28.04.1970
Neðri deild: 89. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1333 í B-deild Alþingistíðinda. (1849)

130. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Þegar þetta mál var til 3. umr. í hv. Nd., þá leyfði ég mér að flytja brtt. þess efnis, að opnir vélbátar yrðu ekki hafðir útundan í þessu frv. Þessi till. hlaut ekki samþykki hér í d. og hv. Ed. hefur ekki heldur talið sig eiga að taka þetta tillit til þeirra, sem minnstir eru fyrir sér í sjávarútveginum en greiða eigi að síður í sjóðinn. Nú geri ég ráð fyrir, að þetta frv. verði að lögum, og mun ekki endurtaka þessa till., því það er ekki heimilt, en ég vil beina því til hæstv. sjútvrh., ef hann væri hér viðstaddur, ella til einhvers annars hæstv. ráðh., að taka þetta mál til íhugunar milli þinga.