir allt að 1 millj. 250 þús. kr. fyrir hvert einstakt tjón með hámarksgreiðslu til hvers einstaklings allt að 500 þús. kr.“

Ég viðurkenni það sjónarmið, sem fram kemur hjá hv. þm., að það getur alltaf verið matsatriði, hvar á að draga línurnar, en í þessu tilfelli get ég ekki fallizt á, að það verði gengið lengra en frv. það, sem hér liggur fyrir til umr:, gerir ráð fyrir með þeirri breyt., sem þegar er búið að samþ.

Ég vil leggja áherzlu á, að það er einmitt mjög miklum erfiðleikum bundið að fylgjast með öllum hreyfingum opnu vélbátanna, en eins og stendur í frv. þá skal þetta vera bundið við atvinnu manna, þ. e. að þeir stundi þessa atvinnu í 5 mánuði. Þetta er vissulega nokkuð þröngt, en ef fara á að útvíkka það, þá mundi ég álíta, að þessu máli væri stefnt í hættu, en réttarbót er þetta fyrir þá, sem tileinka sér þessa atvinnu, þótt menn séu ósammála um það.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að brtt. á þskj. 594 verði felld, en frv. samþ. óbreytt.